Bakhmut er fallin

frettinErlent, Hallur Hallsson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Eftir Hall Hallsson:

Fáni Rússlands hefur verið dreginn að húni yfir ráðhúsi Bakhmut hefur hin sænska Swebbtv eftir hinni rússnesku Tass. „Borgin er okkar,“ segir Yevgeny Prigozhin, herforingi Wagnershersins. Rússar hafa og unnið Frelsistorgið í miðbænum. Wagner-herliðar hafa tekið meginþunga bardaga af hálfu Rússa sem hafa verið blóðugir, mikið mannfall og sagt er að meginþungi stríðsins færist nú yfir á rússneska herinn. Rússar hafa unnið Azom málmverið í Bakmut, svokallaða Vostomash byggingu. Fall Bakhmut er áfall fyrir Úkraínu. Zelinskyy hafði lagt ofuráherslu á að verja Bakhmut sem var megin þema ræðu hans í Bandaríkjaþingi tveimur dögum fyrir jól 2022 þegar hann færði þinginu áritaðan bakhmutfána úkraínskra hermanna. Það átti að halda Bakhmut og taka Krímskaga; líkingin var Stalíngrad 1943 og herförin til Berlínar.

Bakhmut

Blóðbað í Austurvegi

Nýjustu tölur um heildarmannfall Úkrana eru sagðar 257 þúsund, Rússa um 30 þúsund. Nato snýr mannfalli jafnan upp á Rússa en auðvitað spyrjum við að leikslokum. Kænugarður boðar átta nýjar herdeildir verði bardagahæfar til gagnsóknar í vor. Með góðum vilja má áætla 50 þúsund manns undir vopnum. Það er umtalsverður herafli. 15-16-17 ára drengir, ungar konur, gamlir karlar hafa verið kallaðir í herinn. Þeirra bíður um 300 þúsund manna rússneskur her albúinn til sóknar vestur og norður. Enn etja Vesturveldin Úkraínu á foraðið og úkraínsku blóði skal úthellt í þágu misheppnaðrar glóbalízkrar útþenslu. Blóðbaðið mætti stöðva með einu pennastriki.

Í október fullyrti ég að Rússar væru búnir að vinna stríðið, ná meginmarkmiðum sínum. A-Úkraína rússnesku mælandi fólks var sameinuð Rússlandi. Í kjölfarið biðu rússneskar hersveitir veturinn af sér. Nú eru Rússar við járnbrautarteina Bakhmut eftir að hafa unnið miðbæinn. Úkraínuher hefur notað undirgöng sem liggja frá miðbænum út úr borginni til birgðaflutninga en væntanlega hafa þau verið sprengd. Rússar sprengdu bönker nærri Lviv  á 130 metra dýpi þar sem voru um 300 manns, þar af 40 Natoforingjar. Úkraínskir hermenn falla fyrst og fremst fyrir stórskotaliði og eldflaugum Rússa með ofurefli harafla og vopna en Wagner hafa tekið návígin.

Mariepol 2022

Mariepol fyrir ári

Fyrir réttu ári 1. apríl 2022 var Mariepol í fréttum fjölmiðla um heim allan. Bardagar um Mariepol voru á lokastigi. Leifar hers Azov-nazista ásamt nokkur hundruð Nato-herforingjum höfðust við neðanjarðar í Azov-stálverinu. Mariepol hafði verið höfuðsetur Azov-nazista síðan 2014 þegar Kænugarður hóf þjóðernisstríð gegn rússnesku mælandi fólki í A-Úkraínu. Hersveitum Azov-nazista hefur verið gereytt, að því er virðist. Mariepol féll í hendur Rússum í maí. Þrátt fyrir allt þetta hefur RÚV sagt okkur í heilt ár að Rússar séu að tapa stríðinu. Nú er okkur sagt að rússneskir hermenn séu fyllibyttur. Ég hef fréttir fyrir ykkur, hættið að vanmeta Rússa. Rússland er í dag mesta herveldi heims.

Særðir hermenn

Gjald alþýðumanna hátt

Tálsýnir wókisma, transvæðingar, hamfaravár, af-iðnvæðingar hafa lamað Bandaríkin og Evrópu svo að þeim blæðir út með pappírssnifti sem gjaldmiðla. Þegar Bandaríki Joe Biden flúðu Afganistan og yfirgáfu Kabúl, þá voru andvirði á milli tíu og fimmtán þúsund milljarða króna af fullkomnustu vopnum skilin eftir. Líkkistur höfðu verið fluttar heim í þúsundvís og fjölfatlaðir hermenn skipta tugum þúsunda. Sannarlega er gjald þeirra hátt svo og Afgana, Íraka, Líbýumanna, Sýrlendinga, Súdana sem liggja í valnum, lönd múslima sprengd á steinöld. Samt galt öflugasta herveldi heims ósigur.

Í Endalausum styrjöldum 2001-2022 tapaði bandaríska herveldið fyrir hirðingjum á sandölum vopnuðum AK-47 rifflum.

Fallnir bandarískir hermenn

Sannlega var 20. öldin Amerísk; American Century en bændur í Víetnam hröktu þá samt úr landi sínu og höfuðborg Saigon árið 1975. Nú er hin nýja Ameríska öld í dauðateygjum og árið er 2023. Bandaríkin áttu að vera ofurveldi 21. aldar með Evrópu og Rússland sem hjálendur. Neo-cons og neo-libs; villtu hægri og vinstri öfgaöflin beggja vegna Atlantsála horfast í augu við niðurlægjandi ósigur og hrun dollars sem heimsmyntar. Hátt er gjald ungra Bandaríkjamanna, hátt er gjald múslima, Serba og Úkrana. Það skal hér skrifað á pappír að þegar Ameríka vildi stöðva blóðbaðið þá snérust Kata & Dísa gegn alþýðufólki sem vildi hætta Endalausum styrjöldum.

Fyrir 110 árum var Federal Reserve, Seðlabanki Bandaríkjanna stofnaður af hinum ríku og voldugu sem urðu stöðugt ríkari og voldugri una þeir áttu allar heimsins eigur. Samt eru þeir að tapa, nú fallnir á tíma. Fjölpóla veröld er við sólarupprás, Guði sé lof. Nýlendutími Evrópu er endanlega liðinn, ESB hrynur sem spilaborg, Nato leysist upp, Davos slæm minning. Bandaríkin mun hrista óværuna af sér. Ég hef þó áhyggjur af Evrópu því þjóðir án orku eru bjargarlausar.

Skildu eftir skilaboð