Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Allar götur frá því að PLO var stofnað 1964 til að frelsa Palestínu undan yfirráðum gyðinga (Jórdanir réðu þá Vesturbakkanum og Austur Jerúsalem og Egyptar Gasa) hefur staða Palestínumanna verið vinstri pressunni mjög hugleikin og flótti 700-750.000 araba frá heimilum sínum 1948 er fimm nágrannaríki réðust á hið nýstofnaða Ísrael og gyðingar (flóttamenn frá löndum múslima) komu í þeirra stað mörgum sem persónulegur harmleikur.
Samt er það stöðugt að gerast í heiminum að fólk þurfi að yfirgefa heimili sín, nú síðast er Aserar flæmdu nær alla íbúa Nagorno Karabak frá svæði þar sem þeir höfðu búið í þúsundir ára.
Trúlega er það helst tryggð við hugsjónir kommúnismans sem veldur, en það var jú Sovétið sem kom Arafat til valda, en einnig gæti það að litið sé á Ísrael (og BNA) sem táknmynd kapítalismans (óvinur óvinar míns...) haft áhrif. Ekkert fyrrum Ráðstjórnarríkjanna virðist þó styðja Palestínumenn í dag, ekki með stórum fjárframlögum a.m.k. Það hefur hið nýja Sovét, Evrópusambandið, og lönd innan þess tekið að sér að mestu.
Flestir munu vera sammála um rétt þjóða eða þjóðabrota til sjálfsákvörðunarréttar, hvort sem um t.d. Tíbeta, Kúrda eða Palestínumenn er að ræða en þegar menn koma óvininum til valda, eins og Íranir gerðu er þeir kölluðu eftir Khomeini og sitja uppi með valdaklíku hans þá vandast málið.
Óvinur Palestínumanna nr. 1 er Hamas sem þeir komu til valda 2006. Sé stofnskrá samtakanna frá 1988 lesin (Hamas Covenant) kemur í ljós að Hamas er afleggjari Bræðralags múslima sem var stofnað 1928 í Egyptalandi til að endurvekja veldi Ottómana enda stjórnar Hamas líkt og hernámsveldi á Gasa; drepur þá er mótmæla, arðrænir þegnana, notar þá sem skildi og elur þá upp í hugmyndafræði haturs og píslarvættis. Í stofnskránni segir að Ísrael muni verða til uns íslam eyði því eins og það hafi eytt öðrum ríkjum og að baráttan standi ekki um landsvæði heldur um fylgispekt við Allah.
Samkvæmt sjaríalögbók þeirri er í gildi er í Palestínu er það skylda hvers manns að berjast gegn þeim sem ekki eru múslimar en hvað sem vilja Allah líður þá er ekki mikinn stuðning að finna við að endurvekja kalífaveldið og Bræðralagið klúðraði tækifærinu sem það fékk í Egyptalandi eftir „arabíska vorið."
Annar helsti óvinur Palestínumanna er UNRWA, samtökin sem voru stofnuð til að koma flóttaaröbunum frá 1948 í skjól en samkv. nýjustu tölum frá UNRWA eru skjólstæðingar þeirra nú 5.9 milljónir. Það er ekki aðeins að samtökin haldi fólkinu í stöðu flóttamanna kynslóð fram af kynslóð heldur hafa samtökin IMPACT-se sýnt fram á að námsefnið er fullt af gyðingahatri, jafnvel stærðfræðidæmin, og Ísraelsstjórn hefur bent á að margir liðsmanna Hamas séu jafnframt kennarar hjá UNRWA og að sumir þeirra hafi jafnvel tekið þátt í hryllingnum 7/10 ´23.
Palestínska heimastjórnin, með Abbas í forsvari ber ekki heldur hag borgara sinna fyrir brjósti. Hún er alræmd fyrir spillingu, líkt og Hamas og hvorugur hópanna hefur leyft kosningar frá því að þeir komust til valda. Árið 2008 bauðst Abbas að stofna eigið ríki Palestínumanna á Vesturbakkanum á stærra landsvæði en hann krafðist. Saeb Erekat, þáverandi samningamaður lagði hart að honum að samþykkja eins og sjá má í viðtali á Palwatch, nr. 15619 frá 2018 en svarið var nei, líkt og er hann hafnaði síðar Abrahamssamkomulaginu.
Abbas hefur einnig hafnað að afnema svokölluð „Pay for Slay" lög sem voru samþykkt 2004 en samkvæmt þeim eru Palestínumenn verðlaunaðir fyrir að drepa eða særa íbúa Ísraels en er Trump nær aftur völdum í janúar má búast við því að aftur verði farið eftir Taylor Force lögunum og greiðslur til Palestínsku heimastjórnarinnar skornar við nögl, auk greiðslna til UNRWA.
Allir þeir er fögnuðu hermdarverkunum í Negev eyðimörkinni 7/10 í fyrra munu hafa vitað að margir Gasabúa myndu gjalda fyrir þær gerðir með eignum sínum og lífi og geta því tæpast flokkast til vina.
Íranir bera tæpast neina sérstaka umhyggju fyrir Palestínumönnum frekar en íbúum Jemen og Líbanon sem þeir sjá fyrir vopnum og viðhalda með því stríðsástandi í löndum þeirra. Sýrlandsforseti var ekki hrifinn af stuðningi Palestínumanna við ISIS ekki frekar en að íbúar Kúveit og Sádar fögnuðu stuðningi þeirra við Saddam um árið.
Á Íslandi gera „vinir" Palestínumanna í því að auka þeim óvinsældir með virðingarleysi og heimtufrekju. Í bandarískum háskólum birtist „stuðningurinn" helst í gyðingahatri, sem og víða í kröfugöngum gegn stríðinu á Gasa. Í Ástralíu sungu menn „Gas the Jews" og í London og víðar kyrjuðu menn Hamassöngva s.s. „Khaybar, Khaybar , ya yahud" sem var saminn í fyrstu Intífödunni.
En Intífödurnar hafa aðeins gert líf Palestínumanna mun verra. Er ekki kominn tími til að slaufa jíhadinu og byggja upp ferðamannaparadís á Gasa og friðsamt velmegunarsamfélag á Vesturbakkanum? Það að moka peningum í uppbyggingu Gasa á meðan Hamas er þar við völd, eins og menn hafa gert, gagnast aðeins hergagnaframleiðendum heimsins - en er það ekki hluti vandans?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2.12.2024