Björn Bjarnason skrifar:
Það er einkennilegt ef kosningabarátta sem snýst um menn en ekki málefni má ekki snúast um frambjóðendur og það sem þá varðar.
Föstudaginn 3. maí hleypti ríkissjónvarpið forsetakosningabaráttunni af stað hjá sér með rúmlega tveggja tíma þætti þar sem frambjóðendurnir 12 fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína án ögrandi spurninga.
Eftir þáttinn urðu líflegar umræður um frammistöðu frambjóðenda. Enginn fær falleinkunn en af samfélagsmiðlum má álykta að framganga Höllu Hrundar Logadóttur hafi valdið vonbrigðum.
Halla Hrund fór glæsilega af stað og náði efsta sæti á skoðanakönnunum á ógnarhraða. Kynningarefni hennar á Facebook átti stóran þátt í að vekja áhuga á framboði hennar. Þar er fagmannlega að verki staðið.
Daginn sem sjónvarpsumræður allra frambjóðenda voru birtist viðtal við Höllu Hrund í sjónvarpsþættinum Spursmál sem Stefán Einar Stefánsson stýrir á hlaðvarpi mbl.is og sagður er. „beinskeyttur“ og að þar séu „stóru mál samfélagsins krufin með afdráttarlausum hætti“ í samtali við „valinkunna gesti“.
Stefán Einar ræddi við Katrínu Jakobsdóttur 19. apríl, Baldur Þórhallsson 26. apríl og síðan við Höllu Hrund 3. maí. Er óhætt að segja að í öllum samtölunum hafi spurningar Stefáns Einars og svör viðmælenda hans leitt umræður um frambjóðendurna inn á óvæntar brautir, ef svo má orða það.
Nú er tekið til við að ófrægja Stefán Einar vegna viðtalanna. Einn frambjóðandi, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, segir augljóst að hann sé á mála hjá „áróðursmaskínu Íslands“ sem hún tengir að eigin hætti og með árás á eiginkonu Stefáns Einars við Sjálfstæðisflokkinn. Hún setur sig á háan hest og segir engan hafa kennt Stefáni Einari „mannasiði“. Hvetur hún lesendur sína til að „afskrifa“ Stefán, svona vinni „engir almennilegir blaðamenn“.
Í raun verður ekki annað séð en Stefán Einar vinni einmitt í þeim anda sem blaðamannafélagið auglýsti, hann setji hlutina í samhengi og skýri þá með hag almennings að leiðarljósi. Hann leggur fram spurningar um efni sem snýr að frambjóðendunum. Réttilega beinist athyglin að svörunum frekar en spurningunum þótt Steinunn Ólína og þeir sem eru henni sammála vilji hafa það á hinn veginn.
Þegar lá í loftinu að Katrín Jakobsdóttir íhugaði framboð gerði Steinunn Ólína tilraun til að fæla hana frá því með því að hóta eigin framboði. Katrín hafði hótunina réttilega að engu. Þegar lesin er skammargrein Steinunnar Ólínu um „áróðursmaskínu Íslands“, spurningar Stefáns Einars, mannasiði hans og allt annað sem snertir forsetakosningarnar má ekki gleyma því að markmið hennar er aðeins eitt, að koma í veg fyrir að Katrín nái kjöri sem forseti Íslands.
Á Facebook svarar Stefán Einar gagnrýnendum sínum og segir meðal annars:
„Vissulega sýnist sitt hverjum um aðgangshörkuna sem þarna er sýnd, en kjósendur eiga m. a. rétt á því að sjá hvernig væntanlegur þjóðhöfðingi mun bregðast við undir pressu og ágangi. Hvernig er fólk búið í bátinn til að svara óvæntum spurningum sem ganga nærri kvikunni?“
Nú er að sjá hvort fleiri frambjóðendur treysti sér til að ræða við Stefán Einar eða hvort Steinunni Ólínu og félögum tekst að fæla þá frá því. Það er einkennilegt ef kosningabarátta sem snýst um menn en ekki málefni má ekki snúast um frambjóðendur og það sem þá varðar.
Viðtalið í heild má sjá hér.