Páll Vilhjálmsson skrifar:
Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélags Íslands hitti í gær sex fyrrum sakborninga í byrlunar- og símastuldsmálinu. Sigríður Dögg tilkynnti fundinn í Silfrinu á RÚV mánudagskvöld. ,,Við erum öll að fara að hittast á morgun [þriðjudag], þessir sexmenningar og lögmaður okkar til að ræða næstu skref," sagði formaðurinn. En það komu engar fréttir af fundinum í gær. Núll, nix, ekkert.
Fréttabann af fundinum er stórfurðulegt. Formaður BÍ segir á RÚV að hann ætli að funda með sex sakborningum, allt blaðamenn, sem voru skornir úr snörunni, a.m.k. tímabundið, með niðurfellingu lögreglu á sakamálarannsókninni s.l. fimmtudag. Efnið er aktúelt, spennandi og varðar mikilvæg samfélagsmálefni. Almenning varðar miklu hvort blaðamenn hafi sérstakar heimildir til lögbrota, líkt og formaður þeirra heldur fram.
Fundurinn er stórfrétt hvernig sem á allt er litið. Hvað var rætt á fundinum? Hver eru viðbrögð blaðamanna? Hyggjast blaðamenn krefja lögreglu um afsökun? Ætla þeir í málssókn? Myndi BÍ borga þá málssókn? Hvað segja blaðamenn um þá yfirlýsingu lögreglu að afbrot var framið, sími Páls skipstjóra var afritaður á RÚV, en ekki tókst að sanna hvaða blaðamenn afrituðu? Er aðild að þjófnaði hluti af starfslýsingu blaðamanna? Hvað segja siðareglur að blaðamenn eigi að gera er þeir hafa vitneskju um yfirvofandi afbrot, byrlun og þjófnað? Eiga blaðamenn að þegja og hirða afraksturinn af alvarlegum lögbrotum?
Ofanritað er aðeins hluti af þeim spurningum sem æskilegt er að blaðamenn myndu spyrja starfsfélaga sína, fyrrum sakborninga, og formann blaðamanna, Sigríði Dögg. Til að halda almenningi upplýstum um hlutverk og skyldur blaðamanna. Brýnt málefni, sem sagt.
En engar fréttir eru sagðar. Ekki einu sinni hvar fundurinn var haldinn og hve lengi fundurinn stóð og hvaða ,,næstu skref" voru rædd. Það er eins og fundurinn hafi ekki farið fram - tilkynnti Sigríður Dögg þó opinberlega með sólarhringsfyrirvara að til stæði að halda hann. Það væri sjálfstæð frétt ef fundurinn hefði verið tekinn af dagskrá og hvers vegna.
Í staðinn fyrir frásögn af boðuðum fundi í gær birtist á heimasíðu Blaðamannafélagsins tilkynning um að í næstu viku verði pressukvöld, opinn fundur um byrlunar- og símastuldsmálið.
Eina myndefnið með tilkynningu Blaðamannafélagsins er stór mynd af Þorsteini Má forstjóra Samherja. Ha, hugsaði tilfallandi með sér, ætlar Þorsteinn Már að tala á pressukvöldi blaðamanna? Nei, við lestur kemur á daginn að myndin af Máa er til að vekja athygli, smetti sakborninga trekkja ekki. Forstjóri norðlensku útgerðarinnar er aftur maður sem þjóðin þekkir og tekur mark á. En Mái verður sem sagt ekki á vettvangi, aðeins fyrrum-fólk að þegja um drýgðar syndir sem sópað var undir teppið á Glæpaleiti.
Á pressukvöldinu verða vinnubrögð blaðamanna til umræðu. Sigríði Dögg dettur ekki í hug að leita eftir aðild frægasta þolanda íslenskra blaðamanna fyrr og síðar, Páls skipstjóra Steingrímssonar. Enginn í annálum fjölmiðla hefur mátt þola viðlíka atlögu að heilsu sinni, fjölskyldu og einkalífi en einmitt skipstjórinn. Fundur með yfirskriftinni Skipstjórinn og sakborningarnir sex myndi troðfylla Hörpuna. Stefán útvarpsstjóri gæti verið fundarstjóri.