Nýtt ofurtungl í Vatnsbera

frettinGuðrún Bergmann, StjörnuspekiLeave a Comment

Eftir Guðrúnu Bergmann:

Þann 21. janúar kveiknar nýtt Ofurtungl í Vatnsbera. Daginn eftir eða þann 22. janúar stöðvast Úranus, einungis fáeinum klukkustundum eftir að Ofurtunglið kveiknar, á fimmtán gráðum í Nauti til að breyta um stefnu og fara beint áfram. Í nokkra daga fyrir og eftir þann 22. janúar – stuttu eftir nýja Ofurtunglið sem er sérlega öflugt – gætum við séð Úranusorkuna birtast í heiminum.

Hún birtist skyndilega, eins og elding, í óreglulegu orkuflæði. Það gætu orðið eiginlegir jarðskjálftar eða eldgos, en það gætu líka orðið jarðskjálftar og eldgos í stjórnmálum, fjármálum, eða sláandi viðburðir þar sem sannleikurinn kemur fram komið fyrir augu almennings – en Úranus er mjög tengdur sannleikanum. Eitthvað eða allt af þessu gæti gerst á dögunum í kringum þann 22. janúar – einkum og sér í lagi vegna þess að Úranus stjórnar nýja Ofurtunglinu í Vatnsbera – þar sem hann stjórnar Vatnsberanum.

Við gætum líka séð uppreisnargjarna framkomu, þar sem Vatnsberinn vill gera samfélagslegar breytingar og er táknrænn fyrir þann sem fer sýnar eigin leiðir og er byltingagjarn. Þetta á einkum við ef sannleikurinn er afhjúpaður – því þá geta viðbrögð fólks orðið mjög mismunandi.

NÝJU ÁRI FAGNAÐ HJÁ KÍNVERJUM

Kínverjar fagna nýju ári þann 22. janúar. Síðasta ár hefur verið ár Tígursins, en nú tekur við ár Kanínunnar í vatnselementinu. Nýju ári er fagnað með vikulöngu fríi, en samkvæmt kínverskri menningu er ár kanínunnar táknrænt fyrir langlífi, frið og velmegun. Þetta eru þrjú element, sem ættu að henta vel í ólgandi og umbreytandi heimi, en ár Kanínunnar sendur til 9. febrúar árið 2024.

MIKILL UMBREYTINGARDAGUR

Mikil umbreyting virðist fylgja 22. janúar, því frá og með þeim degi eru allar pláneturnar tíu, sem stjörnuspekin hefur hingað til verið byggð á, á leið beint fram á við um sporbaug sinn en það er frekar sjaldgæft. Þær verða það fram í byrjun maí, en þá breytir Plútó um stefnu til að fara aftur á bak. Því að allar plánetanna eru á stefnu beint fram á við fylgir aukinn hraði og skriðþungi, þar sem orkan stefnir öll í sömu átt. Eitt af því sem styður þennan hraða og skriðþunga enn frekar, er að Júpiter er í Hrút. Hrútnum fylgir óþolinmæði og Júpiter þenur allt út og magnar upp.

Kannski er kominn tími til, því undanfarin ár er eins og allt hafi verið staðnað og hálfgert þrátefli verið í gangi. Satúrnus og Plútó voru árin 2020 og 2021 með allar sínar lokanir og harða  stjórnun að ofan frá stjórnvöldum, stofnunum og stórfyrirtækjum. Þrátt fyrir spennuafstöðuna á milli Satúrnusar og Úranusar árin 2021 og 2022, en henni fylgdu ýmis mótmæli og uppþot víða um heim, hefur okkur flestum fundist eins og lítið hafi miðað framávið í heimsmálunum. Það á hins vegar eftir að breytast á þessu ári því það verður mjög viðburðaríkt.

KORTIÐ FYRIR NÝJA OFURTUNGLIÐ

Þar sem þetta Ofurtungl er á sporbaug mjög nálægt Jörðu eykur það kraftinn og styrkinn í því sem það er táknrænt fyrir. Það getur líka gefið til kynna líkur á jarðskjálftum, þar sem togkrafturinn gagnvart Jörðinn er öflugri, vegna þess hversu nærri Tunglið er.

Tunglið kveiknar á einni gráðu og 32 mínútum í Vatnsbera klukkan 20:53 að kvöldi til í Reykjavík. Sól og Tungl eru alltaf í samstöðu við nýtt Tungl, en þetta er þriðja Tunglið í röð af fimm, sem öll eru á fyrstu gráðu í því merki sem þau lenda í.

Slík staða hefur margföld áhrif og er enn eitt merkið um nýtt upphaf og nýja Jörð. Skoðið hvar þetta lendir í fæðingarkortum ykkar og í hvaða húsi. Skoðið hvort þið séuð með einhverja plánetu á fyrstu gráðu í Vatnsbera eða Nauti því þá er níutíu gráðu spennuafstaða milli plánetanna. Ef það er í Ljóni þá myndar það 180 gráðu spennuafstöðu og ef um er að ræða fyrstu gráðuna í Sporðdreka myndast 90 gráðu spennuafstaða. Samhljóma afstöður eða 120 gráður eru ef Ofurtunglið tengist fyrstu gráðu í Vog eða Tvíbura.

ÚRANUS STJÓRNAR VATNSBERANUM

Vatnsberanum er stjórnað af Úranusi og eins og komið hefur fram er Úranus um það bil að stöðvast á tæplega fimmtán gráðum í Nauti til að snúa við og fara beint áfram um sporbaug sinn. Stjörnuspekingar skoða alltaf fimmtándu gráðuna í föstum merkjum, því hún er í fjörutíu og fimm gráðu fjarlægð frá núll gráðunni í Kardinála merkjunum (Hrútur, Krabbi, Vog og Steingeit) og þess vegna er Úranus einnig á Öxli Alheimsins. Það þýðir einfaldlega að það táknræna sem fylgir þessari afstöðu er líkleg til að verða fyrir augum almennings á einn eða annan hátt.

Það eru fimm plánetur í föstum merkjum á þessu nýja Tungli. Fjórar þeirra eru í Vatnsberanum sem er fast merki og Úranus er svo í Nauti sem er líka fast merki. Það er því mikil staðfesta og einbeyting í gangi, ásamt festu og stöðugleika, en einnig stífni eða þrjóska og óstýrilæti, þar sem koma fram mjög sterkar skoðanir frá báðum hliðum.

Það eru líka fimm pláentur í loftmerkjum. Fjórar þeirra eru í Vatnsberanum og Mars er í Tvíburanum, sem líka er loftmerki. Þetta gefur til kynna festu (föstu merkin) í viðhorfum og skoðunum á hlutunum (loftmerkin).  Þau viðhorf og skoðanir gætu til dæmis verið að birtast á samfélagsmiðlunum, vegna þess að bæði Tvíburinn og Vatnsberinn tengjast þeim.

PLÚTÓ, SÓL OG TUNGL

Það er utan merkja samstaða á milli Plútó (Steingeit), Sólar og Tungls (Vatnsberi). Jafnvel þótt við séum einungis með eina plánetu í vatnsmerki í korti þessa Ofurtungls, en það er Neptúnus í Fiskum, er það nú þannig að þegar Plútó er í samstöðu við Tunglið, megum við búast við mikilli tilfinningaspennu, jafnvel þótt þessar plánetur séu ekki sjálfar í vatnsmerkjum. Og um hvað mun þessi tilfinningaspenna snúast?

Þar sem Plútó er á síðustu gráðunni í Steingeit og Steingeitin er alltaf táknræn fyrir valdboð og stjórnun að ofan og niður til fólksins, en Vatnsberinn er táknrænn fyrir frelsi, sjálfstæði og sjálfræði, framtíðina og svo framvegis, megum við eiga von á að málin snúist um þetta. Þetta er næstum eins og endurtekning á 90 gráðu spennuafstöðunni á milli Satúrnusar og Úranusar. Rifist um fortíð og framtíð, frelsi eða ánauð og svo framvegis.

TILFINNINGAR TENGDAR FRELSI

Um það eiga tilfinningarnar væntanlega eftir að snúast. Hið áhugaverða er að ef við skoðum hlutina út frá sögulegu sjónarmiði, þá tekur það Plútó 248 ár að fara einn hring um sporbaug sinn. Ef við skoðum sögulega séð hvað hefur gerst þegar Plútó var að fara í gegnum síðustu gráðurnar í Steingeit, hvort sem um er að ræða vald kirkjunnar eða konungsveldis – eða eins og nú ríkisstjórna, stofnana og stórfyrirtækja, getum við átt von á að reynt verði að herða heljargreip valdsins og senda út fleiri valdboð, þegar Plútó er að fara í gegnum þessar síðustu gráður.

Jafnframt hafa líka sögulega séð alltaf orðið nokkurs konar endurkasts áhrif, þegar Plútó fer inn í Vatnsberann, sem hann gerir þann 23. mars á þessu ári. Nokkurs konar; nú er nóg komið og við viljum endurheimta frelsi okkar – en í mars fáum við smá innsýn í það hvernig þau þemu sem tengjast Plútó í Vatnsbera eiga eftir að birtast okkur þegar hann fer alveg inn í Vatnsberann.

PLÚTÓ Í VATNSBERA

Plútó verður bara í Vatnsberanum á þessu ári frá 23. mars til 11. júní. Í janúar á næsta ári fer hann hins vegar inn í Vatnsberann til lengri tíma og verður þar í níu mánuði. Hann er því í níu mánuði í Steingeit á þessu ári og svo níu mánuði í Vatnsberanum á næsta ári. Í lok árs 2024 eða í desember fer Plútó svo alveg inn í Vatnsberann og verður þar til ársins 2044 eða í 22 ár.

Plútó fer inn á síðustu gráðuna í Steingeit þann 11. febrúar næstkomandi og verður í kringum þá gráðu allan síðari hluta ársins 2023. Á þeirri gráðu kemur hann til með að grafa upp öll þau leyndarmál sem stjórnvöld, stofnanir og stórfyrirtæki hafa falið og tengjast skorti á heilindum, ábyrgð og gagnsæi. Hann þarf að vinna hratt og vel – því það verða um 240 ár þar til hann verður þar næst, en á þessum tíma er líklegt að valdhafar muni berjast  hart um að halda völdum.

En ef við skiljum stjörnuspekina, vitum við að sú valdabarátta verður eins og „hljóð í tómri tunnu“ því við skiljum sögulegu hliðina á því hver áhrif plánetanna eru. Leiðin sem við erum að fara liggur til hins nýja og það eru mörg skýr merki um það í stjörnuspekinni. Sjá nánar greinina: HVAÐ BER ÁRIÐ 2023 Í SKAUTI SÉR?

Fylgist bara með úr fjarlægð. Ekki sogast inn í dramað. Það er einn kosturinn við stjörnuspekina að hún gefur okkur þessa stóru mynd með sögulegri tengingu sem sýnir hvernig þessir ferlar hafa sögulega séð orðið.

NÚLL GRÁÐAN Í VATNSBERA

Þetta nýja Ofurtungl sem er á einni gráðu og 32 mínútum í Vatnsbera, er bara í einnar gráðu fjarlægð frá þeim stað á núll gráðunni í Vatnsbera, þar sem hin mikla samstaða Júpiters og Satúrnus á Vetrarsólstöðum varð í desember árið 2020.

Samstaðan á milli Júpiters og Satúrnusar á sér reglulega stað á tuttugu ára fresti. Þá endurtekur hún sig í sama elementi, í um það bil 200 ár. Síðustu 200 ár hafa þær samstöður verið í jarðarmerkjum og því var allt frekar þungt og Jarðtengt við þær. Tengt þungaiðja, jarðefnaeldsneyti, langtíma störfum á sama stað, heimilum fyrir lífstíð, allt svona frekar langtíma – og skilgreining á fólki var út frá starfstitli og auðæfum. Allt vegna þess að Júpiter og Satúrnus stilltu þessu svona upp vegna samstöðu sinnar í jarðarmerkjum.

Samstaðan færðist hins vegar yfir í loftmerki við lok árs 2020. Það sem er áhugavert hér er að þar sem Plútó kemur til með að rokka fram og til baka frá síðustu gráðunum í Steingeit yfir í fyrstu gráðu Vatnsberans – alls FIMM sinnum á þessu og næsta ári – kemur hann til með að fara yfir þessa núll gráðu í Vatnsbera jafn oft, en hana er þegar búið að virkja með samstöðunni milli Júpiters og Satúrnusar.

Þetta er mögnuð staðfesting á að hér sé um nýtt upphaf að ræða og þessar samstöður á milli Júpiters og Satúrnusar eiga eftir að endurtaka sig í loftmerkjum í um það bil 140 ár – eða pottþétt úr líf okkar flestra. Þetta undirstrikar endalok hins gamla og upphaf hins nýja.

VENUS OG SATÚRNUS

Það er líka þétt samstaða í þessu korti á milli Venusar og Satúrnusar, á tuttugu og þremur og tuttugu og fjórum gráðum í Vatnsbera. Ef sú samstaða lendir í fimmta eða sjöunda húsi samskipta í fæðingarkortum ykkar, gæti þetta bent til vandamála tengdum stjórnun í samskiptum ykkar, einhvers raunsæis eða skyndilegrar uppgötvunar sem tekur rómantíkina úr samskiptunum. Þið þurfið því að skoða hvort þetta samband henti ykkur, því ef ekki gengur það ekki upp.

Þessi samstaða gæti líka verið tengd rafeyri sem ætti að fara að setja í gagnið. Vatnsberinn er tengdur öllu stafrænu og Venus er tengdur peningum. Ef það eru seðlabankarnir sem koma til með að stýra þessum rafeyri, tengist það Satúrnusi sem er táknrænn fyrir stjórnvöld og kerfin.

JÁKVÆÐ ORKA HRAÐAR BREYTINGUNUM

Munið að þessu nýja Ofurtungli er stjórnað af Úranusi og hann er mjög öflugur. Úranus er að stöðvast til að fara beint áfram og Úranus er á Öxli Alheimsins á fimmtán gráðum í föstu merki. Það bendir til þess að við eigum eftir að hendast úr þeirri stöðnun sem við höfum verið í svo lengi.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir þeim mikilfenglega framþróunartíma sem við lifum á. Uppfærsla okkar er óhjákvæmileg. Eina spurningin er bara hversu hratt hún gengur fyrir sig. Þar spilum VIÐ sem meðskaparar stórt hlutverk. Ef við getum haldið okkur í jákvæðri orku kærleika, gleði, þakklætis og friðar, erum við að hraða því að hin nýja Jörð verði að veruleika. Það er í raun það eina sem við þurfum að gera. Við þurfum ekki að vita smáatriðin.

Ef við hins vegar dettum niður í óttann hægjum við á öllu ferli nýrrar Jarðar, bæði fyrir okkur sjálf og heildina. Hafið því í huga að það fylgir ákveðin samfélagsleg ábyrgð Vatnsberaorkunni. Við getum annað hvort farið hratt í gegnum þetta og flýtt fyrir eða ýttt undir breytingu og framvindu – eða farið hægt og eruð þá erum við að hægja á öllu fyrir heildina. Uppfærslan kemur til með að eiga sér stað hvort heldur sem er, en breytan snýst um þann hraða sem hún gerist á – og þar höfum við sem meðskaparar STÓRU hlutverki að gegna.

Nánar má lesa um þær breytingar sem við erum að fara í gegnum í bók minni LEIÐ HJARTANS

Skildu eftir skilaboð