Evrópa tapar í Úkraínustríðinu, burtséð úrslitum

frettinPáll Vilhjálmsson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Selenskí forseti fékk Karlsverðlaunin sem veitt eru fyrir starf í þágu sameiningar Evrópu. Verðlaunin eru kennd við Karlamagnús keisara á níundu öld sem lagði grunninn að Heilaga rómverska keisaradæminu. Höfuðborg keisarans var þýska Aachen og þar eru verðlaunin veitt.

Selenskí og Úkraína fá ekki þann stuðning sem myndi ráða úrslitum í stríðinu við Rússa, hermenn. Án fleiri evrópskra hermanna getur Úkraína í mesta lagi gert sér vonir um snautlegt jafntefli við Rússa. Meiri líkur eru á tapi.

Evrópska hermenn fær Úkraína ekki þar sem hálfvelgja einkennir stuðning ESB við Selenskí. Peningar og vopn eru send á austurvígstöðvarnar þar sem úkraínsku blóði er úthellt fyrir evrópsk „gildi.“ Karlamagnús var landvinningamaður, jók stórum ríki Franka og vissi hvað til þurfti, herstyrk og vilja til að beita valdi. ESB er aftur saumaklúbbur sem kjaftar sig upp í stórveldi. Kaupin gerast ekki þannig á eyrinni þegar stórveldi eiga í hlut. Metnaði verður að fylgja máttur.

Evrópusambandið tapar stöðu og tiltrú verði niðurstaðan í Úkraínu óhagfelld stjórninni í Kænugarði. Rússland eflist og gömlu nýlenduveldin falla niður um deild. Fyrirséðri hnignun er flýtt.

Ef svo ólíklega fer að Rússland tapi stríðinu verður staða Evrópu enn verri. Rússneskt tap er ávísun á byltingarástand líkt og 1917. Rússland myndi leysast upp í borgarastyrjöld sem yrði útflutningsvara vestur á bóginn. Kjarnorkuvædd í ofanálag. Óðara reyndi ESB að finna nýjan Pútín sem gæti komið skikk á landmesta ríki jaðrðkringlunnar. En það væri of seint í rassinn gripið. Sovétríkin hrundu friðsamlega. Það er söguleg undantekning. Reglan er að ríki hrynja eftir tapað stríð. Stjórnleysi og byltingarástand eru tvær hliðar á sömu myntinni.

Eina skynsamlega sjónarhornið á Úkraínustríðið er að það sé innansveitarkróníka slavneskra bræðraþjóða. Úkraína þarf að haga sér eins og Finnland eftir seinna stríð, viðurkenna að Rússland er stóri bróðir. Sambærilegt við samskipti Bandaríkjanna annars vegar og hins vegar Kanada og Mexíkó. Litlu systkini hennar Ameríku létu sér aldrei til hugar koma að ganga í bandalag við Kína eða Rússland. Alþjóðapólitík 101, sem ætti ekki að þurfa útskýra fyrir fullorðnu fólki. Evrópuhrokinn í sjálfumglöðu Brusselliðinu er aftur slíkur að einföldustu atriði alþjóðastjórnmála fara fyrir ofan garð og neðan.

Úkraínustríðið minnir æ meira á sumardagana í júlí 1914. Evrópa flaut áhyggjulaus að feigðarósi, gerði ráð fyrir enn einu smástríðinu er lyki á nokkrum vikum, í mesta lagi stæðu átök til jóla. Fyrra stríð reyndist allt annað en snoturt skátastríð. Án hildarleiksins hefði austurrískur korpáll með frímerkjaskegg ekki fengið eldskírn. Reynsluna af vesturvígstöðunum notaði misheppnaði listmálarinn til að stofna Þriðja ríkið. Það fyrsta var ríki Karlamagnúsar og númer tvö drukknaði í blóðbaði fyrra stríðs.

Karlamagnús mun hafa verið greindur maður en óheflaður. Leiðtogar Evrópu samtímans eru heflaðir og fínpússaðir en sljóir. Þeir sjá ekki að versta sem gæti komið fyrir álfuna er grínistinn Selenskí legði Rússa að velli. Þá fyrst yrði fjandinn laus.

Pútín bjargar Evrópu frá eigin glópsku fari sem horfir. En hann fær aldrei Karlsverðlaunin. Þau eru frátekin fyrir hræsnara.

Skildu eftir skilaboð