Geir Ágústsson skrifar:
Menningarstríðið er komið á það stig að jafnvel vantrúaðir á vesturlöndum halla sér að kristni. Vitfirrta vinstrið er komið svo langt inn í vúdú (manngert loftslag og trans) að gamaldags trú á föðurinn, soninn og heilagan anda er jarðbundin í samanburði.
Frægasti trúleysingi samtímans er án efa líffræðingurinn Richard Dawkins. Hann hefur í áratugi í bókum, greinum og fyrirlestrum herjað á trú almennt og kristna trú sérstaklega. Dawkins er síðdarwinisti, útskýrir jarðlíf og mennsku út frá þróunarkenningu Darwin. Ef einhver einn er ábyrgur fyrir vísindalegu guðleysi seinni ára er það Dawkins.
Dawkins er kominn á níræðisaldur og man tímana tvenna. Á sokkabandsárum hans og fram undir nýliðin aldamót var í menningu okkar gengið að vísu að sitthvað væri huglæg reynsla, s.s. tilfinningar, og annað hlutveruleiki. Menn geta fundið hitt og þetta í huga sér, sumt svarar til ytri veruleika en annað ekki. Maðurinn er þannig gerður, getur ímyndað sér hluti sem eru ekki. Vísindin voru, á uppvaxtarárum Dawkins, kirfilega á bandi þeirra sem sögðu að staðhæfingar um heiminn yrðu annað tveggja að vera röklega réttar, t.d. tveir plús tveir eru fjórir, eða staðfestar í ytri veruleika, með athugunum eða tilraunum, til að staðhæfingarnar teldust sannar.
Dawkins hefur áður komið við sögu í tilfallandi athugasemdum:
Hann afgreiðir trans-menninguna með þeim orðum að segist karl vera kona geti hann allt eins sagst vera hundur, þá líklega rakki fremur en tík.
Dawkins segir trans jaðra við geðveiki. Í viðtalinu vill hann ekki útiloka að í heila karls gætu leynst kvenlegir drættir. En að karl geti hoppað úr sínu líffræðilega kyni í andstætt kyn með tilfinningunni einni saman sé brjálæði.
Guðleysi Dawkins er byggt á vísindum hlutveruleikans, stundum kölluð náttúruvísindi. En nú segist Dawkins orðinn kristinn. Ekki persónulega trúaður á frelsarann og heilaga ritningu en kristinn engu að síður.
Dawkins segist menningarkristinn.
Hvað á líffræðingurinn við? Jú, menningarkristinn er sá sem telur trúarlegan grunn vestrænnar menningar mikilvægan. Fyrir fimm árum var haft eftir Dawkins að kristni, og trú almennt, væri ómissandi þáttur í siðferði samfélagsins.
Dawkins er sem sagt menningarlega og siðferðilega kristinn. En líklega ekki vísindalega kristinn. Enda er það enginn maður með öllum mjalla. Eða svo skyldi ætla.
En bíðum við. Frumkvöðlar vísindanna, Descartes og Newton, svo aðeins tveir séu nefndir, voru kristnir í merkingunni trúðu á guð. Einstein hafnaði ekki guði. Hugmyndin að vísindi og kristni samrýmist ekki er ný af nálinni.
Guðstrú og vísindi eru falskar andstæður. Vísindi fást við hlutveruleikann. Vísindin starfa í heimi röklegra sanninda annars vegar og hins vegar hlutlægra sanninda. Guð, samkvæmt skilgreiningu, er hvorki röklegur né hlutlægur.
Sannindi vísindanna eru alltaf með þeim fyrirvara að við vitum ekki betur. Fyrirvarinn er forsenda vísindalegra framfara. Vísindalegt guðleysi er aðeins þeirra sem sannfærðir eru um endanlegan sannleika. Það er trúarlegt sjónarhorn, ekki vísindalegt.
Efi og óvissa er hlutskipti mannsins. Fyrrum sefaði trúin en nú sækja menn líkn í vísindin. Skurðgoðadýrkun heitir sú iðja.