Hamingjan er hörð, ekki málamiðlun

frettinPáll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:

Ríkisvald sem hyggst gera þegna sína hamingjusama mun valda eymd og volæði alls þorra manna. Hamingja einstaklinga er aðeins möguleg ef þeir sjálfir fá tækifæri að leita hennar. Forskrift ríkisvalds að hamingju leiðir óhjákvæmilega til óhamingju.

Katrín forsætis flokkar hamingjuna til mjúku málanna í áramótaávarpi og fylgir þar hefð. Á sama hátt eru efnahagsmál talin til hörðu málanna; mælanleg og afgerandi - á meðan hamingjan er hugarástand.

Einstaklingur, þegn ríkisvalds, er eftir atvikum hamingjusamur eða ekki. Hann getur með hugarfari dimmu í dagsljós breytt, eins og skáldið sagði, eða alið með sér óánægju og fundið lífinu flest til foráttu. Í þeim skilningi er hamingjan hörð, krefst sjálfsaga.

Ríkisvald á hinn bóginn getur ekki dimmu í dagsljós breytt. Aftur er mýgrútur sögulegra dæma um að ríkisvaldið leiði yfir þegnana myrkur um miðjan dag.

Í venjulegu árferði er meginhlutverk ríkisvaldsins, fyrir utan að gæta laga og reglna, að standa fyrir málamiðlun milli hagsmunahópa þjóðfélagsins. Við erum skipulögð í ógrynni hópa; íþróttafélög, sveitarfélög, stjórnmálaflokka, trúfélög, verkalýðsfélög og svo má áfram telja. Endalaus málamiðlun er á milli þessara hópa. Það er, eða á að vera, hlutverk ríkisvaldsins að sjá um að miðla málum á opinberum vettvangi en láta einkalíf fólks að mestu í friði.

Málamiðlunin er vandasöm. Það sést best á undantekningartilfellum, þegar nýrra málamiðlana er þörf. Heimsfaraldurinn var slíkt tilfelli. Þar reyndi verulega á getu ríkisvaldsins til að feta einstigi milli lok, lok og læs hagsmunahópsins annars vegar og hins vegar hópsins látum skeika að sköpuðu. Um tíma var æðsta stjórn ríkisins svo vanmáttug að hún útvistaði valdinu til embættismannastjórnar, þríeykisins.

Hvað varð um hamingjuna í kófinu? Tilfallandi höfundur er framhaldsskólakennari og getur borið vitni um það að sumir nemendur voru sáttir að læra heima, í fjarnámi, á meðan aðrir vanþrifust að hitta ekki skólafélaga. Einstaklingar eru ólíkir, bregðast mismunandi við breyttum aðstæðum. Vel að merkja: allur þorri nemenda, sem ég kenndi, sýndi merki um sjálfstæðari vinnubrögð eftir kóf. Mér fannst það staðfesta orðtakið að neyðin kenni naktri konu að spinna.

Meginlexía faraldursins er að ein stærð hentar ekki öllum. Það er mannlífið í hnotskurn. Við eigum að gjalda varhug við pólitískri hugmyndafræði sem þykist vita það sem aldrei verður vitað; hvernig hver og einn skal haga lífi sínu.

Í upphafi árs er vert að minnast þess að enginn veit framtíðina. Lífið er þannig að verkefnin koma til okkar, bæði þau sem við verðum að leysa sem einstaklingar og verkefni samfélagsins.

Hamingjan er að stærstum hluta hvers og eins en alls ekki ríkisvaldsins að höndla með.

Gleðilegt nýtt ár.

Skildu eftir skilaboð