Hvað skýrir lélegan árangur íslenskra grunnskóla?

frettinInnlendarLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Fyrir 7 árum þ.2.mars 2017 skrifaði Gunnlaugur H.Jónsson eðlisfræðingur góða grein í Fréttablaðið sáluga, sem hét "Hvað skýrir lélegan árangur íslenskra grunnskólanema" Þar gerir hann að umtalsefni hve illa íslenskir grunnskólanemendur standa sig og afsakanir sem þá voru settar fram vegna þessa slaka árangurs. 

Í lok greinar sinnar segir höfundur: 

"Hvað getur skýrt það að enskir nemar ná betri árangri en íslenskir í öllum þáttum Pisa könnunar, þó að tilkostnaðurinn sé helmingi lægri. Eru enskir nemar greindari en íslenskir nemendur, eru enskir kennarar betri og duglegri en íslenskir kennarar eða eru áherslur og skipulag íslenskra skólakerfisins rangar?

Skýringarnar eru eflaust margar og liggja ekki fyrir en ég ætla að leyfa mér að álykta að vandinn liggi m.a. í áherslum og skipulagi íslenska skólakerfisins, áherslum í kennaranámi og áherslum og skipulagi skólanna. Áherslan hefur verið á "skóla án aðgreiningar" þar sem nemendur með mjög mismunandi þarfir, getu og áhugasvið hafa verið settir saman í einn bekk í sama skóla. Leyfi mér að leggja til aðra áherslu: "Skóli við hæfi hvers nemenda" þar sem leitast er við að koma hverjum nema fyrir í bekk sem hæfir hans þörfum, getu og áhugasviði."

Gunnlaugur bendir á hið augljósa sem ætti nú 7 árum síðar að blasa enn betur við. Á þessum 7 árum hefur staða íslenskra grunnskólanema í samanburði við aðra skv. Pisa könnunum farið stöðugt versnandi. Geta íslensku nemana og þekking er slök bæði ein og sér og í þeim samanburði sem hér ræðir um. Þrátt fyrir það vilja yfirvöld skólamála láta eins og best sé að sofa Þyrnirósarsvefni, gera sem minnst láta reka á reiðanum og láta þá sem bera ábyrgð á skipulaginu og mistökunum hafa áfram með málið að gera eins og ekkert hafi í skorist. Ráðherra skólamála hefur þar gengið á undan með slökustu frammistöðuna af þeim öllum sem að þessum málum koma. Ábyrgð hans er mikil.

Er ekki kominn tími til að hafa það sem meginviðmið í íslenskum skólum að móta skóla, "við hæfi hvers nemenda" í stað þess að ríghalda í hugmyndafræðina um "skóla án aðgreiningar".

Svo sakar ekki að benda á, að samkeppni er æskileg til að ná fram því besta hjá fólki hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Þess vegna skiptir máli að birta opinberlega samanburð á milli skóla og greina frá því frá hvaða skólum nemendur standa sig best þegar kemur í framhaldsskóla. Leyndarhyggjunni verður að sópa burt. 

Það verður að gera kröfur og láta fólk njóta þess sem það gerir vel í stað þess að reyna að vefja alla í værðarvoðir vesaldóms íslenska grunnskólakerfisins. 

Skildu eftir skilaboð