Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Tommy eða Stephen Yaxley-Lennon hefur verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir ítrekuð brot á þagnarskyldu en þagnarskylda var hluti dóms er hann fékk 2021 fyrir að halda fram upplýsingum er dæmdar voru rangar. Málið hófst í grunnskólanum í Almondbury, Huddersfield sem var í framhaldinu lokað og byggingar hans átti að rífa skv. BBC. Einn nemandi réðst á annan og hellti yfir hann vatni úr plastflösku. Samkvæmt Silenced, heimildarmyndinni sem Tommy gaf út um málið, hafði sá sem fyrir árásinni varð hótað að nauðga systrum hins. Átök milli nemenda eru venjulega leyst innan skólanna en af því að sá sem fyrir árásinni varð hafði komið til landsins sem flóttamaður frá Sýrlandi þá fóru fjölmiðlar í þann gírinn að ásaka grunnskólanema um rasíska árás og pyndingar og þurfti hann í framhaldinu að fara í felur ásamt móður sinni og systrum af blönduðum uppruna og tók þá Tommy upp hanskann fyrir drenginn og dró fram aðra sögu af atburðum en fjölmiðlar héldu fram.
Samkvæmt grein í Telegraph var Tommy dæmdur fyrir sex brot á þagnarskyldu í viðtölum er birtust á netinu 2023 (eitt þessarra viðtala var við kanadíska sálfræðinginn Jordan Peterson) og fyrir fjögur brot í tengslum við birtingu á heimildamyndinni Silenced sem Infowars er sagt hafa fjármagnað. Myndin er sögð hafa fengið mikið áhorf, 2.2 milljónir eru sagðar hafa horft á hana eftir að áhrifavaldurinn Andrew Tate póstaði henni og 44 milljónir eru sagðar hafa séð hana á X og er hún þar enn uppi í boðii Elon Musk. Það að Tommy hafnar því að fjarlægja Silenced af X telur Aidan Eardley saksóknari til merkis um forherðingu hans.
Síðast er Tommy var settur inn, samdægurs eftir að standa fyrir framan dómshús og lesa upp nöfn dæmdra kynferðisafbrotamanna af vef BBC, þá var hann geymdur í einangrun mest allan tímann og svo er nú. Ezra Levant hjá Rebel Media hefur tekið mál hans að sér og leit inn til hans í öryggisálmu Woodhill fangelsisins. Hann segir að Tommy líði vel þrátt fyrir að vera lokaður inni í klefa sínum 23.5 klukkustundir á dag. Ezra íhugar að stefna fangelsisyfirvöldum fyrir að geyma mann sem hefur gerst sekur um borgaralega óhlýðni við þær aðstæður. Hann segir einnig að Tommy eigi að mæta bráðlega fyrir rétt vegna brots á hryðjuverkalöggjöfinni, en hann mun hafa neitað að gefa upp pinnið á síma sínum.
Bresk yfirvöld koma undarlega fram við þegna sína. Eftir hnífaárásina í Southport í sumar þar sem þrjár litlar stelpur voru myrtar og margar aðrar særðar á dansnámskeiði fór af stað orðrómur um að gerandinn væri innflytjandi og íslamisti og menn mótmæltu opnum landamærum á götum úti en lögreglan bannaði l slíkar hugleiðingar og handtók fleiri en 1.000 manns fyrir þátttöku í mótmælunum og fleiri en 30 voru handteknir fyrir pósta á netinu, skv. BBC. Fljótlega var upplýst að gerandinn var afkomandi flóttamanna frá Rúanda og skv. nýlegum fréttum frá Reuters þá fundust leiðbeiningar frá al Kaída hjá honum við húsleit og einnig rísín, stórhættulegt eitur. Þetta vissu yfirvöld sem sagt fljótlega eftir handtökuna - en sögðu samt almenning ljúga.
Dómarnir sem fólk fékk fyrir þátttöku í mótmælunum voru einnig óeðlilega harðir. Aldraður maður að nafni Peter Lynchsem svipti sig lífi í fangelsi eftir að hafa fengið tveggja ára og átta mánaða dóm hafði, skv. GB News, mætt með skilti þar sem hann ásakaði lögreglu, þingmenn og fjölmiðla um „spillingu“, kallaði hælisleitendur „barnamorðingja“ og æpti þau skilaboð að óeirðalögreglunni að hún verndaði fólk sem myrti börnin okkar og nauðgaði þeim. Hann beitti sem sagt engan ofbeldi en virðist hafa móðgað lögregluna.