Baráttuandi og góð liðsheild

frettinInnlent, Jón Magnússon, Kosningar, Pistlar1 Comment

Jón Magnússon skrifar:

Stuttri en snarpri kosningabaráttu er að ljúka og kjörfundur hafinn. 

Samkvæmisleikjum fjölmiðla er lokið, en þeir ástunda þá af kappi við kosningar, en gera ekki mikið með þau málefni og hugsjónir ef einhverjar eru, sem barist er fyrir.

Kosningar í hinum vestræna heimi snúast um forystumanninn. Afstaða fólks til hans ræður gengi eða gengisleysi flokka. 

Ekki má gleyma fótgönguliðunum sem leggja sig alla fram og hafa oft mikil áhrif, einkum ef um bága stöðu flokks er að ræða. Flokkar með gott skipulag standa þar best að vígi. 

Sjálfstæðisflokkurinn býr yfir öflugustu kosningavélinni. Í þessum kosningum hefur verið gaman að fylgjast með þeim mikla baráttuanda,sem óbreyttir flokksmenn hafa sýnt og ekki látið bugast þó skoðanakannanir hafi verið mótdrægar. Mikill fjöldi ungs fólks hefur komið til starfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessari kosningabaráttu. Ekki bara unga fólkið heldur fólk á öllum aldri og öllum stéttum. 

Dugnaður unga sjálfstæðisfólksins þýðir það sem skáldið færði í ljóðrænt form:

"Ef æskan vill rétta þér örvandi hönd, þá ertu á framtíðarvegi." 

Öflug kosningavél Sjálfstæðisflokksins getur tryggt flokknum frá 2-4% fylgi umfram það sem flokkurinn fengi annars og þá mestu fylgisaukningu ef gengi hans er slæmt í upphafi kosningabaráttu.  

Þegar ég horfi upp á dugnað og eindrægni flokksfólksins við að vinna flokknum heilt og koma í veg fyrir að hann biði skipbrot, þá þykir mér líklegt að fylgi hans verði á milli 18-20% en ekki 12% eins og flestar skoðanakannanir höfðu spáð honum.

Það er afhroð og óásættanlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en betra en á horfðist.  Úr því verður að vinna og tryggja að sjálfstæðisstefnan ráði för hjá Sjálfstæðisflokknum. Verði svo þarf ekki að óttast fylgisleysi í framtíðinni.

One Comment on “Baráttuandi og góð liðsheild”

  1. Jón Magnússon, þú þarft ekki að auglýsa það hér fyrir nokkrum manni þína aðdáun á þessum frímurara-fasistum!

Skildu eftir skilaboð