Jafnstaða kynjanna eru grundvallarmannréttindi

frettinJón Magnússon, KynjamálLeave a Comment

Eftir Jón Magnússon:

Þau lönd sem virða jafnstöðu karla og kvenna hafa það best stjórnarfarslega, efnahagslega. Þau lönd sem takmarka réttindi kvenna og meina þeim jafnvel að læra eða vinna hafa það verst stjórnarfarslega og efnahagslega.

Þessar staðreyndir eru kunnar, en þær þjóðir sem eru þjakaðar af hugmyndafræði Íslam, búa undantekningarlítið við þessar mannréttindaskerðingar, skort á lýðræði og efnahagsleg bágindi nema í þeim undantekningartilfellum, þar sem náttúruauðlindir hafa skapað drottnandi auð einræðisherra þeirra landa.

Í janúar var Mursal Nabizada fyrrverandi þingmaður í Afganistan, skotin til bana á heimili sínu í Kabúl. Mursal var baráttukona fyrir réttindum kvenna og ákvað að vera áfram í landinu eftir að Talibanar tóku völdin 2021. Ríkisstjórnin hefur stöðugt þrengt að réttindum kvenna í landinu og reyna að koma í veg fyrir að konur sæki skóla. 

Þursaveldið Íran

Sama er uppi á teningnum í þursaveldinu Íran. Eitrað hefur verið fyrir konum, sem sækja skóla. Ung kona var tekin af lífi af lögreglunni í Íran fyrir að hylja ekki hár sitt og neita að bera ímynd karlakúgunarinnar og réttleysis kvenna blæjuna og handklæðið.

Að sjálfsögðu eigum við að berjast fyrir jafnstöðu karla og kvenna. Kynin eru tvö og það er ekkert sem réttlætir að annað kynið hafi réttindi umfram hitt. Á sama tíma og við virðum mismun kynjanna, þá ber að virða jafnstöðu þeirra.

Sótt hefur verið að réttindum kvenna í nokkrum vestrænum löndum að undanförnu með næsta sérkennilegum hætti. Lög um svonefnt kynbundið sjálfræði hafa verið lögfest og hafa haft slæm áhrif varðandi réttindi kvenna og valdið því að konur hafa verið beittar kynbundnu ofbeldi af þeim sem hafa skráð sig sem konur án þess að vera það. 

Þessa löggjöf fáránleikans verður að afnema

Á undanförnum árum hafa ýmsir stjórnmálamenn bullhugmyndafræðinnar átt erfitt með að skilgreina hvað felst í orðinu "kona". Það þurfti heimsfrægan barnabókarhöfund til að benda á einfaldar líffræðilegar staðreyndir varðandi kynin tvö,  svo hluti stjórnmálastéttarinnar þyrði að koma fram og viðurkenna staðreyndir og hafna bullfræðunum. 

Hluti af réttindabaráttu kvenna á Vesturlöndum er því og verður fólgið í því að augljósar staðreyndir varðandi kynin séu viðurkennd og bullfræðinni hafnað. Jafnframt því að við sækjum fram til að tryggja kynjunum aukna jafnstöðu og eyðum öllum kynbundnum mun í löggjöf og launakjörum. 

Það er verk að vinna og mikilvægast er að berjast af hörku fyrir því að málsvarar þursaveldanna geti ekki haldið áfram að meina konum að njóta lágmarksmannréttinda á við karla og réttindi kvenna verði ekki skert með ruglhugmyndafræði varðandi kynin.

Skildu eftir skilaboð