Lindarhvoll og leyndarhyggja

frettinJón Magnússon, StjórnmálLeave a Comment

Eftir Jón Magnússon:

Fjármálaráðuneytið stofnaði félagið Lindarhvol. Verkefni þess var að hafa umsjá með sölu á eignum sem féllu til ríkisins við hrunið. Eignir föllnu bankanna runnu til Lindarhvols, sem átti að hámarka verð þeirra. Lindarhvoll er fyrirtæki í almannaeigu til að gæta hagsmuna fólksins í landinu. 

Mikil leynd hefur hvílt yfir starfsemi Lindarhvols, sem er að sumu leyti eðlileg í ákveðin tíma, en langvarandi leynd um starfsemina er hins vegar ekki ásættanleg. 

Sigurður Þórðarson fyrrum ríkisendurskoðandi var fenginn til að gera skýrslu um Lindarhvol. Nú mörgum árum eftir að skýrslan var afhent Alþingi og fjármálaráðuneyti, hefur hún ekki fengist birt. Sjálfur furðar Sigurður Þórðarson sig á því.

Skýrslu Sigurðar Þórðarsonar á að birta þegar í stað. Sú afsökun forseta Alþingis að málið sé ekki fullrætt í forsætisnefnd Alþingis stenst ekki og er aumlegt yfirklór yfir eitthvað sem almenningur á rétt á að vita hvað er.

Komið hefur fram að fjallað sé um mikilvæg atriði í skýrslu Sigurðar. Mikilvægt er því,að skýrsla hans sé birt sem fyrst. Einkum og sér í lagi þar sem óeðlilegur draugagangur virðist vera í kringum starfsemi Lindarhvols, sbr. að í nýlegum réttarhöldum, þar sem lögmaður ríkisins í málinu og aðalmaður í Lindarhvoli á sama tíma boðaði stjórnarfólk sameiginlega á vitnafund fyrir þinghald í dómsmálinu  þ.á.m. dómara við Hæstarétt Íslands, sem Hæstiréttur verður að gaumgæfa hvort hafi gert sig vanhæfa til setu í æðsta dómi landsins vegna þess. 

Við ungir Sjálfstæðismenn höfðum og höfum sem vígorð "gjör rétt, þol ei órétt." Nú ríður á að Birgir Ármannsson og Bjarni Benediktsson verði trúir þessu kjörorði okkar og hlutist til um það að skýrsla Sigurðar Þórðarsonar um Lindarhvol verði gerð opinber þegar í stað og skipuð  rannsóknarnefnd til að fjalla um starfsemi félagsins frá upphafi til dagsins í dag og niðurstöðurnar birtar þegar rannsóknarnefndin lýkur störfum. 

Þetta er félag stofnað af fjármálaráðuneytinu í almannaþágu og.  almenningur á því á rétt á að fá allar upplýsingar um starfsemi félagsins jafnt góðar sem slæmar.

Sé eitthvað slæmt í farteskinu verða þeir sem ábyrgð bera að axla hana, en Sjálfstæðisflokkurinn má ekki vera málsvari leyndarhyggju, vondrar stjórnsýslu og einhvers e.t.v. þaðan af verra. Sjálfstæðisflokkurinn má aldrei koma í veg fyrir að mál sem eiga erindi til almennings í lýðræðisríki verði falin fyrir fólkinu í landinu.   Málefni Lindarhvols á varða svo sannarlega almenning. 

Skildu eftir skilaboð