Ritstjóri Wikileaks: „Uppgert dómsmál gegn Julian Assange“

Gústaf SkúlasonErlent, Julian AssangeLeave a Comment

Dómstóllinn í London hefur farið fram á að bandarísk stjórnvöld leggi fram fleiri tryggingar fyrir afgreiðslu á hugsanlegu framsali Julian Assange til Bandaríkjanna. Ritstjóri WikiLeaks telur hins vegar að réttarhöldin séu bæði „spillt“ og „ákveðin fyrir fram.“

Á mánudaginn fer fram málflutningur fyrir dómstólnum til að ákveða hvort Assange fái nýja áfrýjun í málinu sem staðið hefur í lengri tíma um að fá hann framseldan til Bandaríkjanna. Assange á yfir höfði sér allt að 175 ára fangelsi verði hann framseldur til Bandaríkjanna. Hvíta húsið hefur lýst því yfir, að Assange verði ekki dæmdur til dauða.

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, telur hins vegar að allt dómstólsferlið sé „fyrir fram ákveðið“ gegn Assange. Kristinn segir samkvæmt NDTV:

„Það er auðvitað alveg ljóst að ferlið í dómstólnum í Bretlandi er spillt. Dómsmálið er sett á svið gegn Julian.“

Stella Assange svartsýn

Fyrr á árinu samþykktu 86 ástralskir þingmenn tillögu, þar sem skorað var á Bandaríkin og Bretland að leyfa Assange að koma heim til Ástralíu. Forsætisráðherra landsins, Anthony Albanese, vonaðist þá til þess að hægt væri að „leysa ákæruna í samráði“ en löndin hafa ekki svarað tillögu Ástralíu.

Stella Assange sagðist á miðvikudaginn vonast til að eiginmaður hennar verði viðstaddur málflutninginn en hún trúi því ekki, að dómararnir muni úrskurða honum í hag. Hún sagði:

„Ég er hrædd um að ég verði að segja, að ég á ekki von á skynsamlegri niðurstöðu frá dómstólnum.“

Skildu eftir skilaboð