Hvað er að á Veðurstofunni?

frettinVeðurLeave a Comment

Lesandabréf:

Veðurstofan spáir óveðri sem kemur ekki og svo bilar eitthvað þannig að landsmenn fá hvorki veðurathuganir né veðurspár á vef Veðurstofunnar. Það vill svo heppilega til að aðrir aðilar, blika.is og belgingur.is birta veðurspár og Vegagerðin heldur uppi neti veðurstöðva, sem virka.

Við þessar aðstæður búa landsmenn sig undir að hlusta á afsakanir og skýringar Veðurstofunnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem vefur Veðurstofunnar er í ólagi. Það hefur gerst oft að undanförnu og stöku sinnum hafa starfsmenn Veðurstofunnar afsakað sig og gert tilraunir til að útskýra hvað fór úrskeiðis. Vitlausar veðurspár eru yfirleitt ekki útskýrðar, kannski er það ekki hægt. Það mætti þó reyna.

Núna kveður við annan tón. Fulltrúi Veðurstofunnar segir orðrétt á mbl.is: „Ekki er annað að sjá en að veðurspár séu að ganga ágætlega eftir“ og bætir svo við að vindur sé hvass á fjöllum og í Hvalfirði.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins vita allir að óveðrið kom ekki. Þeir sem ekki sáu það með eigin augum geta lesið það af mælum Vegagerðarinnar. Mælingar Veðurstofunnar eru því miður ekki aðgengilegar og ekki heldur spárnar. Á samfélagssíðu Veðurstofunnar er sagt að rafmagnstruflanir hafi líklega haft áhrif á kerfi Veðurstofunnar.

Hvernig stendur á því að kerfi Veðurstofunnar þolir ekki rafmagnstruflun þegar öll önnur kerfi úti í bæ ganga ótrufluð? Hvernig dettur starfsmanni Veðurstofunnar í hug að útskýra vitlausa veðurspá með því að segja að það sé hvasst á Skálafelli? Hvað er eiginlega að á Veðurstofunni? Fylgist einhver með því sem þar er gert eða ekki gert?

 Engin ný gögn hafa borist frá Veðurstofunni sl. 4 klst. segir á vef Vegagerðarinnar.

Skildu eftir skilaboð