Þekktur blaðamaður á flótta

frettinPáll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjalmsson skrifar:

Blaðamaður í fullu starfi og með trúnaðarstörf á sínum herðum að auki skilaði ársskýrslu til Fyrirtækjaskrár árið 2021 með sjö milljón króna hagnaði á einkahlutafélagi sínu. Árin á undan var engri skýrslu skilað.

Blaðamaðurinn varð uppvís að víðtækum skattsvikum í tengslum við útleigu á íbúðum í gegnum Airbnb. Um árabil leigði blaðamaður ferðamönnum húsnæði en gaf tekjurnar ekki upp til skatts. Tilfallandi athugasemd greindi frá í gær að blaðamanni var gert að greiða vangoldinn skatt með 25% álagi.

Skattrannsóknastjóri fékk upplýsingar um útleigu fasteigna Íslendinga árin 2015-2018 í gegnum vef og greiðslukerfi Airbnb. Alls var um að ræða leigutekjur upp á 25 milljarða króna.

Fréttastofa RÚV birti frétt um málið á sínum tíma. Fréttin hefur verið tekin niður, án skýringa.

Skattrannsóknastjóri vísaði stærri undanskotsmálum til héraðssaksóknara en afgreiddi minni háttar mál með endurálagninu og 25% álagi. Þau mál sem fóru til héraðssaksóknara urðu sjálfkrafa opinber.

Skattaundanskot blaðamannsins er ekki minni háttar, nema tugum milljóna króna. Blaðamaðurinn fékk sérmeðferð hjá skattayfirvöldum. Hann fékk leyfi til að setja útleiguna í einkahlutafélag sitt sem skilaði sjö milljón króna hagnaði árið 2021. Skattaundanskotin árin á undan stundaði blaðamaðurinn á eigin kennitölu.

Af þekkta blaðamanninum er ekkert að frétta. Hann er á flótta. Svarar hvorki síma né tölvupóstum. Er hann þó í krafti trúnaðarstarfa þekktur fyrir að koma fram í fjölmiðlum og krefur aðra um svör án undanbragða.

Skildu eftir skilaboð