Trans er 0,2% mannfjöldans

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar, TransmálLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

„Spurningin er ekki hvort við eigum að virða örminnihluta - 0,2% mannfjöldans samkvæmt þjóðskrá - sem segjast transkonur eða transkarlar. Spurningin er hvernig við eigum að virða þennan minnihluta en jafnframt vernda hagsmuni og réttindi helmings þjóðarinnar, kvenna.“

Þannig skrifar dálkahöfundur Telegraph, Nick Timothy, og segir Breta komna upp í kok af transumræðunni. Staðreyndir þurfi að vera á hreinu.

En hver er ásteytingarsteinn réttinda transfólks og kvenréttinda? Starfssystir Timothy á Telegraph, Suzanne Moore, fær reglulega haturspóst fyrir að halda fram staðreyndinni að líffræðileg kyn séu tvö og að kyn skipti máli. Konur séu eitt en karlar annað.

Suzanne Moore skrifar: „Vitaskuld er transfólk til, ofbeldi karla er einnig staðreynd...flestir transaktívistar eru karlar sem fá útrás fyrir kvenfyrirlitningu á nýjum vettvangi og líður vel að hafa hana í frammi klæddir undirfatnaði kvenna.“

Ný frétt er af transkonu, Isla Bryson, sem var áður karlmaður og hét Adam Graham. Isla/Adam fær dóm í Glasgow fyrir að nauðga tveim konum. Á milli ákæru og dóms skipti Adam og nafn og kyn. Tillaga var felld á skoska þinginu, um að karlar ákærðir fyrir kynferðisbrot mættu ekki skipta um kyn. Á meðan Isla bíður dóms er hann/hún í gæsluvarðhaldi, - í kvennafangelsi.

Bretar eiga í stökustu vandræðum með transumræðuna. Jafnvel í nágrannasveitarfélaginu, Írlandi, er svo komið að kennari er sendur í fangelsi fyrir að nota ekki ,,rétt" fornafn.

Styrinn í Bretlandi stendur í þessari umferð síður um fornöfn en þess meira um kvenréttindi. Suzanne Moore segir að undir formerkjum trans ógni karlar, sem kalla sig konur, öryggi og velferð kvenna í sérrýmum, t.d. kvennasalernum, mæðradeildum á sjúkrahúsum og í íþróttum.

Annað álitamál og almennara er hvernig örlítill minnihluti, 0,2%, nær slíkum tökum á opinberri umræðu að það sé hættulegt að halda fram augljósum staðreyndum, að kynin eru tvö, og það sé líffræði en ekki hugarfar sem ræður hver er hvort kyn.

Fullorðið fólk, vel gert til hugar og handa, þorir ekki að andmæla þegar hversdagsleg sannindi eru úrskurðuð ósönn af harðskeyttum sértrúarhópi. Deigur hugur veit ekki á gott samfélag.

Skildu eftir skilaboð