Allir samningar um útflutning korns frá Úkraínu í uppnámi

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir, Úkraínustríðið1 Comment

Hinn 22 júlí 2022 var undirritaður í Istanbúl samningur Tyrkja, SÞ, Úkraínu og Rússlands um öruggan útflutning korns, annarrar matvöru og áburðar frá höfnum Úkraínu til þurfandi íbúa þriðja heimsins, að sagt var. Fyrsta skipið sigldi frá Ódessu hinn 1. ágúst eins og var rækilega kynnt í fjölmiðlum á þeim tíma. Það var Razoni sem sigldi undir fána Sierra Leone og flutti 26,000 tonn af maís til Líbanon. Þegar skipið kom á áfangastað þá afþakkaði kaupandinn farminn, hænsnafóðrið hefði komið fimm mánuðum of seint.

Samkvæmt nýlegri grein í Politico þá hafa um 28 milljónir tonna af úkraínsku korni verið flutt út samkvæmt Svartahafssamningnum, en nú lítur ekki út fyrir að samningurinn verði í gildi mikið lengur, því Rússar reynast tregir til að framlengja hann og er lokadagur þeirra 18. maí.

Antoníó Guteres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna mun þó vinna áfram að framlengingu. Samkvæmt Politico þá ásaka úkraínskir og vestrænir embættismenn Rússa um að tefja skoðun kornskipa í tyrkneskri landhelgi, til að spenna upp verð á heimsmarkaði og fulltrúi BNA í Öryggisráðinu segir að Rússar verði að hætta að nota matvælabúr heimsins sem vopn í Úkraínustríðinu og valda með því óöryggi á matvælamörkuðum heimsins.

Haft er í greininni eftir Kremlarfurstum að samningurinn verði því aðeins framlengdur að tekið sé tillit til krafna þeirra. Helstu kröfur þeirra séu að Búnaðarbanki Rússa fái aftur að tengjast SWIFT, hinu alþjóðlega greiðslukerfi, og að viðskiptabanni á rússneska einstaklinga, þar á meðal áburðarkónginn Dmitry Mazepin verði aflétt. Þeir segja að innifalið í samningnum hafi verið loforð um að SÞ auðvelduðu útflutning matvæla og áburðar frá Rússlandi næstu þrjú árin.

Kornið fór aðeins að litlu leyti þangað sem neyðin er mest

Lagt var upp með það að kornútflutningurinn færi til þurfandi þjóða en samkvæmt tölum frá ESB í haust sem leið, þá fór aðeins 25% útflutningsins til lágtekjuríkja, 8% til Egyptalands, Indland og Íran fengu hvort um sig 4%, Kenía og Súdan fengu 2%, hvort land, en Líbanon, Yemen, Sómalía og Djibouti, þau lönd þar sem mest þörf er á matvælum fengu aðeins 1% hvert. Inni í þeim tölum er mannúðaraðstoð á vegum SÞ (WFP) og kom fyrsta skipið á þeirra vegum til Djibouti hinn 30 ágúst, því miklir þurrkar höfðu hamlað ræktun matvæla á Horni Afríku. Um 25% fóru til millitekjulanda, þar á meðal til Tyrklands, Kína og Búlgaríu en helmingur útflutningsins fór til landa ESB, auk Kóreu og Ísraels.

Illa farið með evrópska bændur

Fyrirmæli ESB um tollfrjálsan innflutning korns frá Úkraínu hafa komið illa við bændur víða í Evrópu og hafa landbúnaðarráðherrar Búlgaríu, Póllands, Rúmeníu, Ungverjalands, Tékklands og Slóvakíu fráboðið sér frekari innflutning korns frá Úkraínu næstu mánuðina. Vöruskemmur séu fullar af framleiðslu síðasta árs og ekki pláss fyrir uppskeru þessa sumars og hausts. Að auki hafa sum löndin kvartað undan því að í korninu mælist skordýraeitur yfir þeim mörkum er ESB setur. Slóvakar hafa stöðvað vinnslu á 1,500 tonnum af hveiti og Ungverjar hafa fargað meira en 29 tonnum af maís sem mengaður var eiturefnum og erfðabreyttu efni. Slíkt ætti ekki að koma á óvart því Umhverfisstofnun SÞ hefur vakið að því athygli að ólögleg notkun skordýraeiturs sé vandamál í Úkraínu.

En hvað er til bragðs ef Rússar stöðva flutninga korns um Svartahaf og lönd Evrópu afþakka úkraínskt korn? Samkvæmt nýrri grein í Politico þá hefur Martin Frick, forstjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) nýverið lýst því yfir að stofnunin muni hjálpa ESB til að losna við það úkraínska korn sem veldur vandræðum á evrópskum mörkuðum og koma því þangað sem mest sé þörf fyrir það - eins og stóð upphaflega til áður en ESB ákvað að eyðileggja fyrir evrópskum bændum með því að fella niður tolla og koma á flutningsleiðum fyrir kornið inn í lönd þeirra.

One Comment on “Allir samningar um útflutning korns frá Úkraínu í uppnámi”

Skildu eftir skilaboð