Hatursorðræða leið til að skerða tjáningar-og skoðanafrelsi: skilgreining ekki til í lögum

frettinHatursorðæða, Tjáningarfrelsi, Viðtal, Þórdís B. Sigurþórsdóttir1 Comment

Erna Ýr Öldudóttur blaðamaður var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í síðdegisútvarpinu á Sögu í dag. Þær ræddu þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lagt fram. Erna benti á að engin skilgreining á hatursorðræðu væri til í íslenskum lögum og hvað fælist í slíkri orðræðu.

Aðgerðirnar sem eru margskonar eru sagðar eiga bæta stöðu og réttindi borgara sem eru í viðkvæmri stöðu fyrir hatursorðræðu, og eiga vera til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag, eins og segir í þingsályktartillögunni.

Erna sendi inn umsögn til Alþingis varðandi tillöguna þar sem hún bendir á að stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi væri hornsteinn vestrænnar menningar og lýðræðis og ekki væri að sjá að samfélag okkar sé svo plagað af hatursorðræðu að brýn nauðsyn sé á sérstakri aðgerðaráætlun. Í umsögninni segir Erna að þar sem til standi að skerða tjáningar-og skoðanafrelsi almennings með tillögunni þurfi að liggja fyrir brýnir almannahagsmunir. Ekki hafi verið færð rök fyrir því hverjir þeir hagsmunir eru eða af hverju, auk þess sem hugtakið hatursorðræða hafi ekki verið skilgreint.

Erna sagði frá ráðstefnu sem hún sótti í Hörpu um málið í október sl.  Sérfræðingur hafi verið á staðnum sem fór yfir það hvernig hatursorðræða sé skilgreind annars staðar í heiminum og hjá alþjóðastofnunum. Sérfræðingurinn sagði meðal annars að það væri ekki til nein samræmd skilgreining og að sjálft hugtakið væri mjög opið og óljóst.

Þá benti Erna á að reglur sem eiga að sporna við hatursorðræðu hafi fyrst verið settar eftir seinni heimsstyrjöldina. Tilgangurinn var að koma í veg fyrir að það endurtaki sig hvernig nasistar komu fram við þegna sína með hatursorðræðu, til dæmis með auglýsingaherferðum gegn gyðingum. Þannig hafi reglur sem þessar verið settar til þess að stöðva stjórnvöld í að ofsækja almenna borgara.

Eitt af því sem aðgerðaráætlunin gegn hatursorðræðu gerir ráð fyrir er að opinberir starfsmenn hér á landi sæki fræðslunámskeið um hatursorðræðu. Forsætisráðherra hefur sagt að því verði fylgt fast eftir og fylgst verði með mætingu starfsmanna með sérstöku mælaborði.

Erna segir þessa nálgun Katrínar vera meira í líkingu við það sem gerist í alræðisríkjum, ekki lýðræðisríkjum, og vonar að opinberir starfsmenn spyrni við fótum og ræði við sitt stéttarfélag, ef þvinga eigi starfsmenn gegn sínum vilja til að sækja slíkt skyldunámskeið.

„Mér finnst svívirða að leggja þetta til því eins og ég sagði áðan þá var þetta upphaflega sett fram til að hafa hemil á stjórnvöldum en núna ætlar forsætisráðherra að snúa þessu á haus og nota til að ráðast gegn borgurunum. Ég sé þetta bara sem árás því það er engin heimild fyrir þessu, hvorki í stjórnarskrá eða mannréttindasáttmálum, það er búið að snúa þessu við og þau eru ófær um að skilgreina hvað sé hatursorðræða“ sagði Erna í viðtalinu sem hlusta á má hér.

Umsögn Ernu Ýrar til Alþingis er svohljóðandi:

Umsögn fyrir Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu 2023-2026 Erna Ýr Öldudóttir - 14.01.2023.

Þar sem að til stendur að skerða stjórnarskrárbundið tjáningar- og skoðanafrelsi borgaranna með þessu frumvarpi þá þurfa að liggja fyrir brýnir almannahagsmunir. Ekki hafa verið færð haldbær rök fyrir því hverjir þeir séu eða af hverju. Til viðbótar hefur ekki verið skilgreint þröngt og nákvæmlega, hvað hatursorðræða sé. Hvorki á Íslandi né alþjóðlega. Þannig fengi opinbert vald allt of víðar og óskýrar heimildir til að skerða grundvallarmannréttindi í landinu. Svo óljósar og víðar heimildir gætu stuðlað að geðþóttaákvörðunum stjórnvalda, með fyrirséðum alvarlegum afleiðingum fyrir borgarana í landinu og niðurrifi á frjálsu lýðræðisþjóðfélagi. Ég óska eftir að þetta mál verði tekið af dagskrá.

One Comment on “Hatursorðræða leið til að skerða tjáningar-og skoðanafrelsi: skilgreining ekki til í lögum”

  1. Þetta er sáraeinfalt og engin þörf á skilgreiningu:

    „Hatursorðræða“ er það sem áður var kallað „fordómar“, og sem „þolandi“ gat bara nöldrað yfir eða verið fúll.
    En eftirleiðis verður þetta mun skárra, reyndar alveg frábært:

    Hringja bara í lögguna og kæra fyrir hatursorðræðu !

Skildu eftir skilaboð