Hatursorðræða: „Óveðurský yfir tjáningarfrelsinu“ og kjósendur VG vantar verkefni

frettinHatursorðæða, Stjórnmál, Tjáningarfrelsi1 Comment

Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður, var í viðtali á Útvarpi Sögu í nýliðinni viku og ræddi þar hatursorðræðu. Eins og fram hefur komið þá hefur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, boðað þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu. Þar er meðal annars lagt til að boðið verði upp á skyldunámskeið fyrir opinbera starfsmenn um þess konar orðræðu.

„Umræðan um hatursorðræðu er afar vandasöm,“ segir Björn Þorri en telur þó flesta sammála um að hana eigi ekki að líða. Hann bendir jafnframt á að til séu lagagreinar sem taka á slíku, eins og ærumeiðingalöggjöfin. „Það sé hins vegar þannig að við sem þjóð séum komin á undarlegan stað þegar skoðanir á tilteknum hlutum sem byggjast á röksemdum eins og pólitík eða efnahagslegri getu o.s.frv. sé talið sem hatursorðræða“, sagði Björn Þorri.

Þá sagði Björn Þorri að sjá mætti óeðlileg afskipti Evrópusambandsins þar sem hnýtt er í Svía og það kallað hatursorðræða þegar Kóraninn eða fánar eru brenndir. Björn segir að fara þurfi varlega með að stimpla skoðanir sem hatursorðræðu, til dæmis þegar menn hafa skoðanir á réttindum kvenna af íslömskum sið, eða gagnrýna Þjóðkirkjuna eða barnaníð innan Kaþólsku kirkjunnar.“

„Má maður þá ekki hafa skoðanir á þessu? er það þá orðið hatursorðræða?“ spyr Björn.

Hann segir óveðursský yfir tjáningarfrelsinu sem sé áhyggjuefni og hann beri virðingu fyrir þeim sem benda á að verið sé að vega að tjáningarfrelsinu. Björn telji þó að Katrín og félagar vilji verja tjáningarfrelsið en það að setja upp námsskeið um hatursorðræðu beri vott um að kappsemin sé að bera VG ofurliði. Viðtalið við Björn Þorra má heyra hér.

Kjósendur VG í vandamálagreinum vantar vinnu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson alþingismaður var einnig gestur á Útvarpi Sögu í vikunni þar sem sama efnið var rætt, hatursorðræðan.

Sigmundur sagði hugmyndina um námskeið í hatursorðræðu alveg ótrúlega og furðar sig á því að forsætisráðherra hafi yfirleitt látið sér detta það í hug.

„Þarna er verið að útbúa vinnu fyrir kjósendur Vinstri grænna. Fólkinu sem hefur útskrifast úr vandamálagreinum og vantar eitthvað að gera, mjög afmarkaður hópur með afmarkaðar skoðanir. Það verða engir kennarar þarna sem útskýra mikilvægi málfrelsis eða mikilvægi mannréttinda á borð við eignarétt heldur verður kennt hvers vegna Vinstri grænir hafi rétt fyrir sér um lífið og tilveruna,“ segir Sigmundur.

Sigmundur sagði það sláandi að heyra að forsætisráðherra hafi viðurkennt í viðtali á Bylgjunni þegar „fræga glærumálið“ kom upp hvort það væri hatursorðræða og reyndar vissi hún ekki hvað hatursorðræða væri og þess vegna þyrfti hún að fara á námskeið.

„Þegar fjármálaráðherra gagnrýndi þetta og Katrín var spurð út í þá gagnrýni þá forhertist hún og sagði að fjármálaráðherra þyrfti greinilega að fara á námskeið um hatursorðræðu. Þarna erum við að sjá forsætisráðherra VG bregðast við efasemdum leiðtoga stærsta flokksins með þeim orðum að hann þurfi að sitja námskeið í Vinstri grænum fræðum.“ sagði Sigmundur. Viðtalið má hlusta á hér.

One Comment on “Hatursorðræða: „Óveðurský yfir tjáningarfrelsinu“ og kjósendur VG vantar verkefni”

  1. Það styttist í það að almenningur á Vesturlöndum verður send í ´námskeið´ líkt og almenningur í Kína og Norður-Kóreu.

Skildu eftir skilaboð