Washington DC: Mótmæli gegn stríðsvitfirringu og þriðju heimsstyrjöldinni

frettinArnar Sverrisson, Úkraínustríðið1 Comment

Eftir Arnar Sverrisson:

Það eru enn til friðarsinnar í landi hinna hugprúðu og frjálsu. Það voru þeir, sem stöðvuðu ógeðslegt stríð yfirvalda sinna í Víetnam á sínum tíma. Og árið 1982 mótmæltu friðarsinnar í Bandaríkjunum kjarnorkuvopnavæðingunni. Síðan lögðust þeir í dvala. En nú rumska þeir loksins, hafa yngt upp, og koma út á göturnar aftur, þ.e. þann 19. þessa mánaðar. „Fordæmið stríðsvélina“ (rant against the war machine) eru vígorð þeirra. Mótmælendur hræðast hamslausan hildarleik í veröldinni.

Fréttaþáttur með Jimmy Dore 

Þetta kemur fram í fréttaþætti, þar sem blaðamennirnir, Aron Maté og Max Blumenthal, ásamt spaugaranum og fjölmiðlamanninum, Jimmy Dore, stikla á stóru um framvindu stríðsins í Úkraínu. Undir lokin spjalla þeir um þátttöku Norðmanna í sprengingu gasleiðslunnar í Eystrasalti undir stjórn Bandaríkjamanna.

Hugsunin um þriðja heimsstyrjöldina er orðin býsna áleitin. Færa má gild rök fyrir því, að hún sé hafin og aðeins sé spurningin um, hvort beitt verði kjarnorkuvopnum eða ekki. 

Úkraínustríðið forleikurinn að þriðju heimsstyrjöldinni

Franski mann- og sagnfræðingurinn, Emmanuel Todd, leiðir líkum að því, að stríðið í Úkraínu sé aðeins forleikurinn að þriðju heimsstyrjöldinni, þar sem það snúist um tilvistaröryggi bæði Rússlands og Bandaríska heimsveldisins, sem hefur gert Evrópu að eins konar verndarsvæði sínu. Kína er í þessu tilliti einnig svarinn andstæðingur Bandaríkjanna, að þeirra sögn, en Nató hefur lýst því yfir, að Rússar séu erkifjendur þeirra.

Evrópubúar – ekki síst Íslendingar – virðast ofurseldir Bandaríkjunum, sem gaukuðu að þeim nasistagulli til uppbyggingar, eftir annað heimsstríð, og „þvinguðu“ þá flesta inn í Nató. 

Mótmælum hefur helst verið hreyft í Frakklandi í tímans rás, sbr. ákvörðun forseta lýðveldisins, Charles André Joseph Marie de Gaulle (1890-1970), að draga Frakka út úr virkri aðild á sínum tíma.

Emmanuel gaf í fyrra út bókina, „Þriðja heimsstríðið er hafið“ (La Troiséme Guerre mondiale a commenc“). Í viðtali „Figaro“ um efni bókarinnar kemur fram, að hún hafi verið gefin út í 100.000 eintökum í Japan. Samkvæmt því, sem blaðamaðurinn, Ben Norton, segir, er hún ekki aðgengileg á Vesturlöndum. Ben stiklar á stóru um efni hennar í hjálögðum fyrirlestri.

Emmanuel bendir á, að viðskiptaþvinganir gegn Rússum hafi ekki haft tilætluð áhrif, m.a. vegna stuðnings þjóða, handan verndarsvæðanna, þ.e. Evrópu og Japans. Hann bendir einnig á, að mælingar vestrænna hagfræðinga á þjóðarframleiðslu gefi skakka mynd af fjárhagi Rússa, þar eð fjármálabrask vegi þungt við slíkar mælingar. 

Í Rússneska hagkerfinu sé því aftur á móti ekki þannig farið. Þar sé framleiðsla í öndvegi. Því er hætt við því, að auðsýnd seigla þess grafi undan hagkerfum, þar sem Bandaríkjamenn drottna í krafti dalsins og látlausrar peningaprentunar. Því er það svo, að tapi Bandaríkjamenn stríðinu í Úkraínu, mun gjaldmiðill þeirra og veldi hrynja í allri sinni dýrð eins og spilaborg væri.

Emmanuel heldur því fram, að á Evrópska verndarsvæðinu sé Nató í raun klofið. Stríðsreksturinn, áróður fyrir honum og þátttaka, sé að mestu í höndum Bandaríkjamanna, Pólverja og Breta. (Norðmenn hafa nú augljóslega bæst við.) Meðan Bandaríkjamenn missa tökin á alþjóðavettvangi, herða þeir hreðjatakið á Evrópuþjóðunum.

Tilvísanir með með greininni má finna hér og fréttaþáttinn hér neðar:

One Comment on “Washington DC: Mótmæli gegn stríðsvitfirringu og þriðju heimsstyrjöldinni”

  1. Lýsinginn hjá þér Arnar er 100% rétt á þessum málum.

    Það er í rauninni mun hærri prósenta af sjálfstætt hugsandi fólki til í BNA enn á Íslandi, það er sorgleg staðreind.
    Ísland á tafarlaust að segja sig úr NATO, við eigum að ekki að vera partur af einræðisheimsveldinu fyrir vestan álinn. Okkur stafar enginn hætta af Rússlandi, okkur stafar mun meiri hætta af stjórnvöldum í BNA of þeirra skósveinum. Rússland er í rauninni í fullum rétti að ráðast á þessi lönd sem frömdu skemmdarverkið á Nordstream gasleiðslunum, enn munurinn á Rússanum og stjórnvöldum í BNA er að Rússland gerir sér mun meiri grein fyrir afleiðingum af kjarnorkustríði en BNA og skósveinar þeirra.

    Ísland úr NATO og það STRAX!

Skildu eftir skilaboð