Jaðrar við borgarastríð í Pakistan

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Hæstiréttur Pakistans hefur dæmt handtöku Imran Khans, fyrrum forsætisráðherra landsins, þann 9. maí ólöglega og segir BBC frá því að hann verði eins og stendur undir vernd hæstaréttar. Khan hafði mætt í dómsal til að svara til saka í einu af ótalmörgum málum sem höfðuð hafa verið gegn honum (að hans sögn til að reyna að koma í veg fyrir að hann geti boðið sig fram aftur) er stór hópur brynjaðra manna réðst þar inn og hafði hann á brott með sér í herbíl. Khan sagði fyrir hæstarétti að sér hefði verið rænt frá dómshúsinu og „laminn með prikum“. Samkvæmt BBC minntu dómararnir hann margoft á að aðrir hefðu fengið verri meðferð.

Eftir að það spurðist út að Khan hefði verið handtekinn hófust mótmæli og óeirðir víða í Pakistan. Í frétt BBC frá 11. maí segir að 10 manns í hið minnsta hafi látið lífið og 2,000 verið handteknir. Hópur óeirðaseggja mætti að aðsetri Shehbaz Sharif forsætisráðherra í Lahore og brenndi þar bíla. Í Times Now er haft eftir lögreglu að mótmælendur hafi kveikt í 14 opinberum byggingum og brennt 21 farartæki lögreglunnar í Punjab 9.-10. maí og að herinn hafi verið kallaður út í Islamabad en einnig í Punjab, Khyber Pakhtunkhwa og Balochistan daginn eftir handtökuna.

Einnig hefur verið mótmælt í BNA, Bretlandi og Kanada og þess krafist að Khan yrði leystur úr haldi. Pakistanskir Bandaríkjamenn mótmæltu nærri Times Square í New York og fyrir utan sendiráð Pakistans í Washington DC en einnig var mótmælt í Dallas, Texas. Stór hópur manna safnaðist saman í Knightsbridge London og einnig í Mississauga, kanadískri borg. Myllumerkið ReleaseImranKhan fékk einnig mikla dreifingu á Twitter.

Imran Khan dregur enga dul á það að hann telji að Bandaríkjamenn hafi staðið á bak við að sér hafi verið bolað úr embætti. Hann hefði gert þeim ljóst að Pakistan væri ekki í neinu liði, þeir vildu vera hlutlausir og ekki skipta sér af átökum annarra ríkja. Hann segir núverandi forsætisráðherra gjörspilltan og undir hælnum á Bandaríkjunum, sem og alla ætt hans. Khan komst til valda eftir að upplýsingar úr Panamaskjölunum urðu þess valdandi að bróðir núverandi forsætisráðherra missti það embætti og fékk lífstíðarbann frá stjórnmálum.

Samkvæmt Gallupkönnun frá því fyrr á þessu ári hefur Khan stuðning 61% kjósenda og eru margir þeirra eldheitir stuðningsmenn hans. Er Khan kom fyrir rétt daginn eftir hið dramatíska brottnám sitt þá kom hann því til skila að hann óttaðist um líf sitt og bað um að einkalæknir sinn fengi að heimsækja sig samkvæmt frétt Express Tribune. Hann sagðist vera geymdur á stað þar sem ekki væri einu sinni aðgangur að salerni og rifjaði upp örlög Maqsood Chaprasi sem var lykilvitni í spillingarmálinu gegn Shehbaz Sharif fyrrum forsætisráðherra en Chaprasi lést úr hjartaslagi á síðasta ári. „Þeir gefa [þér] sprautu, og [þú] veslast upp,“ hefur blaðið eftir honum.

Ástandið í Pakistan er því mjög eldfimt um þessar mundir en til að gera stuðningsmönnum Khan erfiðara fyrir að skipuleggja sig þá hefur farsímasamband legið niðri síðustu daga og lokað hefur verið fyrir You Tube, Facebook, Twitter og Instagram. Nýjustu fréttir herma að dómstóll hafi veitt Khan tveggja vikna vernd gegn handtöku en skv. Aljazeera þá hyggjast stjórnvöld handtaka hann aftur er sá tími rennur út.

Myndband af handtökunni sem CNN birti má sjá hér neðar:

Skildu eftir skilaboð