Munum við einhvern tíma læra?

frettinInnlent, Krossgötur, Þorsteinn SiglaugssonLeave a Comment

Eftir Þorstein Siglaugsson:

Marlene Dietrich syngur “Where have all the flowers gone” 1963. Tilvalið að hlusta meðan lesið er.

Where have all the flowers gone, long time passing?
Where have all the flowers gone, long time ago?
Where have all the flowers gone?
Young girls have picked them everyone
Oh, when will they ever learn?
Oh, when will they ever learn?

Ég veit ekki hve oft ég hef hef hlustað á Marlene Dietrich syngja þetta lag, en enn þann dag í dag fæ ég gæsahúð þegar ég heyri flutning hennar. Fyrstu þrjú versin samdi Peter Seeger árið 1955, en það var Joe Hickerson sem bætti tveimur síðustu versunum við árið 1960 og fullkomnaði textann; það eru unnustur hermannanna sem tína blómin, svo vaxa þau aftur á grafreitum unnusta þeirra, og þar eru þau tínd aftur, af nýjum unnustum nýrra hermanna; hringurinn tekur engan enda:

Where have all the graveyards gone, long time passing?
Where have all the graveyards gone, long time ago?
Where have all the graveyards gone?
Gone to flowers, everyone
Oh, when will they ever learn?
Oh, when will they ever learn?

Fyrir nokkrum vikum sýndi íslensk könnun að 93% þjóðarinnar telja enn að allar takmarkanirnar, lokanirnar og ferðabönnin, eyðileggingin á framtíð ungmenna, einangrunin og andlega vanlíðanin, sem er komin til að vera, síðustu þrjú ár, eigi fullan rétt á sér; að allt hafi þetta verið óumflýjanlegt. Alveg sama þótt næstu nágrannar okkar, Færeyingar hafi ekki farið sömu leið, en gengið betur en okkur. Alveg sama þótt frændur okkar Svíar hafi ekki gert það heldur, en líka staðið sig miklu betur.

Samt trúa 93% þjóðarinnar þessu enn í dag.

Munu þau einhvern tíma læra?

Þetta kom upp í hugann þegar ég las umfjöllun bandaríska blaðamannsins Alex Berenson um viðtal við Bill Gates sem birtist í New York Times fyrir skömmu. Gates hefur dregið alla röngu lærdómana af kórónaveirufaraldrinum, segir Berenson, og hann hefur næg völd til að drífa stefnuna í lýðheilsumálum í hættulega átt.

Svo virðist sem Gates sé viti sínu fjær af hræðslu við næstu veiru. Hvort hún muni dreifast í gegnum yfirborðsdropa, smitast með kynferðislegum samskiptum, hvort hún verði afleiðing lífrænna hryðjuverka. Til að undirbúa okkur vill Gates alþjóðlega neyðarsveit:

“Neyðarsveitin á að halda æfingar. Æfingarnar eiga að tryggja að allir – stjórnvöld, heilbrigðisstarfsmenn, neyðarheilbrigðisstarfsmenn- viti hvað þeir eiga að gera þegar hugsanlegur faraldur kemur upp.”

Með öðrum orðum lítur út fyrir að Gates hafi fallið í þá algengu gryfju að fyllast örvæntingu yfir mjög skelfilegum, en mjög ólíklegum, nánast ómögulegum atburði, og misst sjónar á öllu öðru.

Mun hann einhvern tíma læra?

Það er einstök dýpt í túlkun Marlene Dietrich á „Where have all the flowers gone”. Kannski vegna þess að í seinni heimsstyrjöldinni ferðaðist hún um Evrópu og söng fyrir hermennina, einmitt sömu hermennina og blómin voru tínd fyrir, sem uxu svo aftur á gröfum þeirra.

Hverjir eru “þeir”? Hver eru “þau”? “Þau” eru nefnilega ekki hershöfðingjarnir eða einræðisherrarnir. „Þau“ eru hermennirnir sem streyma á vígvöllinn í stað þess að neita, unnustur þeirra, sem tína blómin til að leggja á leiði þeirra, í stað þess að banna þeim að fara. Því stríð brjótast ekki út án hermanna, og eins og hið fræga leikverk Aristófanesar, Lýsistrata, kennir okkur, þá  brjótast þau ekki heldur út án unnusta þeirra; stríð brjótast aðeins út með stuðningi fólksins, eða vegna skeytingarleysis þess.

Þau brjótast út, aftur og aftur, og ábyrgðin er okkar allra.

Munum við einhvern tíma læra?

Í upphafi var kórónuveirufaraldrinum líkt við stríð. Stríð gegn ósýnilegum óvini. Fljótlega breyttist stríðið í borgarastyrjöld; stríð milli grímuklæddra og grímulausra, milli bólusettra og óbólusettra. Nánast frá upphafi var þetta stríð gegn sannleikanum. Stríð gegn skynseminni. Stríð gegn velsæminu. Gegn mennskunni.

Í hinni klassísku bók “They Thought They Were Free” lýsir blaðamaðurinn Milton Mayer viðhorfum vina sinna, nokkurra þýskra nasista, eftir stríðið. Land þeirra var í rúst, en þeir gátu enn ekki horfst í augu við hina sönnu ástæðu eyðileggingarinnar; brjálæðið sem hafði gripið, ekki bara leiðtogana, heldur stóran hluta þjóðarinnar. „Já, kannski voru gerð fáein mistök“ muldruðu þeir, en þar með var það upptalið. Ekkert uppgjör, enginn þeirra áttaði sig á því hvað hafði verið gert, ekki aðeins hvað fórnarlömbunum var gert, heldur hvað þeim sjálfum hafði verið gert, mennsku þeirra, heilindum, sjálfsvirðingu.

Þeir lærðu aldrei.

Kannski er sannleikurinn í „Where have all the flowers gone“ hinn endanlegi sannleikur. Kannski erum við dæmd til að endurtaka sömu mistökin, sömu hörmungarnar, aftur og aftur. Kannski er steinninn sem Sýsifos var dæmdur til að velta upp fjallið, aftur og aftur að eilífu, kannski er hann eini steinn heimspekingsins sem til er.

En þessu neita ég að trúa. Þessu neitum við að trúa, sem reynum að standa vörð um heilbrigða skynsemi. (Munum við einhvern tíma læra?)

Satt að segja gæti mér ekki verið meira sama um hugarástand Bills Gates. Ég læt mér í léttu rúmi liggja hvort hann missir endanlega vitið. Því hann er bara einn maður. Hann hefur peninga og völd, en á endanum er hann bara einn maður. Og einn maður má sín einskis gagnvart fjöldanum.

En aðeins ef fjöldinn lærir af reynslunni

Þess vegna er mér ekki sama um að 93% Íslendinga trúi enn augljósum og hættulegum ósannindum. Þar á meðal er bráðgáfað og velviljað fólk, fólk sem ég á að vinum. En þrátt fyrir allt sem við vitum nú, þá trúa þau þessu enn.

Við sem reynum að standa vaktina höfum aldrei gefist upp á koma staðreyndum til skila, höfða til skynseminnar, útskýra. Rétt eins og Sýsifos hugsa ég stundum. Því þau trúa þessu enn.

Hvers vegna?

Mikilvægasta verkefnið sem við eigum fyrir höndum er að svara þessari spurningu.

Það er ekki auðvelt verkefni. Til að svara spurningunni þurfum við nákvæma greiningu, við þurfum að rekja orsakirnar, skref fyrir skref, með ískalda rökhugsun að vopni. Við megum aldrei hrapa að ályktunum, aldrei láta tilfinningar eða fordóma trufla. Aðeins þannig getum við fundið svarið. Og aðeins vopnuð þessu svari getum við mögulega rofið vítahringinn, sem Bill Gates og vitorðsmenn hans reyna nú að þvinga okkur í af meiri krafti en nokkru sinni fyrr.

Aðeins þannig getum við lært.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 11.04.2023

Skildu eftir skilaboð