En hvað það var skrýtið

frettinInnlent, Jón Magnússon1 Comment

Eftir Jón Magnússon:

Umræðan um skuldavanda sveitarfélaga er sérstök á stundum. Forystumenn stórskuldugra sveitarfélaga koma fram og láta eins og eitthvað hafi skyndilega gerst. 

Já það er svo skrýtið að sveitarfélagið á við gríðarlegan fjárhagsvanda að etja segja strandkapteinarnir. Í öllum tilvikum áttu og máttu stjórnendur sveitarfélagsins vita að hverju stefndi  árum saman, en gerðu ekkert. 

Hvað gerist svo þegar fjárhag sveitarfélagsins hefur verið stýrt í þrot? Þá ætla strandkapteinarnir að rétta allt við í staðinn fyrir að þakka fyrir sig og viðurkenna alvarleg mistök. 

Í einkafyrirtækjum er sjálfgert fyrir eigandann, að pakka saman ef illa gengur en hjá hinu opinbera er leitað lausna, sem felast alltaf í að níðast meira á skattgreiðendum undir fyrirsögninni: Ekki mér að kenna.

Laun stjórnenda flestra sveitarfélaga og lykilstarfsmanna eru allt of há. Í Reykjavík er fyrstu varamönnum borgarstjórnar greidd laun vegna þess, að Dagur þurfti að tryggja stuðning VG við meirihlutasamstarfið á síðasta kjörtímabili eftir að VG missti einn fulltrúa. Þá var í lagi að bæta við nokkrum tugum milljóna við  útgjöld borgarinnar, til starfslauss fólks og allir flokkarnir kjömsuðu á þessu bruðli og létu sér vel líka.

Það sem síðan er verra, er að sveitarfélögum er iðulega illa stjórnað. En forráðamenn þeirra hafa komist upp með meira rugl en Alþingi, þar sem kastljós fjölmiðlanna er beint að Alþingi en nánast ekkert að sveitarfélögunum. Auk þess hafa menn í ýmsum sveitarfélögum komist upp með áralanga óstjórn á grundvelli þess að stjórn og stjórnarandstaða vinnur eftir reglunni. Ég klóra þér á bakinu og þú klórar mér.

Þjóð sem rekur ríkissjóð með gríðarlegum halla í bullandi góðæri og sveitarfélög sem eru við það að segja sig til ríkis vegna gríðarlegs hallareksturs í bullandi góðæri mætti gera sér grein fyrir nauðsyn þess að skipta um stefnu og fólk í brúnni áður en þjóðarskútunni verður siglt í strand með þeim afleiðingum, að verra Hrun getur orðið en árið 2008.

One Comment on “En hvað það var skrýtið”

  1. Vandamálið er hvað þetta er illa rekið, allt of margir blíantsnagarar á of háum launum hjá sveitarfélaginu milljarðar leka. Sveitarfélag eins og Árborg (Selfoss) fer í milljarða framkvæmdir við íþróttahús og miðbæ en ræður ekki við að sópa eða moka götur og eru þær nú ekki ekki ýkja margar eða malbika holur og annað sem skiptir íbúa máli en svo er verið að dreifa ruslatunnum sem enginn vill hægri vinstri. Það var ekki verið að pæla í því hvort nægir peningar væru til fyrir því, er einhver í ruslatunnu bransanum besti vinur aðals hjá Árborg? Þetta bull verður að stoppa, þetta er orðið brandari með starfsemi sveitarfélaga og ríkis á kostnað íbúa ekki öfugt líkt og haldið er fram í ríkisfjölmiðlum.

Skildu eftir skilaboð