Heimilin geta staðið undir verðbólgunni en ekki vaxtahækkunum Seðlabankans

frettinFjármál, InnlentLeave a Comment

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu. Samtökin segjast ekki eiga nógu sterk orð til að fordæma 16,67% hækkun stýrivaxta Seðlabankans síðastliðinn miðvikudag.

Fréttatilkynningin er svohljóðandi:

Seðlabankinn er upp á sitt einsdæmi, með dyggum stuðningi Ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, að fórna heimilunum á altari fjármálafyrirtækja.

Það er staðreynd að flest heimili geta staðið undir verðbólgunni en þúsundir þeirra munu ekki geta staðið undir glórulausum vaxtahækkunum Seðlabankans.

Það er verið að kollvarpa lífi tugþúsunda með grimmilegum hætti og við lýsum því yfir að það hefur ENGINN rétt til að búa til aðstæður þar sem fólk missir heimili sín. Alveg sama hvaða titil fólk hefur eða hvaða embætti það gegnir eða hvaða menntun það hefur aflað sér.

Ef svo fer sem horfir munu fjölmargir, jafnvel þúsundir, missa heimili sín á næstu mánuðum og árum VEGNA aðgerða stjórnvalda og þeim skaða bera núverandi stjórnvöld fulla og algjöra ábyrgð á. Meðal fórnarlamba þeirra verða börn, sem þau eru með þessu að dæma til fátæktar.

Við höfum megnustu skömm á þessu og lýsum fullri ábyrgð á hendur þeim einstaklingum sem sitja í peningastefnunefnd og ráðherrum í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Vaxtahækkanir undanfarinna mánaða eru ekkert annað en glæpur gegn fólkinu í landinu, glæpur sem er framinn í skjóli laga.

Við viljum kalla þetta landráð því með þessum grimmilegu vaxtahækkunum er verið að ráðast gegn undirstöðum þjóðfélagsins, heimilunum sjálfum.

Heimilin eiga ekki að vera notuð í fóður fyrir bankana!

Hagsmunasamtök heimilanna.

Skildu eftir skilaboð