Geir Ágústsson skrifar:
Fasistum fer núna töluvert fjölgandi er marka má tungutak pólitískra rétttrúnaðarpresta sem hafa fyrst og fremst þá skoðun að vera á öndverðri skoðun við Trump. Ef Trump vill A þá vilja þeir B. Ef hann segir að himininn sé blár þá er hann í raun grænn. Ef hann segir að veira hafi átt uppruna sinn á rannsóknarstofu þá varð hún til náttúrulega í leðurblökum.
En eitthvað hefur skilgreiningin á fasisma breyst. Einu sinni boðuðu fasistar sterkt ríkisvald undir stjórn öflugs leiðtoga sem hélt því fram að að fólk sé ekkert án ríkisins og ríkið æðra fólkinu, og að þagga megi niður í öðrum skoðunum. Sem sagt, nútímalegur vinstrimaður að einhverju leyti, herskár einræðisherra að öðru. Ekki sami hlutur og að vera nútímalegur vinstrimaður, en margir skyldleikar.
Í dag eru fasistar þeir sem vilja hafa hömlur á þessu ríkisvaldi, hægja á útþenslu þess, skattheimtu og yfirráðum yfir lífum einstaklinga, og eru sæmilega opnir fyrir mál- og tjáningarfrelsi.
Gott og vel, það fer að styttast í að maður fari hreinlega að kalla sig fasista í nýju skilgreiningu þess orðs. Væri það ekki eitthvað?
Auðvitað hefur orðræða rétttrúnaðarprestanna fyrirsjáanlega ýtt þeim út í horn sem öllum er sama um. Svimandi fjárhæðir hafa farið í að borga Hollywood-stjörnum og frægum þáttastjórnendum til að kalla alla sem eru ekki á ystra jaðri vinstrisins fasista, nasista og rasista. Fjölmiðlar rétttrúnaðarprestanna laða að sér töluvert færra fólk en vinsælir hlaðvarpsstjórnendur. Almenningur er farinn að ranka aðeins við sér og tjá sig í gegnum atkvæðagreiðslur gegn firringunni, gefið að yfirvöld banni ekki stjórnmálaflokka á uppleið í svokölluðum lýðræðisríkjum.
Fasistarnir svokölluðu eru miklu minni fasistar en þeir sem kalla þá fasista þegar miðað er við upprunalega skilgreiningu hugtaksins og það er farið að blasa við fleirum.
En kannski það að heyra að einhver sé kallaður fasisti sé vísbending um að þar sé rödd þess virði að hlusta á?