Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir öðrum manninum

frettinInnlentLeave a Comment

Lögregla mun funda með aðstandendum hinnar 28 ára gömlu Sofiu Sarmite Kolesnikova í dag og upplýsa þau um stöðu rannsóknarinnar.  Sofia fannst látin í heimahúsi á Selfossi þann 27. apríl síðastliðinn.

Sveinn Kristján, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við Visir lögreglu komna með nokkuð skýra mynd af atburðarrásinni sem leiddi til andláts Sofiu, en eitthvað eigi eftir að skýrast betur. Bráðabirðaniðurstöður úr krufningu liggja fyrir.

Í gær tók lögreglustjóri ákvörðun um að aflétta gæsluvarðhaldi yfir öðrum karlmanninum.  Krafa hefur verið lögð fram fyrir héraðsdómi um að hinn karlmaðurinn sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Sem fyrr mun lögregla setja út tilkynningar hér á vefnum þegar tilefni er til.

Aðspurður um hvaða glæp maðurinn sé grunaður um, vildi Sveinn Kristján ekki tjá sig um það, en segir að það komi væntanlega fram í yfirlýsingu sem lögregla muni senda frá sér síðdegis.

Maðurinn verður leiddur fyrir dómara í dag, sem tekur ákvörðun um hvort áframhaldandi gæsluvarðhald verði staðfest.

Mennirnir eru báðir á þrítugsaldri og eru þeir stjúpbræður ættaðir frá Selfossi.

Uppfært:

Rannsókn lögreglu á andláti ungrar konu á Selfossi í síðustu viku beinist nú að mögulegu manndrápi til samræmis við bráðabirgðaniðurstöður krufningar. Héraðsdómur Suðurlands hefur framlengt gæsluvarðhald til 19. maí yfir öðrum af tveimur mönnum sem handteknir voru í tengslum við málið. Maðurinn var leiddur fyrir dómara nú fyrir stundu. Hinn maðurinn var látinn laus úr gæsluvarðhaldi í gær.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi kemur fram að rannsókn málsins beinist nú að hugsanlegu manndrápi til samræmis við bráðabirgðaniðurstöður krufningar. Rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi og meðal annars er beðið gagna erlendis frá.

Lögreglan fundaði með aðstandendum Sofiu í dag og upplýsti þau um stöðu rannsóknarinnar. Lögreglan telur sig vera með nokkuð skýra mynd af atburðarrásinni sem leiddi til andláts Sofiu.

Skildu eftir skilaboð