Sádí-Arabía segir möguleika á olíuviðskiptum í öðru en Bandaríkjadollar

ThordisOlíuviðskiptiLeave a Comment

Sádi-Arabía, stærsti hráolíuútflytjandi heims, er opin fyrir möguleikanum á olíuviðskiptum í öðrum gjaldmiðlum en Bandaríkjadollar. Þetta sagði Mohammed Al-Jadaan, fjármálaráðherra Sádi-Arabíu, við Bloomberg TV á þriðjudag. Viðtalið var tekið í bænum Davos í Sviss þar sem ráðstefna World Economic Forum fer nú fram.

Sá möguleiki að Sádi-Arabía sé opin fyrir viðræðum um olíuviðskipti í gjaldmiðlum öðrum en Bandaríkjadollar gæti verið önnur ógn við núverandi yfirburði Bandaríkjadollar í alþjóðlegum olíuviðskiptum.

„Það er ekkert vandamál að ræða það hvernig við gerum upp viðskipti okkar, hvort sem það er í Bandaríkjadollar, evru eða sádi-arabísku ríali,“ sagði Al-Jadaan við Bloomberg TV. „Ég held að við komum ekki til með að útiloka neitt sem getur hjálpað til við að bæta viðskiptin um allan heim,“ bætti ráðherrann við.

Sádi-Arabískt ríal hefur verið bundin við Bandaríkjadollar í áratugi, og olíuútflutningur Sádi-Arabíu þannig stutt við "petrodollar" kerfið síðan á áttunda áratugnum. 

Aftur á móti er Sádi-Arabía nú reiðubúin að auka samstarf sitt í olíuviðskiptum við Kína, stærsta hráolíuinnflytjanda heims.

Í síðasta mánuði þegar Xi Jinping, forseti Kína, heimsótti Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu samþykktu ríkin tvö að auka viðskipti sín með hráolíu.

Kína ætlar fyrir sitt leyti að gera sinn eigin gjaldmiðil, yuan, meira leiðandi í alþjóðlegum olíuviðskiptum.

Skildu eftir skilaboð