Viðskiptabönn Vesturlanda hindruðu hamfaraaðstoð til Sýrlands

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Náttúruhamfarir, StjórnmálLeave a Comment

Viðskiptabönn Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja hindruðu erlenda hamfara- og mannúðaraðstoð í Sýrlandi, eftir jarðskjálfta upp á 7,8 og eftirskjálfta sem jöfnuðu heilu bæina í Tyrklandi og Sýrlandi við jörðu, aðfaranótt 6. febrúar sl. Frá því greindi m.a. AP News.

Hús og jafnvel heilu þorpin hrundu til grunna í SA-Tyrklandi.

Erlend aðstoð Vesturlanda barst hratt og vel til Tyrklands, á meðan viðskiptaþvinganir gerðu þeim ófært að aðstoða Sýrlendinga. Ríki sem ekki eru aðilar að viðskiptabönnunum sendu þó strax aðstoð til ríkjanna beggja, en þar á meðal eru Rússland, Indland, Kína, Íran, Afghanistan og sum arabaríkin, samanber frétt Al-Jazeera. Ísland er ekki á listanum en virðist ætla að aðstoða bæði löndin í gegnum Sameinuðu þjóðirnar, skv. utanríkisráðherra.

Vopnuð átök og taugaveiklun í alþjóðasamskiptum tefja mannúðaraðstoð og björgunarstarf

Til að gera björgun og aðstoð enn erfiðari, urðu hamfarirnar nyrst í landinu þar sem vopnuð átök á milli ýmissa hópa eiga sér stað. Ísraelski herinn hótaði til að mynda að sprengja flutningalest með hjálpargögnum frá Íran, þar sem hann taldi að vopn gætu verið falin í henni.

Rússneskir hermenn á svæðinu komu strax til aðstoðar, en engar upplýsingar fundust um að bandarískir hermenn sem standa vörð ólöglegar olíuboranir Bandaríkjanna í Sýrlandi, hafi tekið þátt í rústabjörgun eða öðrum hjálparaðgerðum.

Rússneskir hermenn aðstoða við rústabjörgun í Aleppo í Sýrlandi, 8. febrúar 2023.

Bandaríkin, eftir þrýsting frá kínverska utanríkisráðuneytinu, hafa nú fallist á að aflétta viðskiptaþvingunum að hluta í 180 daga til að auðvelda hjálparstarf í landinu. Það gæti þó orðið um seinan fyrir marga þá sem enn liggja grafnir í rústunum. Talið er að nú þegar hafi fleiri en 33 þúsund manns farist, þar af 29.605 í Tyrklandi og 3.576 í Sýrlandi, greinir CNN frá í dag. Þá eru slasaðir ótaldir.

Skildu eftir skilaboð