Hvert beinist þín andúð?

frettinPistlar2 Comments

Eftir Björgu Sigríði Hermannsdóttur sálfræðing:

Ef marka má nýlega könnun Fjölmiðlanefndar eru góðar líkur á því að þér, lesanda góðum, líki illa við andstæðinga bólusetninga. Í nýlegri skýrslu nefndarinnar kom fram að 58,2% svarenda á Íslandi mislíkar sá hópur mjög. Hins vegar voru hlutfallslega fáir sem sögðust líka mjög illa við hópa sem oft hafa orðið fyrir neikvæðum viðhorfum almennings, s.s. innflytjendur, samkynhneigða og transfólk. Ætli þessar niðurstöður séu til marks um framfarir í íslenskri þjóðarsál, að fordómar og andúð séu á undanhaldi? Mig grunar að það sé því miður ekki raunin.

Eftir að farið var að bólusetja við Covid-19 hér um árið var tilhlökkunin áþreifanleg í íslensku samfélagi. Margir bundu miklar vonir við að ein eða tvær bólusetningar myndu binda langþráðan endi á faraldurinn og að eðlilegt líf gæti þá loksins tekið við. Ótti hafði verið mikill meðal fólks og yfirvöld og fjölmiðlar höfðu tekið þátt í að minna fólk ítrekað á hættuna af Covid-19 og mikilvægi þess að ganga í takt. Það er því að mörgu leyti skiljanlegt að einhverjum hafi þótt erfitt að melta að til væri fólk sem ekki vildi þiggja þessa lyfjagjöf. Jafnframt hefur sennilega verið auðvelt að álykta að fólk sem ekki vildi Covid-19 bólusetningu væri annað hvort vitleysingar eða skeytingarlaust um eigin heilsu og annarra. Það er ekki erfitt að láta sér mislíka við þá sem maður hefur sett í slíkan flokk.

Það truflar mig ekki að fólk hafi skoðanir hvert á öðru og mislíki við þá sem haga sér á annan hátt en þeim sjálfum þykir rétt. Hins vegar fannst mér vont að sjá hversu tilbúið fólk virtist vera að samþykkja og jafnvel taka undir hugmyndir um skerðingu réttinda þeirra sem ekki vildu bólusetningu – eða jafnvel útskúfun úr samfélaginu. Vel þekkt fólk tók þátt í að kynda undir slíkum hugmyndum (t.d. Sigmundur Ernir og Kári Stefáns) og margir viðruðu svipaðar skoðanir á samfélagsmiðlum við ágætar undirtektir að því er virtist. Ég leyfi mér að efast um að meirihluta Íslendinga þætti í lagi að tala á slíkan hátt um nokkurn annan hóp fólks.

En kannski er það einmitt þannig sem andúðin og fordómarnir virka. Við sýnum þeim andúð sem við annað hvort óttumst eða höfum vandlætingu á og við réttlætum fyrir sjálfum okkur hegðun sem okkur þætti gjörsamlega ólíðanleg ef hún beindist að öðrum minnihlutahópum. Þetta er einn af okkar mannlegu brestum og við eigum þetta öll á hættu ef við erum ekki meðvituð um þessa tilhneigingu innra með okkur sjálfum. Ég trúi því að við getum gert betur sem samfélag. Það þýðir lítið að berjast gegn fordómum og andúð gegn hópum sem við styðjum, ef við viljum ekki líta í eigin barm og koma skikkanlega fram við þá sem okkur mislíkar.

Greinin birtist fyrst á Vísi.is 17. febrúar 2020 og á Krossgötur.is 18. febrúar 2023.

2 Comments on “Hvert beinist þín andúð?”

 1. Ekkert líkar fólki verr en að vera sagt að það hafi rangt fyrir sér.
  Og hér mætum við á hverju degi og segjum í opið geðið á fólki að allt sem það hefur verið að hugsa undanfarin 2-3 ár (jafnvel lengur, í tilviki kolefnistrúarmanna) sé bara vitleysa, OG: við höfum gögn til þess að sanna það.
  Svo sýnum við gögnin, við litla hrifningu.
  Og gögnin sýna síður en svo jákvæða hluti. (Fyrir kolefnistrúarmenn eru gögnin reyndar jákvæð, en þeir eru það hinsvegar ekki) Og það er ekkert hægt að hrekja þau.

  Já…

  Það er ekki eins og ég skilji ekki hvað vandamálið er.

 2. „Við sýnum þeim andúð sem við annað hvort óttumst eða höfum vandlætingu á …“

  Í teirri tíð bar ég það saman við ‘Dauð-til-Ameríka’-mótmælinga, sem eru til í Íran. Menn láta eiginlega ekki í ljós æði á móti Ameríku en þá á móti eigin íranska stjórnvaldinu.

Skildu eftir skilaboð