Nánast útilokað að Úkraína sigri

ThordisPáll Vilhjálmsson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

„Sárt en satt: Úkraínskur sigur verður ólíklegri dag frá degi. Her Kíev-stjórnarinnar tapar bæði mannskap og hergögnum, óvinurinn kemur sér betur fyrir og býr að gífurlegum vopnabirgðum. Engin furða að vestrænir stjórnmálamenn tala æ oftar um vopnahlé.“

Tilvitnunin að ofan er fengin úr þýsku útgáfunni Die Welt, sem er hlynnt málstað Úkraínu og klappar að jafnaði þann stein að stutt sé í sigur Úkraínu. Fyrirsögnin á umfjöllun Die Welt er sú sama og á blogginu.

Rússar staðfesta að þeir sem ráða ferðinni í Úkraínu, bandarískir ráðamenn, sendi reglulega skilaboð um að Rússar láti af hernaðaraðgerðum í skiptum fyrir afléttingu viðskiptaþvingana. Rússar treysta ekki vesturlöndum. Friðarsamningar frá 2015 milli Úkraínu og Rússlands, kenndir við Minsk I og II, voru gerðir að undirlagi vesturlanda. Merkel þáverandi kanslari Þýskalands og Hollande þáverandi forseti Frakklands staðfestu síðar að Minsk-samningarnir voru til að kaupa tíma fyrir Úkraínu að vígbúast.

Síðustu fréttir af vestrænum hergögnum til Úkraínu eru um 100 skriðdrekar, sem afhentir verða næstu vikur og mánuði. Í Die Welt segir að Rússar ráði yfir um 4000, já fjögur þúsund, skriðdrekum. Ólíku saman að jafna.

Rússar eru með um 20 prósent af Úkraínu undir sinni stjórn. Sá hlutur fer stækkandi. Rússar eru í sókn en Úkraína í vörn og nauðvörn sums staðar, t.d. við Bakmút.

Um 60 til 70 prósent innviða Úkraínu eru ónýtir eftir árásir Rússa, samkvæmt Die Welt. Engar líkur eru á að viðgerðir lagi ástandið á meðan stríðið stendur yfir.

Mannfall í Úkraínuher er það mikið að karlar eldri en sextugir kvaddir í herinn. Rússar eiga 30 milljónir á herskyldualdri og geta bætt í herinn eftir þörfum.

Strax og Úkraínumenn fengu loforð um skriðdreka báðu þeir um herþotur. Þótt svo ólíklega færi að vesturlönd samþykktu myndu þotur litlu breyta. Til að bjarga Úkraínu verða Nató-ríkin að senda herlið í stórum stíl, mælt í hundruðum þúsunda. Vesturlönd hafa hvorki pólitískan vilja né bardagasveitir til að skipta sköpum í Úkraínu.

Bandarískir hershöfðingjar vilja ekki stríð við Rússa, segir Douglas Mcgregor fyrrum ofursti í Bandaríkjaher. Hann bætir við: Úkraína er að hrynja, hafa misst um 150 þúsund hermenn. Þá eru ótaldir aðrir fallnir auk örkumlaðra. Að ekki sé talað um milljónir flóttamanna.

Í lok viðtalsins við Mcgregor kemur fram að bandarísku skriðdrekarnir, sem nýlega var lofað, verða ekki tilbúnir fyrir en eftir marga mánuði. Ástæðan er sú að brynvörn skriðdrekanna er hernaðarleyndarmál sem Bandaríkjamenn vilja ekki að falli í hendur Rússa. Brynvörninni verður skipt út fyrir eldri og lélegri vörn. Vesturlönd senda rusl til Úkraínu og heimta slavneskt blóð í skiptum.

Í gær bárust fréttir að Rússar tóku smáþorp með stóru nafni: Sacco Vanzetti. Félagarnir Nicola Sacco og Bartolomeo Vanzetti voru ítalskir innflytjendur í Bandaríkjunum, dæmdir til dauða fyrir hundrað árum. Dómsmorð af pólitískum hvötum, var viðkvæði margra, en Sacco og Vanzetti voru stjórnleysingjar. Þegar frá líður Úkraínustríðinu verður spurt um hvatir að baki. Vesturheimskir munu sumir bera fyrir sig lýðræðis- og frelsisást. Nær er að tala um nekrófílíu.

Skildu eftir skilaboð