Dagur B. ætti að læra af Árborg

frettinInnlent, StjórnmálLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Dagur B. og félagar ættu að fara á Árborgarfundinn síðdegis í dag og læra gagnsæja stjórnarhætti þar sem menn hafa hugrekki til að viðurkenna vandann, leggja spilin á borðið.

Boðað er til íbúafundar í Árborg síðdegis í dag (12. apríl) til að ræða leiðir út úr erfiðum fjárhagsvanda sveitarfélagsins. Árið 2017 voru skuldir Árborgar 11 milljarðar, 2021 voru þær orðnar 25 milljarðar króna. Hverjir stjórnuðu Árborg 2018 - 2022? Samfylkingin (2), Framsóknarflokkurinn (1), Miðflokkurinn (1) og „vinir“ Árborgar (1).

Í sveitarstjórnarkosningunum í maí 2022 fékk Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta í Árborg, 46,4% atkvæða og sex bæjarfulltrúa. Það er sá hópur fólks sem hefur á nokkrum mánuðum unnið skipulega að því að taka til í fjármálum Árborgar og boðar nú til fundar til að kynna hvað skynsamlegast sé að gera í stöðunni.

Hver sem verður niðurstaða fundarins í dag má líta á hann sem skýr skilaboð til lánardrottna Árborgar og annarra um að vandinn sé viðurkenndur og á honum tekið.

Séð yfir Árborg (mynd: mbl.is/Sigurður Bogi).

Þessi afstaða meirihluta sjálfstæðismanna í Árborg er allt önnur en það sem gerist undir stjórn Samfylkingarinnar í Reykjavík ásamt Framsóknarflokknum, Pírötum og Viðreisn. Í gær féll Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í annað sinn á skömmum tíma frá skuldabréfaútboði til að bjarga fjárhag borgarinnar. Enginn áhugi var á að kaupa bréfin. Í stað þess að láta markaðinn „niðurlægja“ borgarsjóð var útboðið dregið til baka.

Fréttastofa ríkisútvarpsins sagði frá fundinum í Árborg í dag með þeim orðum að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefði í byrjun árs sent bæjarstjórn Árborgar bréf þar sem „kom fram að rekstur sveitarfélagsins væri ósjálfbær miðað við fjárhagsáætlun þessa árs“. Dæmigert er að fréttastofan þegi þunnu hljóði um skuldavanda Reykjavíkurborgar sem er sambærilegur.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segir á FB í morgun að Reykjavíkurborg hafi í lok febrúar borist sams konar bréf og Árborg frá sömu eftirlitsnefnd. Var borginni bent á að hún „uppfyllti ekki öll lágmarksviðmið nefndarinnar fyrir grunnrekstur sveitarfélagsins“. Var þess „óskað að erindið yrði lagt fyrir borgarstjórn til afgreiðslu - það hefur ekki enn verið gert,“ segir Hildur.

Það er einmitt aðgerðarleysi af þessum toga sem ræður mestu um að kaupendur skuldabréfa hafa engan áhuga á þeirri vöru sem Reykjavíkurborg býður á markaðnum. Dagur B. og félagar skirrast við að upplýsa til hvaða ráða á að grípa til að takast á við fjárhagsvanda borgarinnar. Á markaðnum er sagt að það vanti „yfirlýsingu“ frá borgarstjóra. Hann verði að ganga fram fyrir skjöldu og lýsa til hvaða ráða hann ætlar að grípa í stað þess að hlaupa í felur með skuldabréfin sín þegar enginn hefur áhuga á að kaupa þau.

Dagur B. og félagar ættu að fara á Árborgarfundinn síðdegis í dag og læra gagnsæja stjórnarhætti þar sem menn hafa hugrekki til að viðurkenna vandann, leggja spilin á borðið og lýsa hvað við taki til að losna undan skuldaklafanum.

Ábyrg opinber fjármálastjórn og Samfylking ríma ekki. Það sýnir aðgæslu- og ábyrgðarleysi sé vaxandi stuðningur meðal kjósenda við að Samfylkingin komist í ríkisstjórn. Hún tekur ekki á vanda heldur magnar hann.

Skildu eftir skilaboð