Hvers vegna má ekki birta skýrsluna um Lindarhvol?

frettinFjármál, Jón MagnússonLeave a Comment

Eftir Jón Magnússon:

Af hverju má ekki birta skýrslu Sigurðar Þórðarsonar fyrrum ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols. Því hefur verið haldið fram, að ekki sé um skýrslu að ræða heldur vinnuplagg, en það skiptir í sjálfu sér engu máli.

Hvaða hagsmuni er verið að vernda með leyndarhyggjunni? Eðlilega verður fólk tortryggið þegar málefni Lindarhvols fást ekki rædd með eðlilegum hætti.

Ef engar markverðar upplýsingar eru í skýrslu Sigurðar, þá þarf ekki að ræða það frekar eftir að hún hefur verið birt. Ekki ætti þá að vera ástæða til að birta ekki skýrsluna. Séu hins vegar mikilsverðar upplýsingar í skýrslunni þá er eðlilegt að um það verði rætt á lýðræðislegum vettvangi. Skýrslan á erindi til fólks í lýðræðisríki. 

Lindarhvoll hefur og er að sýsla með gríðarlega fjármuni og eignir  ríkisins. Ekki hefur verið gerð grein fyrir hvaða ráðstafanir voru gerðar varðandi sölu eigna, hvernig kaupendur voru valdir. Hvort þess hafi verið gætt að hámarka verð hins selda og þá með hvaða hætti. Einnig hvaða þóknanir voru greiddar og hverjum. 

Öll þessi atriði þarf að upplýsa. 

Sjálfstæðisflokkurinn á að vera og þarf að vera í fararbroddi um upplýsingagjöf og opið lýðræðislegt þjóðfélag.  Flokkurinn má ekki takmarka upplýsingagjöf til almennings og standa vörð um leyndarhyggju hvorki varðandi Lindarhvolsmálið né önnur mikilsverð mál sem varða stjórnsýslu ríkisins eða henni tengt.

Skildu eftir skilaboð