Woke fyrir heimilið

frettinHatursorðæða, Woke1 Comment

Eftir Þórarin Hjartarson:

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur tekið enn eitt skrefið í átt að réttlátu samfélagi. Nú munu opinberir starfsmenn sæta ábyrgð á sinni hegðun og skoðunum með hugrænni endurforritun til að koma í veg fyrir hatursorðræðu. Skyldunámskeið verða í boði fyrir starfsmenn þar sem þeir læra hvernig eigi að hugsa og koma í veg fyrir hatursorðræðu.

Það hefur lengi verið vitað að eldra fólk er á rangri skoðun. Þessu samfélagsmeini hefur verið leyft að grassera óáreitt um langa hríð. En ekki lengur. Forsætisráðherra mun í krafti fræðslu koma í veg fyrir að eldri opinberir starfsmenn geti spúð hatri og röngum skoðunum yfir samborgara sína.

Tjáningarfrelsi er mikilvægt svo lengi sem það er innan samþykkts ramma stjórnvalda um hvað sé rétt skoðun. Líkt og Katrín nefnir „er auðvitað ekki nema eðlilegt að við gerum ríkar kröfur til fólks í slíkum stöðum, að þau séu meðvituð um þessi málefni.“

En er þetta nóg? Um 30% launþega eru opinberir starfsmenn. Sem þýðir að um 70% geti enn óáreittir haldið í rangar og ógeðfelldar skoðanir.

Hvert á fólk sem hefur réttar skoðanir og verður vitni að hatursorðræðu inni á sínum heimilum að leita? Lögreglan er með öllu vanbúin til þess að takast á við þetta vegna aukinnar hryðjuverkaógnar sem er bein afleiðing af hatursorðræðu.

Ég legg til að stofnað verði ráðuneyti sannleikans. Slíkt ráðuneyti myndi hafa burði til að útrýma hatursorðræðu, koma í veg fyrir rangar skoðanir og færa okkur nær réttlátu samfélagi. Starfsmenn og embættismenn ráðuneytisins myndu skylda fólk með rangar skoðanir á námskeið gegn hatursorðræðu. Börn sem yrðu vitni af hatursorðræðu foreldra eða vina gætu sent nafnlausar ábendingar rafrænt til ráðuneytisins sem myndi gera viðeigandi ráðstafanir. Atvinnurekendur gætu sent upplýsingar um starfsfólk og starfsfólk um vinnufélaga.

Þannig væri hægt að ná til fólks bæði innan og utan heimilis. Enginn myndi vera á rangri skoðun og hatursorðræða yrði kveðin í kútinn á skyldunámskeiðum hins opinbera.

Íslensk heimili eiga betra skilið en að einungis 30% landsmanna séu á réttri skoðun. Ég hélt að við værum komin lengra. Það er árið 2023. Gerum betur.

Höfundur er þáttarstjórnandi hlaðvarpsins Ein pæling.

Greinin birtist fyrst á vísi.is 13. janúar 2023.

One Comment on “Woke fyrir heimilið”

  1. ,,Börn sem yrðu vitni af hatursorðræðu foreldra eða vina gætu sent nafnlausar ábendingar rafrænt til ráðuneytis [sannleikans] sem myndi gera viðeigandi ráðstafanir. Atvinnurekendur gætu sent upplýsingar um starfsfólk og starfsfólk um vinnufélaga. Þannig væri hægt að ná til fólks bæði innan og utan heimilis. Enginn myndi vera á rangri skoðun og hatursorðræða yrði kveðin í kútinn á skyldunámskeiðum hins opinbera.“

    Háleitara markmið er vandfundið. Eftir hverju bíðum við?

Skildu eftir skilaboð