Blaðamaðurinn sem barðist fyrir mannorði sínu og hafði sigur

frettinFjölmiðlarLeave a Comment

Gamalreyndi blaðamaðurinn John Ware fyrir framan veggmyndina á Cable Street sem sýnir hinn fræga „bardaga“ sem átti sér stað þar gegn fasistum Oswald Mosley árið 1936, er þeir gengu um austurenda Lundúna sem þar sem mikið er um gyðinga.

Eftir Gerald Posner:

Stundum sigrar gott fólk. Í þessu tilviki vann topp fréttamaður baráttuna fyrir orðstír sínum þegar reynt var að tortíma honum í kjölfar þess að hann afhjúpaði sögu sem hafði stórfenglegar pólitískar afleiðingar.

Ég tek það fram að ég þekki gamalreynda breska blaðamanninn, John Ware, sem er aðalpersóna þessarar sögu. Samband okkar er ástæðan fyrir því að ég fagna því sérstaklega hvernig þessi kollegi minn barðist farsællega við þá sem gerðu samsæri um að tortíma honum.

Ég hitti John Ware árið 1978, stuttu eftir að hann hafði lokið við gerð hinnar merku heimildarmyndar „Leitin að lækninum Mengele“ (e. „The Hunt for Doctor Mengele“). Það leið ekki á löngu fyrr en ég fór að dást að því hvað Ware var óvæginn í leit sinni að sannleikanum í starfi sínu. Á árunum sem hann fjallaði um ofbeldi og mannréttindabrot á Norður-Írlandi og í Sádi-Arabíu var hann oft í líkamlegri hættu. Ég lærði mikið um rannsóknarblaðamennsku af Ware, og ég var mjög lánsamur þegar hann samþykkti að vera meðhöfundur að ævisögunni „Dauðaengillinn af Auschwitz, Josef Mengele“ (e. „Auschwitz’s Angel of Death, Josef Mengele“), sem kom út árið 1986.

Fyrir fjórum árum, í Panorama, helsta fréttaskýringaþætti BBC, kom Ware fram með ótrúlega afhjúpun á umfangi gyðingahaturs innan breska Verkamannaflokksins. “Hatar Verkamannaflokkurinn gyðinga?” (e. „Is Labour Antisemitic?“) var dramatísk heimildarmynd með viðtölum við starfsmenn Verkamannaflokksins sem höfðu það hlutverk að rannsaka ásakanir um hömlulaust gyðingahatur, auk sannfærandi persónulegra frásagna frá sjö uppljóstrurum. Í heimildarmyndinni var sýnt fram á að gyðingahatur var ekki jaðarvandamál tengt fáeinum gyðingahöturum, heldur kerfislægt vandamál sem var útbreitt innan forystu flokksins, og þeir höfðu ítrekað reynt að fela.

Uppljóstrunin í BBC þætti Ware varð samstundis helsta frétt Bretlands. Sumir í Verkamannaflokknum kenndu frásögn Ware um að hafa leitt til hörmulegs pólitísks ósigurs flokksins á landsvísu fimm mánuðum síðar. Þetta hörmulega tap leiddi til afsagnar Jeremy Corbyn, formanns Verkamannaflokksins. Uppljóstrarar í heimildarmynd Ware höfðu leitt í ljós að Corbyn hafði persónulega komið í veg fyrir sumar rannsóknir á gyðingahatri innan flokksins. Afleiðingar BBC þáttar Ware enduróma enn: aðeins í síðustu viku var Corbyn úrskurðaður í ævilangt bann gegn því að bjóða sig fram í embættið að nýju.

Ware hafði alltaf búist við því að stuðningsmenn Corbyn tækju til sinna ráða í kjölfar uppljóstrunarinnar. Það fylgir rannsóknarblaðamennsku. Hann hafði þó ekki búist við því að verða fyrir persónulegum ásökunum, sem voru rangar í þokkabót. Þar sem róttækir aðgerðarsinnar Verkamannaflokksins – svokallaðir Corbynistar – gátu ekki brugðist við niðurstöðum heimildarmyndarinnar með staðreyndum, réðust þeir á sendiboðann. Hörkuleg áætlun þeirra var byggð á þeirri von að Corbyn gæti snúið aftur ef blaðamannaskilríki Ware yrðu rifin. Það sem fylgdi í kjölfarið var grimmileg og samræmd herferð, knúin áfram af dylgjum og rógburði um siðferði Ware sem fréttamanns.

Daginn eftir að þátturinn fór í loftið sagði fjölmiðlafulltrúi „Raddar Gyðinga fyrir Verkamannaflokkinn (e. „Jewish Voice for Labour“), Naomi Wimborne-Idrissii, við 1,4 milljónir hlustenda á BBC Radio 2, að Ware ætti sér „hræðilega sögu íslamófóbíu, [og] öfgahægrisinnaðra skoðana, hann hafi hlotið skammir – BBC hefur þurft að biðjast afsökunar.“ Vinstrisinnað blogg endurtók þessar ásakanir og fleiri: það sakaði Ware um að eiga „forsöguum hægrisinnaða, rasíska vinnu…“ Seinna hélt bloggið því fram að hann væri „svikahrapps-fréttamaður“ (e. „rogue reporter“).

Ware hafði reyndar aldrei hlotið skammir frá BBC eða neinum blaðamannasamtökum. Samstarfsmenn sem þekktu hann töldu ásakanir um kynþáttafordóma, hægri pólitík og íslamófóbíu tilhæfulausar. Hann hafði byggt upp feril sinn í gegnum árin sem margverðlaunaður blaðamaður og algerlega ópólitískur. Ware bar á borð efni sem reitti allar hliðar hins pólitíska litrófs til reiði. Þegar BBC þáttur hans um gyðingahatur í Verkamannaflokknum var sýndur, var hann að vinna linnulaust að þætti um Boris Johnson, um það sem Ware lýsir sem „þrungnu sambandi Johnsons við sannleikann“. Sá þáttur innihélt hneykslislegt viðtal við bandaríska fyrrverandi ástkonu Johnsons og var sýndur aðeins þremur vikum fyrir bresku kosningarnar.

Þótt Ware hafi þótt ákærurnar sem bornar voru á hann „barnalegar og fáránlegar“ fannst honum þær einnig „stórkostlega móðgandi“. „Ég hef gert þætti um öfgahægrið,“ sagði hann við blaðamann. „Það vill svo til að ég held að ég hafi aðeins einu sinni á ævinni kosið Íhaldsflokkinn. Ég hef kosið flokka til vinstri við það. Ég hef hvergi verið nálægt öfgahægrinu. Þetta eru ógeðslegir einstaklingar, viðbjóðslegir.“

Hann hafði áhyggjur af því að á tímum samfélagsmiðla gæti eitthvað af leðjukastinu fest sig við hann. Það sem „trendar“ á samfélagsmiðlum er það sem vekur mesta athygli. Netheimurinn getur verið dreifingaraðili jafnt fyrir ærumeiðandi upplýsingar og fyrir sannleika. „Ég held að flestir samstarfsmenn mínir skilji að heimurinn hafi breyst verulega,“ sagði Ware nýlega. „Það er veiðitímabil á samfélagsmiðlum núna. Þú getur annað hvort boðið þeim hina kinnina eða þú gerir eitthvað í því og ég hugsaði: ég ætla ekki að sætta mig við þetta.“

Það krefst hugrekkis að berjast gegn róginum en það er það sem Ware gerði. Hann höfðaði sögulegt meiðyrðamál gegn Verkamannaflokknum, útgefanda vefsíðunnar, og einnig gegn Naomi Wimborne-Idrissii, sem var fyrst til að ásaka hann um „kynþáttafordóma“ og að vera „hægrisinnaður“.

Í réttarhöldunum héldu Naomi Wimborne-Idrissii og útgefandi vefsíðunnar því fram að þau hefðu einungis sagt „heiðarlega skoðun“ sína. Enginn hafi átt á að líta á staðhæfingarnar sem sannar staðreyndir. Lögfræðingur Ware sagði hins vegar við blaðamann í kjölfar undirbúningsréttarhalds að „það er eitt að hafa aðra skoðun, en þú getur ekki haft aðrar staðreyndir.“

Í apríl á síðasta ári gerði Ware upp við Naomi Wimborne-Idrissii og Jewish Voice for Labour. Í opnum réttarhöldum viðurkenndi Wimbrone-Idrissii að ásakanir sínar „væru ærumeiðandi. Ég hefði ekki átt að fullyrða að BBC hefði gripið til aðgerða gegn Ware í tengslum við ásakanir um að hann hafi tekið þátt í íslamófóbíu og öfgahægri- og/eða rasískum stjórnmálum. Ekki heldur að þetta endurspeglaðist á nokkurn hátt í blaðamannsstarfi hans. Ég tek nú undir þessar ásakanir sem ósannar. Við [Jewish Voice for Labour] höfum beðist afsökunar við herra Ware og útskýrt að ég hafi talað á þann hátt sem ég gerði vegna þess að ég var svo reið yfir innihaldi þáttarins sem herra Ware var blaðamaður í.“

Sjö mánuðum síðar í nóvember, 2022, vann Ware skaðabótamál gegn útgefanda vefsíðunnar. Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að lagalegur réttur Ware væri „yfirgnæfandi“ og að það væri „sérstaklega ósmekklegt“ að saka hann um hlutdrægni vegna þess að fyrri kona hans og tvö börn þeirra væru gyðingar.

„Okkur finnst hræðilega erfitt að rökræða og ræða þessi mál án þess að kalla hvert annað ónefnum, ímynda okkur að hinn aðilinn vilji valda skaða, og vera bara almennt óviðfelldin, andstyggileg, stjörf og kredduleg, þröngsýn, og ónæm fyrir sönnunargögnum,“ segir Ware. „Þetta er bara mjög sorglegt sjónarspil.“

Síðari atburðir hafa sýnt að Ware var forspár í BBC þætti sínum. Jafnréttis- og mannréttindanefnd Bretlands (EHRC) gaf út 130 blaðsíðna skýrslu sem komst að þeirri niðurstöðu að Verkamannaflokkurinn hafi brotið jafnréttislög landsins með því að áreita meðlimi með ólögmætum hætti og mismuna þeim sem báru upp kvartanir um gyðingahatur. Keir Starmer, sem var kjörinn oddviti Verkamannaflokksins eftir fall Corbyn, lýsti deginum þegar EHRC skýrslan kom út sem “degi skammar“. Í desember síðastliðnum var Naomi Wimborne-Idrissii rekin úr flokknum. Háttsettur lögfræðingur sem hafði rannsakað gyðingahatur innan Verkamannaflokksins, komst að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að það væri enn ágreiningur milli fylkinga innan flokksins og að flokkurinn gæti ekki staðið við yfirlýsta stefnu Starmer um „núll umburðarlyndi“ gagnvart gyðingahatri.

Greinin birtist fyrst á Substack 7. apríl og Krossgötur.is 4. maí 2023.

Erling Óskar Kristjánsson þýddi.

Skildu eftir skilaboð