Ekkert uppnám hjá Bandalagi kennara á Norðurlandi eystra, bara ólöglegur formaður

frettinHelga Dögg Sverrisdóttir, Innlent1 Comment

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar:

Fjölmiðlar hafa gaman af að slá upp fyrirsögnum sem selja. Út á það gengur reksturinn. Ekki vantar heldur dramatíkina þegar Bandalag kennara á Norðurlandi eystra er annars vegar. Allavega um þessar mundir.

Sá leiði atburður átti sér stað að ekki var farið að lögum á aðalfundi deildarinnar. Á fundinum voru lög virkjuð eftir á og ekki farið að fundarsköpum. Eitt markmið verkalýðsfélaga er að fara að lögum og reglum, ekki síst eigin. Það brást á aðalfundi BKNE.

Í fundarsköpum segir: ,,Hafi dagskrá fundar verið send í fundarboði er hún bindandi nema henni sé breytt í upphafi fundar.“ Á aðalfundi BKNE var þetta ekki gert sem dæmi.

Á öðrum stað segir: ,,Fundarmenn eiga rétt á að framkvæmd dagskrár sé í samkvæmt fundarsköpum.“ Eftir þessu var heldur ekki farið.

Örugg fundarstjórn segir í fundarsköpum veltur á kunnáttu ekki duttlungum. Sama má segja um stjórn deildar, einingar og félaga. Stjórnarmenn í BKNE létu duttlunga ráða för þegar tvö ósamhljóma lögfræðiálit um sama málefni lá fyrir. Duttlungar þeirra réðu för, segi ég, því hlutverk stjórnar er að virða lögin og gæta þeirra. Því miður bar stjórnarmönnum BKNE ekki gæfa til þess. Ákváðu á eigin spýtur hvort álitið væri rétthærra!

Arnar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi dómari var fenginn til að skoða atburðarásina og hann skýrir hana þannig; ,,Endanlegt fundarboð mun hafa verið sent út seint um kvöld 25. september 2023 og þá fyrst tilkynnt um fyrirhugaða breytingartillögu á lögum félagsins. Liðu því ekki fullir 10 dagar frá fundarboði fram að aðalfundinum 5. október, en 6. gr. laganna kveður, sem fyrr segir, skýrlega á um að boðað skuli til aðalfundar með minnst 10 daga fyrirvara. Ennfremur er á það bent að jafnvel þótt talið yrði að fundurinn hafi verið löglega boðaður, þá hljóti kosning til embættis formanns að teljast ógild, því félagsmönnum gafst ekki viðhlítandi tími til að bjóða sig fram til formennsku. Að loknu samþykki lagabreytinganna hefði þurft að slíta fundinum og boða nýjan aðalfund með tilskildum fyrirvara. Með því að þetta var ekki gert og ekki leitað afbrigða á fundinum fyrir því að strax færi fram kosning um nýjan formann samkvæmt nýjum lögum og án tilskilins aðdraganda telst sú kosning ógild. Leiðir þetta af almennum reglum um bann við afturvirkni laga og þess að kosningin fór fram á fundi sem boðaður hafði verið og haldinn á grunni eldri laga.

Með vísan til framanritaðra ágalla telst kosning kosning nýs formanns BKNE á fundinum 5. október sl. hafa verið ógild.“

Annar lögmaður Erna Guðmundsdóttir, sem áður vann hjá KÍ, var fengin til að koma með annað álit sem og hún gerði. Stjórnarmenn sem í upphafi vildu ekki lögfræðiálit óskuðu eftir öðru áliti. Gott mál. Lögfræðingunum greinir á um málið og því er það ekki útkljáð út frá lagalegum grunni. Leysa átti flækjuna.

Öllum var í lófa lagið að viðurkenna mistökin, boða auka-aðalfund og kjósa formanninn löglega. Það var ekki gert og því situr formaður BKNE í völtu sæti.

One Comment on “Ekkert uppnám hjá Bandalagi kennara á Norðurlandi eystra, bara ólöglegur formaður”

Skildu eftir skilaboð