Fimm blaðamenn ákærðir í febrúar

frettinFjölmiðlar, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Fimm blaðamenn RÚV og Heimildarinnar, áður Stundin og Kjarninn, fá birta ákæru næstu tvær vikurnar vegna aðildar að að byrlun, gagnastuldi, stafrænu kynferðisofbeldi og broti á friðhelgi tveggja starfsmanna Samherja, Páls Steingrímssonar og Örnu McClure.

Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari lögreglunnar á Norðurlandi eystra staðfesti í viðtali við danska blaðamanninn Lasse Skytt að ákærur yrðu birtar fyrir lok mánaðar.

Danski blaðamaðurinn var ráðinn af Blaðamannafélagi Íslands og RSK-miðlum, nú RH-miðlum, til að skrifa greinar í erlendar útgáfur og fegra málstað sakborninganna. Greint var frá vinnulaginu í tilfallandi athugasemd í gær.

Íslensku blaðamennirnir létu Skytt hafa samband við Eyþór Þorbergsson, sem skrifaði greinargerð lögreglu 23. febrúar á liðnu ári vegna kæru eins sakborninganna, Aðalsteins Kjartanssonar. Orðrétt segir Skytt um samtalið við Eyþór: ,,Eyþór Þorbergsson vill ekki tjá sig um málið fyrr en því lýkur í febrúar."

Vitað er um fjóra sakborninga. Þeir eru Þóra Arnórsdóttir á RÚV, Aðalsteinn Kjartansson á Heimildinni/Stundinni, Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson á Heimildinni, áður á Kjarnanum.

Ekki hefur verið upplýst um fimmta sakborninginn úr röðum blaðamanna. Tveir fréttamenn RÚV voru látnir fara frá ríkisfjölmiðlinum eftir að lögreglurannsókn hófst vorið 2021. Bæði Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri og Helgi Seljan fréttamaður hættu á RÚV áramótin 2021/2022.

Sjötti sakborningurinn er veika konan sem blaðamennirnir fengu til að byrla Páli, stela síma hans á meðan skipstjórinn var í öndunarvél og færa blaðamönnum sem biðu ránsfengsins á Efstaleiti, höfuðstöðvum RÚV. Þar var síminn afritaður í heilu lagi og veika konan send tilbaka á sjúkrabeð Páls með símtækið.

Á Efstaleiti var unnið úr gögnunum og drög skrifuð að fréttum. Páli skipstjóra var byrlað 3. maí 2021. Blaðamennirnir biðu með að birta fréttir úr símanum í rúmar tvær vikur. Þeim hafði verið sagt að staðsetningarbúnaður símtækja uppfærðist á tveggja vikna fresti.

Skipulagið gerði ráð fyrir að Páll væri grunlaus um að síma hans hefði verið stolið. Aðskilnaður glæps og fréttamennsku var fólginn í því að miðstöð aðgerða var á RÚV en Kjarninn og Stundin áttu að birta fréttir. Þrem dögum fyrir byrlunina var Aðalsteinn Kjartansson fluttur af RÚV yfir á Stundina - til að halda áfram „rannsóknablaðamennsku“.

Eftir að Páll skipstjóri komst til meðvitundar 6. maí varð hann þess áskynja að átt hafði verið við símann. Meðal annars tók hann eftir að í gegnum símann hafði verið reynt að komast inn á samfélagsmiðla sem hann notaði og inn á bankareikninga hans.

Páll kærði símastuldinn til lögreglu 14. maí án þess að hafa nokkra hugmynd um hver eða hverjir stóðu að baki aðförinni að honum. Stundin og Kjarninn birtu fyrstu fréttir úr síma skipstjórans viku síðar, 21. maí. Þá varð ljóst að blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans stunda glæpi til að afla frétta.

Skildu eftir skilaboð