Ritskoðunin og útsendarar hennar

frettinKrossgötur, RitskoðunLeave a Comment

Eftir Kristinn Hrafnsson:

Fyrr í vikunni birti ég færslu á Facebook um blaðamennsku og fjölmiðla, sem er óneitanlega áhugasvið mitt. Hún féll ekki í kramið hjá þeim sem sjá um að fela, fjarlægja eða merkja efni sem ekki er talið þóknanlegt á Facebook og leiddi til þess að liðssveinar Zuckerbergs settu alvarlega varúðarmerkingu á grein sem fylgdi færslunni og sögðu hana falsfrétt. Dreifing hennar var hindruð. Jafnframt fékk ég tilkynningu þess efnis að ef ég héldi uppteknum hætti og dreifði svokölluðum falsfréttum myndi Zuckerberg-löggan gera mig minna sýnilegan á samfélagsmiðlinum eða grípa til róttækari aðgerða og jafnvel gera mig ósýnilegan með öllu.

Þetta er mjög skemmtilegt og fullkomið tækifæri til að fjalla aðeins meira um fjölmiðla og blaðamennsku.

Varúðarmerking á úkraínsku á færslu höfundar

Fjölmiðlar hunsa uppljóstranir um spillingu

Fréttin sem ég vísaði á var grein Seymour Hersh rannsóknarblaðamanns sem hann birti á Substack-síðu sinni og fjallaði um að samkvæmt hans ónafngreindu heimildarmönnum væri forseti Úkraínu og liðsmenn hans í her landsins gjörspilltir. Þeir hefðu sópað til sín 400 milljónum dala af hernaðaraðstoð Bandaríkjamanna til Úkraínu. Þeir hefðu m.a. notað þá leið að kaupa ódýra, rússneska olíu í gegnum milliliði en sagt Ameríkönum að hún hefði verið greidd fullu markaðsverði, og stungu svo mismuninum í vasann.

Ég benti á að flestir meginstraumsmiðlar Vesturlanda hunsuðu þessa frétt Seymour Hersh. Sú hunsun var meiri en síðast þegar hann lét fréttasprengju falla í sínum skrifum fyrr í vetur. Þá birti hann frétt þar sem heimildarmaður fullyrti að Biden Bandaríkjaforseti hefði persónulega gefið grænt ljós á að Nord Stream gasleiðslurnar yrðu sprengdar í tætlur. Margir efuðust mjög og hafa fundið veilur í þeirri sögu. Nú ríkir bara þögn um nýjustu uppljóstrun Sy Hersh og það sem meira er, einn öflugasti samfélagsmiðill heimsins hindrar dreifingu fréttarinnar og hefur úrskurðað hana falsupplýsingar.

Stríðsaðilar fjármagna ritskoðun frétta af átökunum

Í erindi til mín segir Zuckerberg-löggan að virðuleg (og óháð) samtök hafi úrskurðað að fréttin sé fölsk. Þegar að er gáð reynist dómarinn í málinu vera samtök í Kiev í Úkraínu, Stopfake.org.  Þeirri stofnun var upphaflega ætlað að berjast gegn rússneskum áróðri sem hvolfdist yfir Úkraínumenn á netinu. Ítarlegar upplýsingar fást ekki um fjármögnun samtakanna en þó upplýst að hún sé í gegnum frjáls framlög, safnanir og styrktaraðila. Aðeins nokkrir þeirra styrktaraðila eru nefndir en þar á meðal eru Breska sendiráðið í Kiev og utanríkisráðuneyti Tékklands.

Greining Stopfake er ekki aðgengileg á öðru tungumáli en heimalandsins en með vélþýðingu má sjá úrskurðarorð fréttadómstólsins í Kiev. Meginniðurstaðan er þessi: Hersh færir engar sannanir fyrir fullyrðingum sínum fyrir utan hina nafnlausu heimildarmenn. Þess utan hafi yfirvöld í Washington, bæði Varnarmálaráðuneytið og Hvíta Húsið fullyrt að mikið eftirlit sé með hernaðarstyrkjum til Úkraínu og engar vísbendingar séu um að misfarið sé með þann stuðning. Eftir þessa fullvissu frá bandarískum yfirvöldum úrskurðar stofnunin í Kiev, sem fjármögnuð er m.a. með opinberu styrktarfé frá a.m.k. tveimur NATO ríkjum, að þetta sé tilhæfulaus frétt. Ameríska stórfyrirtækið Facebook leggur svo sitt lóð á vogarskál með því að hindra eftir bestu getu dreifingu þessara upplýsinga.

Köngulóin í ritskoðunarvefnum hirðir 80% auglýsingatekna

Ég ætla að vona að þessi saga gefi tilefni til að staldra við. Látum liggja milli hluta hvað er hæft í frétt Seymour Hersh og einbeitum okkur að forminu og ferlinu þ.e. fjölmiðlaþættinum. Facebook er annar tveggja bandaríska netrisa sem soga til sín 80% af öllu auglýsingafé netsins og hafa því gengið af fréttamiðlum dauðum um heim allan, meðal annars á Íslandi. Á kóvíd tímum var þessum miðlum gefið það vald að úrskurða um lýðheilsuspillandi upplýsingamiðlun – og raunar grátbeðnir um það af stjórnvöldum. Það þótti nauðsynlegt að stemma stigu við því, á lýðheilsuforsendum, að almenningur væri t.d. hvattur til að drekka klór til að drepa kóvíd. Margar aðrar upplýsingar fóru þó í leiðinni í vaskinn, upplýsingar sem síðar hefur komið í ljós að áttu fullan rétt á sér. En tónninn var sleginn. Valdið er núna yfirfært yfir á upplýsingar sem hafa ekkert með lýðheilsu að gera heldur boðskap sem snertir stríðsrekstur þar sem sannleikurinn er sannarlega hverfull. Þar er ekki aðeins við rússneskar nettröllamaskínur að sakast heldur keppast vestrænar leyniþjónustur við að miðla áróðri og misvísandi upplýsingum – það er þeirra hlutverk.

Aukaatriði blásin upp – forðast að fjalla um aðalatriðin

Nýlega lak talsvert af upplýsingum frá bandarískum leyniþjónustum og herjum og var viss ferskleiki fólginn í því að sjá raunverulegt mat viðkomandi aðila á stöðunni. En þær upplýsingar voru ekki ætlaðar almenningi. Almenningur var fóðraður á allt öðru efni sem hafði  umhugsunarvert sannleiksgildi og var til að mynda mikið einblínt á persónu þess sem lak upplýsingunum frekar en upplýsingarnar sjálfar. Dæmi um efni sem átti að leiða huga okkar frá því sem skipti máli er sagan af skemmtiskútunni Andrómedu sem átti að hafa verið notuð til að sprengja upp Nord Stream leiðslurnar. Sú saga er svo vandræðalega ófullkomin að jafnvel hlýðnustu meginstraumsfjölmiðlar miðla henni varla lengur án þess að engjast.

Ég bið fólk vinsamlegast um að hugsa vandlega um þessa stöðu. Ég deili þessum hugleiðingum mínum nú utan Facebook og vona að Zuckerberg-löggan láti þær þar með í friði, en það kemur í ljós.

Vonandi sjá allir hættuna sem blasir við.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 22.04.2023

Skildu eftir skilaboð