Áhugi fjölmiðla á dauðanum fjarar út

frettinFjölmiðlar, Glúmur Björnsson, UmframdauðsföllLeave a Comment

Andlátum sem tengja mátti við Covid á árunum 2020 og fram eftir ári 2021 voru gerð rækileg skil í fjölmiðlum. Dauðsfalli var fylgt út hlaði með samúðartilkynningu á vef Landsspítalans og í upphafi „upplýsingafundar almannavarna og landlæknis“, sagt var frá því sem helstu frétt í netmiðlum og fyrstu frétt í útvarpi og sjónvarpi. Í kjölfarið fylgdu viðtöl við fulltrúa sóttvarnayfirvalda í flestum umræðuþáttum.

Umframdauðsföll á Íslandi 2020-2022

Fá dauðsföll – mikill áhugi

Alls voru 37 dauðsföll tengd við Covid samkvæmt tölum yfirvalda á árunum 2020 – 2021. Það er innan við 1% dauðsfalla á þessu tímabili. Aðstandendur hinna 99% sem létust á þessum árum fengu engar samúðarkveðjur frá yfirvöldum, upplýsingafundi eða fréttaflóð. Meðalaldur hinna látnu með/vegna Covid var yfir 80 ár árið 2020 sem er sá aldur sem menn geta almennt vænst að ná. Til að mynda voru þeir sem létust árið 2019 að meðaltali 78 ára.

Dánartíðni árin 2020 og lengstum 2021 var sömuleiðis á svipuðu róli og árin á undan. Enginn merkjanlegur umframdauði m.v. árin á undan. Þessi ár voru einfaldlega tíðindalaus hvað dauðsföll á Íslandi varðar. Dauðinn var engu að síður helsta fréttaefnið.

Mörg dauðsföll – lítill áhugi

Haustið 2021 verður veruleg breyting á. Hrina umframdauðsfalla hófst haustið 2021 og stendur enn. Hún hefur kostað um 350 mannslíf umfram það sem vænta mátti miðað við 5 ár þar á undan. Önnur eins aukning í dánartíðni hefur ekki sést frá 1918. Athygli vekur að þessi þróun hófst nokkrum mánuðum áður en aðgerðum stjórnvalda í nafni sóttvarna sleppti að mestu leyti í lok febrúar 2022. Þróunin sést glögglega á myndinni sem fylgir hér með frá Our World in Data. Einnig má sjá hana í gögnum frá Eurostat, Office of National Statistics og Hagstofu Íslands. Umframdauði á bólusettu Íslandi í nóvember 2021 til júlí 2022 var svipaður og á óbólusettri Ítalíu í upphafi faraldurs í febrúar til október 2020.

Fjölmiðlar hafa hins vegar sýnt þessari þróun sáralitinn áhuga. Hvernig stendur á því? Hvernig er hægt að hafa svona gríðarlegan áhuga á dauðanum á meðan dauðsföll eru eins og í meðalári en þegar þeim fjölgar skyndilega hverfur áhuginn?

Mögulegar ástæður

Fjölmiðlar tóku mjög afgerandi stöðu með sóttvarnaríkinu. Eina „aðhald“ þeirra með sóttvarnayfirvöldum voru spurningar um hvort ekki ætti að gera meira af því sama, herða aðgerðir í nafni sóttvarna. Þegar sóttvarnayfirvöld hættu að tala um dauðann hættu fjölmiðlarnir því einfaldlega líka.

Nútíminn krefst sýningar. Eina leiðin til að ná athygli er að efna til einhvers konar sýningar eða karnivals. Þegar ekki er lengur haldinn daglegur „upplýsingafundur“ um dauðsföll þar sem læknar og lögreglumenn troða upp í beinni útsendingu á öllum miðlum er líklega enginn að deyja.

Í ágúst 2022 gaf sóttvarnalæknir út yfirlýsingu um að líta bæri á öll umframdauðsföll af völdum Covid.  Fjölmiðlar gerðu ekki athugasemdir þótt þetta gæti vart staðist. Tilraun embættisins til að loka á umræðuna heppnaðist að því leyti. Umframdauðsföllin hafa hins vegar haldið áfram og í síðustu viku sagðist sóttvarnalæknir ekki geta sagt til um af hverju þau stöfuðu. Embættið virðist ekki standa við fyrri yfirlýsingu um að Covid sé eina ástæða hinna óvæntu dauðsfalla undanfarið rúmt ár enda eru dauðsföll sem tengja má Covid miklu færri.

Fjölmiðlarnir héldu lengstum flestir þeirri hugmynd yfirvalda að landsmönnum að lokanir og aðrar frelsisskerðingar myndu ekki hafa neikvæðar afleiðingar á heilsu manna. Þeir sem mölduðu í móinn vegna lokana, skimana, grímuskyldu og sóttkvíar voru sagðir andvígir því að „vernda líf og heilsu“. Hin miklu umframdauðsföll undanfarið ár eru áfall fyrir þessa hugmyndafræði. Til hvers voru allar frelsisskerðingarnar ef þetta er útkoman?

Líklega voru margir búnir að fá nóg af veirufárinu er leið á árið 2021. Almenn bólusetning gegn veirunni fyrri hluta árs 2021 hefur án efa slegið á ótta fólks óháð gagnsemi hennar. Fjölmiðlar hafa því að einhverju leyti fylgt straumnum þótt þeir telji hlutverk sitt annað og meira.

Svo óheppilega vildi einnig til að á meðan faraldrinum stóð hóf ríkið að styðja einkarekna fjölmiðla með verulegum fjárframlögum.

Greinin er eftir Glúm Björnsson og birtist fyrst á Krossgötur.is 11. febrúar 2023.

Skildu eftir skilaboð