Fjölmiðlanefnd fær ríkisstyrk til að takast á við falsfréttir á netinu

frettinFjölmiðlar2 Comments

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, undirrituðu þann 8. febrúar samning sem felur í sér 1,5 milljóna kr. styrk til Fjölmiðlanefndar til að þýða og staðfæra netnámskeið sem er ætlað til að hjálpa til við að takast á við ótilhlýðileg áhrif utanaðkomandi rangra og misvísandi upplýsinga. Aðgerðin er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í netöryggi 2022-2027. Þetta kemur fram á heimasíðu Fjölmiðlanefndar.

Í tilkynningunni segir jafnframt:

„Traust er mikilvægt sérhverju lýðræðissamfélagi. Skortur á trausti getur haft margskonar neikvæð áhrif þar sem það getur dregið úr samfélagslegri samheldni. Dreifing falsfrétta og upplýsingaóreiðu hefur færst mjög í aukana á stafrænum miðlum. Tæknibreytingar hafa gert það að verkum að auðveldara er að dreifa upplýsingum og að sama skapi erfiðara að greina uppruna og sannleiksgildi hinna ýmsu upplýsinga.  Fjölmiðlanefnd mun því bjóða upp á netnámskeið sem er ætlað að hjálpa völdum hópum að greina upplýsingaóreiðu og verja sig fyrir henni.

Fjölmiðlanefnd hefur samkvæmt 10 gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 skyldu til að efla miðla- og upplýsingalæsi allra landsmanna og auka skilning á hlutverki og notkun ólíkra miðla meðal almennings. Til þess að kortleggja stöðu miðlalæsis á Íslandi hefur nefndin látið gera rannsóknir á m.a. fjölmiðla- og samfélagsmiðlanotkun, haturstjáningu á netinu, upplýsingaóreiðu í aðdraganda kosninga og trausti og skautun í samfélaginu. Niðurstöðurnar gefa til kynna að mikilvægt sé að efla vitund og þekkingu almennings á upplýsingaóreiðu og áhrifum hennar.

Netnámskeiðinu verður aðallega beint til opinberra starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum og starfandi blaða- og fréttamönnum. Mikilvægt er að gefa þessum hópum verkfæri til að bregðast við upplýsingaóreiðu og til að byggja upp varnir gegn þeirri ógn sem utanaðkomandi upplýsingaóreiða getur haft í samfélaginu.

Netnámskeiðið er þýtt og staðfært úr sambærilegu námskeiði í Svíþjóð í samvinnu við Myndigheten för psykologiskt försvar, MPF í Svíþjóð. Námskeiðið er byggt upp á stuttum myndböndum, upplýsingatexta og dæmum. Gert er ráð fyrir því að námskeiðið verði aðgengilegt í lok árs 2023, bæði á íslensku og ensku.“

2 Comments on “Fjölmiðlanefnd fær ríkisstyrk til að takast á við falsfréttir á netinu”

  1. Ef þetta gengur í gegn þá verða ekki margar fréttir sagðar á RUV, Heimildinni eða 365 miðlum?

  2. Jæja loksins verður rúv lokað og útvarpsgjaldið verður svo frjáls einstaklings framlög

Skildu eftir skilaboð