Kyn og ímyndun, Messi og mannréttindi

frettinKynjamál, Páll Vilhjálmsson1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:

Líffræðileg kyn eru tvö, karl og kona. Meðvitundin og líkaminn eru einn og sami hluturinn, ekki aðskildar einingar. Af þessum tveim staðreyndum leiðir að enginn fæðist í röngum líkama og nýburi getur aðeins verið annað tveggja, karlkyns eða kvenkyns. Í örfáum tilvikum eru kyneinkenni óræð. Í samráði við foreldra er nýbura veitt læknisaðstoð.

Þótt eitthvað sé ómögulegt, t.d. að fæðast í röngu kyni, má hver og einn ímynda sér að kyn og meðvitund fari ekki saman hjá sér. Það er ranghugmynd á ábyrgð þess sem fóstrar hana með sér. Viðkomandi mætti einnig ímynda sér að kynin séu ekki tvö heldur þrjú, fimm eða seytján.

Ímyndanir eru frjálsar hverjum og einum. Sá sem ekkert kann í fótbolta má ímynda sér að hann sé í raun betri en Messi. Heimurinn eigi bara eftir að uppgötva þau sannindi. Tuðrusparkarinn gæti jafnvel nýtt sér að félagafrelsi er í landinu og stofnað félagsskapinn Ég-er-betri-en-Messi.

En hvorki þeir sem ímynda sér kynin fleiri en tvö og að vitund og líkami séu aðskilin fyrirbæri né fótboltastrákurinn Ekki-Messi eiga þau mannréttindi að aðrir trúi ímynduninni. Ef svo væri yrði almenningur uppfullur af fáránlegustu hugmyndum; að jörðin sé flöt, fljúgandi furðuhlutir staðreynd, Ísland sé stórasta landi í heimi, manngert veðurfar og svo framvegis.

Mannréttindi eru ekki fyrir sértrúarhópa sem vilja troða ímyndun sinni ofan í kokið á náunganum. Einstaklingar sem ekki hafa framselt dómgreind sina sértrúarsöfnuði eru í fullum rétti að andmæla ímyndun annarra þegar hún birtist í opinberri umræðu. Mætti þar tala um þegnskap. Ímyndanir, sem fá fjöldafylgi, geta orðið samfélaginu skaðlegar. Nægir þar að nefna ýmsa isma sem urðu vinsælir um miðja síðustu öld.

Mannréttindi eru einstaklinga, ekki hópa. Einstaklingur má kenna sig við hvað sem vera skal. Hann má kalla sig FH-ing, skáta, Seltirning eða trans. En alveg sama við hvaða ímyndun eða félagsskap menn kenna sig við fylgja þeim engin mannréttindi.

Á seinni tíð ber við að ef félagahópi er hallmælt, t.d. FH-ingum, sé það til marks um hatursorðræðu. FH-ingar eru vissulega jaðarsettur hópur og stríðir við bágindi. Félagið er nær gjaldþrota og rétt slapp við fall úr efstu deild á liðnu sumri.

Hatur er aftur tilfinning sem fer verst með þann sem elur hana með sér. Okkar minnstu bræður og systur sligast undan hatursfullum huga. Við eigum að finna til með þeim sem burðast með ónotin og hughreysta. Kannski fellur FH í sumar.

One Comment on “Kyn og ímyndun, Messi og mannréttindi”

Skildu eftir skilaboð