Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar:
Í Noregi ólíkt Íslandi mega menn skrifa greinar í fjölmiðla sem hylla ekki trans hugmyndafræðina. Hér á landi eru nánast allir miðlar meðvirkir með hugmyndafræðinni og engin gagnrýni leyfð. Í netblaðinu Subjekt í Noregi geta menn skrifað um hvað þeir vilja, þeir bera ábyrgð á eigin orðum. Kjetil Rolness hefur skrifað nokkrar greinar og nú síðast um karlmanninn sem tekur þátt í kvennaflokki á OL fatlaðra.
Kjetil Rolness: ,,Á aftur. Við höfum ekki fyrr lokið að rífast um ,,kvenkyns" ólympíska hnefaleikamenn (sem báðir unnu gull!) að þá berast fréttir af því að trans kona fái að taka þátt í Ólympíuleikum fatlaðra í fyrsta sinn.
Ég spyr: Er það framfaraskref að spretthlaupari sem var karlmaður til ársins 2019 keppi nú á móti konum? Og ég velti því fyrir mér hvernig allir sem vörðu Imane Khelif svo ákaft sem alvöru konu, standi núna:
„Í umræðunni um Khelif voru margir áhugasamir um að benda á að hún skilgreindi sig ekki aðeins sem konu, heldur væri hún ,,fædd kona“. Hm. Var ekki kyn – samkvæmt sama fólki – eitthvað sem þér var aðeins „úthlutað“ við fæðingu?
Sumir sögðust líka vita að alsírski hnefaleikakappinn væri með fullvirkt leg og svo framvegis. Án þess að hafa neinar raunverulegar heimildir að vísa í. Skyndilega lögðu þau mikla áherslu á líffræðilegar staðreyndir – eitthvað sem þeim finnst annars óviðkomandi eða víkjandi í kynjaumræðunni.
Þeir fordæmdu einnig að Khelif væri nefndur trans manneskja. Réttilega, því það var ekki satt. En nú höfum við mál með trans manneskju á Ólympíuleikunum. Hvernig verður viðhorfið og rökin þá? Og hvað með spurninguna um kynþátt?
Því sú staðreynd að Khelif var svört manneskja með dapurlegt uppeldi í fyrrverandi nýlendu stuðlaði að því að vinstri menn föðmuðu hana sem kvenhetju. Og höfnuðu gagnrýninni sem rasisma. Eru þeir alveg jafn tilbúnir til að heiðra íþróttakonu sem fyrir fimm árum var hvítur, miðaldra karlmaður?
Hvað mér finnst um málið?
Mér finnst frábært að Petrillo hafi fundið kynvitund sem hún getur lifað með, ef einhver kann að efast um það. En ég velti því fyrir mér hvort það geti virkilega verið gott að taka þátt í íþróttakeppi með meðfædda yfirburði sem keppinautar þínir hafa ekki.
Ég velti því fyrir mér hvað Petrillo finnst um að sigra íþróttakonur sem hafa eytt stórum hluta ævinnar í að fjárfesta og þjálfa og eiga síðan á hættu að vera sviptar verðlaunum vegna íþróttamanns sem líffræðilega á ekki heima þar.
Sjálf segir hún við BBC Sport að hún eigi skilið þátttöku sína:
„Þetta er ekki lífsstílsval fyrir mig. Það er það sem ég er. Og eins og allt trans fólk sem finnst það ekki eiga heima í sínu líffræðilega kyni, þá ætti ekki að mismuna mér eftir því hver ég er. Á sama hátt og ekki ætti að mismuna manni á grundvelli kynþáttar, trúarbragða eða pólitískrar hugmyndafræði.“
En það má mismuna þeim sem hún keppir við, byggt á sjálfsmynd fyrrverandi karlmanns.
Form inngildingarinnar er öfugsnúið. Í reynd er það hneyksli að ekki hafi tekist að hreinsa til reglur í öllum íþróttum sem brýtur í bága við alla heilbrigða skynsemi. Fræðilega séð gerir það einstaklingi sem hefur nýlega skipt um löglegt kyn – jafnvel án þess að hafa gengist undir neina læknismeðferð – mögulegt að skrá sig í kvennaflokkinn.
Þetta gæti mögulega gefið öllum miðlungs og miðaldra karlkyns hlaupurum von sem vilja annað tækifæri til að komast ofar í stigatöflunni.
En að samfélagi sem annars er umhugað um jafnrétti og réttlæti kvenna, finnist þetta í lagi og frábært og framsækið, er ráðgáta.
Það hefði verið áhugavert – fræðilega séð – að sjá viðbrögðin hér heima ef okkar eigin, alþjóðlega þekkta fatlaða íþróttastjarna, Birgit Skarstein, hefði misst af gullverðlaunum í róðri vegna keppanda sem væri sterkbyggður og sem nýlega tilkynnti um félagaskipti úr karlaflokki."
Hér er greinin.