Hvað varðar Pírata, Samfylkingu og Viðreisn um þjóðarhag?

frettinJón MagnússonLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Vandamál koma upp og fá afgreiðslu, en málefni hælisleitenda (umsækjenda um alþjóðlega vernd) er og verður stöðugt viðfangsefni og gríðarlegt vandamál. Það vandamál er viðvarandi og verður stöðugt erfiðara úrlausnar og þarfnast því nútímalegra lausna og lagasetningar.

Aldrei hefur verið eins auðvelt og ódýrt að ferðast á milli landa og nú, og aldrei hefur fólk átt eins auðvelt með að afla sér upplýsinga um einstök lönd og löggjöf um innflytjendamál. Yfir 100 milljónir eru á flótta eða svonefndum flótta í heiminum. Ætla má að vaxandi fjöldi leiti því hingað að óbreyttum lögum.

Á síðasta ári komu fleiri hælisleitendur til Íslands en nokkru sinni fyrr. Ríkislögreglustjóri lýsti yfir hættuástandi og álag á íslenskt samfélag varð meira en það réði við. Það  hefur m.a. leitt til þess að íslenskir ríkisborgarar fá ekki sömu fyrirgreiðslu eða hafa sömu möguleika til að njóta ákveðinnar opinberrar þjónustu og meintir hælisleitendur. 

Flestir hælisleitendur sem hingað koma hafa farið í gegnum mörg örugg lönd áður en þeir koma hingað og eiga því ekki rétt á hæli, en meðferð mála þeirra taka mikinn tíma og kosta gríðarlega fjármuni skattgreiðenda.

Við þessar aðstæður mætti ætla að íslenskir stjórnmálamenn væru sammála um þjóðhagslega nauðsyn þess, að breyta  löggjöfinni til að stemma stigu við aðsókn þeirra sem eiga engan rétt á að koma hingað. 

Það er ekki boðlegt að ólöglegir innflytjendur sem vísað er úr  landi skuli vera komnir hingað eftir þvingaðan brottflutning hálfum mánuði eftir að fólkið var flutt úr landi með ærnum tilkostnaði íslenskra skattgreiðenda og undir harmakveini RÚV og annarra óábyrgra fjölmiðla. Við verðum að stjórna landamærunum.

Flóttmenn streyma inn í Evrópu

Þegar það liggur fyrir að kostnaður okkar vegna meðferðar mála ólöglegra innflytjenda(hælisleitenda) er orðinn óheyrilegur. Álag á innviði þjóðfélagsins er umfram þolmörk þess og ástandið á landamærunum er þannig að við stjórnum þeim ekki, þá ætti öllum sem annt er um þjóðarhag að vera ljóst, að við svo búið má ekki standa.

Búast hefði mátt við því að allir stjórnmálaflokkar mundu þá vera reiðubúnir til að setjast á rökstóla um það hvað sé til ráða til að stemma stigu við þessu ófremdarástandi. Því er þó ekki að heilsa.

Dómsmálaráðherra gerir sér grein fyrir vandanum, en kemst ekki áfram með að ná fram lágmarkslagfæringum á löggjöfinni. Stjórnarfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi um breytingar á útlendingalögum, er útþynnt frumvarp frá því sem Sigríður Andersen þá dómsmálaráðherra lagði fram á sínum tíma. 

Þrátt fyrir það er efnt til málþófs á Alþingi, þar sem Píratar, Samfylking og Viðreisn fara mikinn og belgja sig út af meintum mannkærleik í þágu allra annarra en Íslendinga, sem veitt hafa þeim umboð til að gæta hagsmuna sinna. Látum vera þó að flokkur eins og Píratar bregðist við með þeim hætti. En fyrir fram hefði mátt ætla að Samfylking og Viðreisn teldu meira virði að láta sér annt um þjóðarhag í stað þess að standa með Pírötum að þessu glórulausa upphlaupi gegn hagsmunum þjóðarinnar. 

Skildu eftir skilaboð