Björn Bjarnason skrifar:
Af því sem sagt er og skrifað eftir samtalið á ABC verður ráðið að afneitun Bidens á eigin stöðu dugi ekki til að vekja traust annarra.
Afneitun einkenndi það sem Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að kvöldi föstudagsins 5. júlí í samtali við George Stephanopoulos á ABC-sjónvarpsstöðinni, fyrsta drottningarviðtalinu við forsetann eftir örlagaríkar kappræður hans við Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana, 27. júní.
Fyrir samtalið sögðu samstarfsmenn forsetans að framganga hans þar og á tveimur kosningafundum nú um helgina myndu ráða miklu um hvort hann nyti trausts til að leiða flokk demókrata í forsetakosningunum í nóvember 2024.
Af því sem sagt er og skrifað eftir samtalið á ABC verður ráðið að afneitun Bidens á eigin stöðu dugi ekki til að vekja traust annarra.
David Axelrod var einn helsti ráðgjafi Baracks Obama í forsetatíð hans og reyndist oft skynsamlegt að treysta mati hans á stöðu mála þegar hann sagði skoðun sína opinberlega. Eftir samtalið í gærkvöldi sagði Axelrod á X:
„Forsetinn er með réttu stoltur af árangri sínum. Hann er hins vegar algjörlega úti að aka í mati sínu á áhyggjum fólks af getu hans til að halda áfram og stöðu sinni í baráttunni. Á þessum tíma fyrir fjórum árum var hann 10 stigum á undan Trump. Nú er hann sex stigum á eftir honum.“
Þrátt fyrir þessa stöðu samkvæmt könnunum lét Biden eins og þær sýndu hann standa jafnfætis Trump. Biden lét einnig eins og hann nyti trausts allra helstu forystumanna demókrata á þingi og meðal ríkisstjóra, þeir hvettu hann til að berjast áfram. Í fjölmiðlum er bent á að þarna fari forsetinn ekki með rétt mál og vitnað til forystumanna úr röðum demókrata því til staðfestingar.
Í fjölmiðlum birtast stöðugt fréttir um að þeir sem demókratar leita til vegna fjáröflunar til að kosta forsetakosningarnar haldi að sér höndum. Margir þeirra hafi um nokkurt skeið gert sér grein fyrir hvert stefndi með heilbrigði og getu forsetans. Hann muni ekki lengur nöfn þeirra og sé aðeins stutta stund á mannamótum vegna úthaldsleysis.
Nú þegar við blasir eftir kappræðurnar 27. júní að Biden heldur varla þræði í eigin setningum er ekki lengur unnt að láta eins og sjálfsagt sé að hann verði forseti fjögur ár til viðbótar og berjast fyrir því. Í því felst afneitun fólks sem vill að minnsta kosti láta líta út fyrir að það búi yfir heilbrigðri dómgreind. Fyrir það er mikið í húfi að missa ekki eigin trúverðugleika með því að styðja eitthvað sem er ekki aðeins út í bláinn heldur getur einnig verið eigin þjóð hættulegt.
Það er annar mælikvarði lagður á Trump en Biden. Það liggur fyrir að Trump hefur sannleikann að engu, telji hann það henta sér. Um helmingur Bandaríkjamanna ætlar samt að kjósa hann og honum berst stuðningur úr ólíklegustu áttum.
Ætli hinn helmingur bandarísku þjóðarinnar að sætta sig við þá lygi að Joe Biden sé hæfur til að gegna forsetaembættinu fjögur ár til viðbótar er það vísasta leiðin til að Trump nái kjöri.
Joe Biden verður í næstu viku gestgjafi á 75 ára afmælisfundi NATO í Washington. Það yrði verðug afmælisgjöf til bandalagsins að þar lýsti hann yfir afsögn sinni og nyti þakklætis og virðingar þeirra sem fundinn sitja.