VR styrkir Pieta samtökin um 6 milljónir króna

frettinInnlendarLeave a Comment

VR hefur veitt Pieta samtökunum styrk að upphæð 6 milljón króna, til að láta framkvæma rannsókn á sjálfsvígum á Íslandi. Sá vandi sem sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum fylgir er ekki takmarkaður við fjörtjón þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Sjálfsvígsatferli hefur óhjákvæmilega einnig alvarleg andleg, félagsleg og jafnvel líkamleg áhrif á vini og aðstandendur, og geta slík áhrif enst árum eða jafnvel áratugum saman.

Rannsóknin, sem VR styrkir, verður framkvæmd af hálfu Rannsókna & greiningar, fyrir hönd Pieta samtakanna. Rannsókninni er ætlað að vera lóð á vogarskálar aukinnar þekkingar á þessu sviði hér á landi. Einkum er rannsókninni ætlað að verða til gagns fyrir frekara þróunarstarf til varnar gegn sjálfsvígum á Íslandi. Niðurstaðna rannsóknarinnar er að vænta næsta haust og verður þá haldið málþing um þetta brýna viðfangsefni, sem hvílir á svo mörgum. Að sögn Dr. Sigríðar Bjarkar Þormar formanns stjórnar Pieta samtakanna er þörf á nákvæmri greiningu gagna til að átta sig betur á þeim þáttum sem mikilvægast er að beina forvörnum að eða leggja mesta áherslu á í meðferð. Mun þetta skref vera mikilvægt fyrsta skref í þeirri nálgun.

Stjórn VR hefur beitt sér í og stutt við fjölmörg mál sem snúa að samfélagslegri ábyrgð og er þetta mikilvæga verkefni hluti af þeirri vegferð.

Fréttatilkynning VR

Skildu eftir skilaboð