Það hriktir í heimsveldinu í vestri – hrævareldar og hrægammar í Úkraínu

frettinArnar Sverrisson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Eftir Arnar Sverrisson:

Það eru eins og margir vita, náin tengsl milli stjórnvalda í Washington og meginstraumsfjölmiðla, þar í landi. Þeim er iðulega beitt á vígvelli stjórnmálanna.

Fyrir skemmstu skrifaði utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Anthony Blinken, sem nú er á bólakafi við að stilla til friðar í Miðausturlöndum, Kremlverjum bréf, í líki kjallaragreinar í Washington Post.

Hriktir í stoðum heimsveldisins í vestri

Samkvæmt því hriktir greinilega í stoðum heimsveldisins í vestri, sem berst fyrir frelsi og lýðræði í Úkraínu. Það er svo að sjá, að bandarísk yfirvöld hafi takmarkaða trú á vígtólunum, sem þau senda í belg og biðu, enda þótt skriðdrekarnir með þotuhreyflunum verði sendir einhvern tíma til viðbótar þeim þýsku úr öllum áttum. Það virðist reyndar orðið þegnskylda að senda bryndreka til Úkraínumanna. Stríðsdjörf yfirvöld á Íslandi ættu að láta skattgreiðendur kaupa eins og einn og dubba utanríkisráðherra upp til bryndrekastjóra - í lopapeysu auðvitað.

Sem sé! Þrátt fyrir ógrynni fjár úr vösum skattgreiðenda og vígtól af öllu tagi í samræmi við stríðsáætlanir vígahugsuða Atlantshafsráðsins (Atlantic Council), og þrátt fyrir sigurvissuheitstrengingar Volodomyr og aðdáanda hans á Norðurlöndum og víðar, er nú komið ólundarlegt samningshljóð í strokkinn.

Digurbarkalegir Bandaríkjamenn daðra við þá hugsun að semja við Rússa, án þátttöku Volodymyr eins og vera ber. Hann hefur aldrei verið annað en tuskubrúða Nató. Ég gæti sem best trúað því, að hann verði settur í stofufangelsi á höfðingjasetri sínu í Florída í fyllingu tímans, þegar yfirvöld Vesturlanda snúa endanlega við honum baki.

Hrægammarnir hafa læst klóm sínum í auðlindir

Djúpríkinu, þ.e. alþjóðlegum og bandarískum auðjöfrum, líst greinilega ekki á blikuna lengur. Það liggur við borð, að þegar Rússar kjósa að fara í raunverulegt stríð, mun hitna mjög í kolunum. Auðvaldarnir óttast greinilega að missa spón úr aski sínum; auðævin, sem fólgin eru í jörðu og frjósömu akurlendi. Hrægammarnir hafa þegar læst klóm sínum í þessar auðlindir og mega ekki á heilum sér taka við tilhugsunina að missa höfnina í Ódessa. Því er það líklega, að gælt sé við hugmyndina um, að ekki verði amast við þeim landamærum, sem Rússar í Rússlandi og Úkraínu hafa dregið upp.

En hin yndisfagra Kremlarfrú, Maria Sakharova, snýr bara upp á sig, „vender den kolde skulder til,“ enda hafa Vesturveldin svikið eða sagt upp samningum við Rússneska ríkjasambandið - meira að segja um notkun kjarnorkuvopna - síðustu þrjá áratugina eða svo. Það gildir vissulega líka um Minsksamningana, sællar minningar, sem Frakkar, Þjóðverjar og Sameinuðu þjóðirnar höfðu ábyrgst.

Vesturlönd eru einfaldlega ekki samningshæf, óábyrg. Þrátt fyrir friðardaður í fjölmiðlum gæla stríðsbrjálaðir Bandaríkjamenn enn við þá hugmynd að senda orrustuþotur til viðbótar skriðdrekum og Bretar stæla sig af gervigreindarhermönnum sínum.

Úkraínumenn hafna opinberum friðarsamningum

Maria segir á þessa leið: Þar sem Úkraínumenn hafa hafnað opinberum friðarsamningum, munu vopnin verða látin tala. Málið er í höndum hernaðarsérfræðinganna. Rússar hafa einnig gefið þýska kanslarann, Olaf Scholtz, upp á bátinn, eins og hverja aðra strengjabrúðu í höndum Bandaríkjamanna og arftaka „Nazi Wehrmacht“ (þriðja stríðsríki Adolf Hitler). Hann anar áfram í blindi á söguna, hefur ekkert lært af fyrri mistökum þjóðar sinnar, sem var margir liðu fyrir.

Okkur er enn í fersku minni, hvernig skriðdrekar líta út og hverju þeir koma til leiðar. Þeir eru orðnir eins konar tákn. Tákn dauða og banvænnar hugmyndafræði og mannhaturs. Þeir eru ógn við jarðarkringluna alla. Hvað sjá Þjóðverjar fyrir sér? Skriðdreka í felulitunum, skreyttum járnkrossum, táknum þýska hersins, sem fá að aka um götur borga vorra og þorpa?

Það er okkur skýrt fyrir hugskotsjónum, hvaða afleiðingar það hafði á sínum tíma. Hverjar eru endurminningarnar í Berlín? Ákvörðun Þjóðverja að senda Leopard skriðdrekana til Úkraínu er söguleg, fyrir þær sakir, að þeir hafa þar með afsalað sér sjálfstæðri utanríkisstefnu. Olaf Scholtz hefur varpað fyrir róða öllu því, sem forverar hans frá lokum síðari heimsstyrjaldar, hafði tekist að byggja upp. Svo mörg eru orð Maríu.

Uppþot og upplausn í aðsigi hjá Nató

Það ber ekki á öðru, en uppþot og upplausn sé í aðsigi í Nató. Tyrkir leika sér að Svíum og Finnum og eru bandalaginu ótrúir með ýmsum hætti. Stíga í vænginn við Rússa, sem vilja dansa. Tyrkir fnæsa á Bandaríkjamenn og hernámsvini þeirra í Sýrlandi. Þeir gætu sem hægast fundið upp á því að hverfa úr bandalaginu.

Og nú ljúka Ungverjar upp munni og taka afstöðu gegn stríðsæsingasefjun á Vesturlöndum eins og sauðsvartur almúginn gerir líka í vaxand mæli. En RÚV hefur líklega ekki frétt af því.

Heimildir með greininni má finna hér.

Skildu eftir skilaboð