Syndin sem ekki er hægt að fyrirgefa

frettinCOVID-19, Þorsteinn SiglaugssonLeave a Comment

Eftir Þor­steins Sig­laugs­son:

„Við sjá­um nú glöggt siðferðilegt gildi gagn­rýn­inn­ar hugs­un­ar: Án henn­ar gef­um við okk­ur á vald óttaviðbragðinu við hverju því sem dyn­ur á okk­ur, huns­um allt nema okk­ur sjálf og viðfang ótt­ans.“

Um dag­inn sagði ég vini mín­um frá því hversu undr­andi ég væri að sjá að 22% Banda­ríkja­manna hefðu mikl­ar áhyggj­ur af því að börn þeirra myndu deyja eða verða fyr­ir al­var­leg­um skaða ef þau smituðust af kór­ónu­veirunni, í ljósi þess að eins og gögn sýna er áhætt­an fyr­ir börn aðeins smá­vægi­leg. Hann svaraði því til að þetta kæmi ekki endi­lega á óvart, því eins og hann orðaði það, þá hefðu for­eldr­ar alltaf áhyggj­ur af börn­um sín­um. Við rædd­um svo þessa áhættu í sam­hengi við fleira, og á end­an­um vor­um við sam­mála um að þessi hræðsla ætti ekki við nein rök að styðjast; börn væru lík­legri til að deyja í bíl­slysi, eða jafn­vel bara af því að detta fram úr rúm­inu eða niður stiga heima hjá sér.

Versta mögu­lega niðurstaðan

En hvers vegna brást vin­ur minn við í upp­hafi eins og hann gerði?

Í gestakafla í nýrri bók dr. Roberts Malone, Lies My Gov‘t Told Me, fjall­ar ör­ygg­is­sér­fræðing­ur­inn Gavin de Becker um hvernig ákveðnar hætt­ur verða meira áber­andi í huga okk­ar, ein­mitt vegna þess að erfitt er að átta sig á vægi þeirra; hvernig við höf­um til­hneig­ingu til að ein­blína á verstu mögu­legu niður­stöðuna, ein­hvern mjög ólík­leg­an, en líka mjög skelfi­leg­an mögu­leika. De Becker tek­ur dæmi úr gömlu viðtali við banda­ríska sótt­varna­lækn­inn dr. Ant­hony Fauci til að út­skýra þetta. Viðfangs­efnið er al­næmi:

„Hinn langi meðgöngu­tími þessa sjúk­dóms sem við gæt­um verið að byrja að sjá, þar sem við sjá­um nán­ast, eft­ir því sem mánuðirn­ir líða, aðra hópa sem gætu tekið að smit­ast, og að sjá þetta hjá börn­um vek­ur mikl­ar áhyggj­ur. ... Nú kann það að vera fjar­stæðukennt í þeim skiln­ingi að eng­in til­vik hafa verið staðfest enn, þar sem ein­stak­ling­ar hafa ein­göngu verið í nán­um sam­skipt­um við ein­stak­ling með al­næmi, og hafa til dæm­is fengið al­næmi ...“

Hvað er Fauci í raun­inni að segja? Með orðum de Beckers: „Það hafa ekki komið upp nein til­felli þar sem al­næmi smit­ast gegn­um venju­leg náin sam­skipti. En skiln­ing­ur fólks á þess­um hræðslu­áróðri Fauc­is var auðvitað allt ann­ar: Þú get­ur smit­ast af þess­um sjúk­dómi jafn­vel án ná­inna sam­skipta.“ Eins og við vit­um öll núna voru vanga­velt­ur Fauc­is al­gjör­lega ástæðulaus­ar, en það var hræðslu­áróður eins og þessi sem dreif áfram langvar­andi bylgju ótta við sam­kyn­hneigða karl­menn.

Grein­ing texta og hug­taka er lyk­il­atriði

„Hvað þýðir þetta í raun og veru?“ Þetta fyrsta spurn­ing­in sem við verðum alltaf að spyrja þegar við les­um texta eða hlust­um á fólk. Orð Fauc­is hér að ofan fela í sér tvær full­yrðing­ar. Sú fyrri er yf­ir­lýs­ing um staðreynd: Eng­in dæmi um smit gegn­um venju­leg náin sam­skipti hafa komið upp. Sú síðari er til­gáta: Smit gæti mögu­lega átt sér stað gegn­um venju­leg náin sam­skipti.

Þegar við höf­um staðfest merk­ing­una er næsta skref að spyrja: „Er þetta satt?“ Fyrri full­yrðing­in hér er studd staðreynd­um, hin síðari ekki. Þetta þýðir að fyrri full­yrðing­in er gild, en hin ekki. Við smit­umst ekki af al­næmi með því að faðma sjúk­ling. Sam­kyn­hneigði frændi þinn er ekki hættu­leg­ur.

Þetta sýn­ir hvernig ein­föld grein­ing á merk­ingu texta hjálp­ar okk­ur að greina á milli staðreynda og skáld­skap­ar, byggt á því hvernig meint­ar staðreynd­ir passa við það sem við vit­um nú þegar fyr­ir víst, hvort þær eru í sam­hengi inn­byrðis; hvort þær eiga við í sam­heng­inu sem rætt er, og hvort þær grund­vall­ast á traust­um gögn­um.

Synd­in sem ekki er hægt að fyr­ir­gefa

Skömmu áður en kór­ónu­veir­an lét á sér kræla dvaldi ég í rúm­an mánuð á Indlandi. Meðal ann­ars heim­sótti ég lítið þorp í Gujarat-héraði til að taka þátt í vígslu skóla­bóka­safns sem við höfðum verið að styrkja. All­ir sem ég hitti, allt frá leiguliðum úr sam­fé­lagi Dalíta til bæj­ar­stjór­ans, voru sam­mála um eitt; mik­il­vægi mennt­un­ar. Nokkr­um mánuðum síðar hafði þorps­skól­an­um verið lokað; öll­um skól­um á Indlandi hafði verið lokað. Fá­tæk­ling­arn­ir sem bjuggu í borg­un­um urðu að yf­ir­gefa þær því þeim var bannað að fram­fleyta sér. Fjór­tán ára strák­ur­inn sem var van­ur að færa okk­ur te á skrif­stof­una fór. Við höf­um ekk­ert heyrt frá hon­um síðan.

Marg­ir fór­ust á leið sinni í sveit­irn­ar, úr hungri, veik­ind­um, ör­mögn­un. Þeim sem komust til þorp­anna var oft meinuð inn­ganga. Ástæðan var sjúk­leg­ur ótti sem hafði gripið íbú­ana, rétt eins og alls staðar ann­ars staðar í heim­in­um.

Þegar ég heyrði frétt­irn­ar fyrst hugsaði ég um þenn­an fjór­tán ára pilt, líf hans, von­ir og drauma, sem lagðir voru í rúst, og hvernig ör­lög hans voru tákn­ræn fyr­ir ör­lög þeirra hundraða millj­óna sem fórnað var á alt­ari ör­vænt­ing­ar­inn­ar. Því óttafar­ald­ur á þessu stigi er hættu­leg­ur, hann er eyðileggj­andi. Hann leiðir til al­ger­lega sjálf­miðaðrar hegðunar, full­kom­ins skeyt­ing­ar­leys­is um aðra, í ör­vænt­ing­ar­fullri til­raun til að vernda okk­ur sjálf.

Örvænt­ing, í kristn­um skiln­ingi, er þegar maður gef­ur upp von­ina um hjálp­ræði. Þess vegna er hún að mati margra guðfræðinga eina synd­in sem ekki er hægt að fyr­ir­gefa. Jafn­vel þótt við séum trú­laus ber þetta að sama brunni: Þegar ein­hver ákveður að eign­ast ekki börn af ótta við að heim­ur­inn sé að líða und­ir lok, þá er það ör­vænt­ing. Þegar ein­hver slít­ur öll tengsl við annað fólk, hætt­ir að taka þátt í líf­inu í rök­laus­um ótta við veiru, þá er það ör­vænt­ing. Örvænt­ing­in er af­neit­un lífs­ins. Þess vegna er hún ófyr­ir­gef­an­leg synd.

Gagn­rýn­in hugs­un er siðferðileg skylda

Við sjá­um nú glöggt siðferðilegt gildi gagn­rýn­inn­ar hugs­un­ar: Án henn­ar gef­um við okk­ur á vald óttaviðbragðinu við hverju því sem dyn­ur á okk­ur, huns­um allt nema okk­ur sjálf og viðfang ótt­ans. Við lát­um und­an ör­vænt­ing­unni. Þess vegna er gagn­rýn­in hugs­un ekki aðeins gagn­leg; hún er siðferðileg skylda. Um þetta ætt­um við að hugsa í dag, þegar þrjú ár eru liðin síðan hin fjar­stæðukennda til­raun til að stöðva út­breiðslu bráðsmit­andi önd­un­ar­færa­veiru, þvert á öll þekkt vís­indi, hófst fyr­ir al­vöru hér­lend­is.

Það er í þessu ljósi sem við hljót­um að dæma viðbrögð stjórn­valda um all­an heim, sem hafa linnu­laust dælt út hræðslu­áróðri, oft vís­vit­andi röng­um í því skyni að vekja ótta og ör­vænt­ingu, og um leið þaggað niður og rit­skoðað all­ar til­raun­ir til að stuðla að skyn­sam­legri og heil­brigðari nálg­un; stjórn­valda sem hafa mark­visst kæft gagn­rýna hugs­un. Það er einnig í þessu ljósi sem við hljót­um að for­dæma hörmu­leg­ar af­leiðing­ar þessa fram­ferðis, og hvernig það hef­ur fyrst og fremst skaðað þau ungu, þau fá­tæku; okk­ar minnstu systkin.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. mars 2023

Þorsteinn er formaður Mál­frels­is – sam­taka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mann­rétt­indi.

Skildu eftir skilaboð