Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Hinn 1. ágúst fóru þingmenn Miðflokksins, þeir Sigmyndur og Bergþór, yfir nýja 150 atriða aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum í þætti sínum Sjónvarpslausir fimmtudagar. Úr því urðu tveir þættir, samtals um tveir og hálfur tími og sleppti Bergþór þó mörgu, en það var hann sem lagði á sig að lesa 260 bls. skýrslu Stjórnarráðsins um væntanlegar aðgerðir.
Aðgerðaáætlunin er í nú í samráðsgátt og hvetja þeir menn til að skila inn athugasemdum sem verður hægt að gera fram í september. Fátt er í þessarri áætlun sem Miðflokksmönnum líkar, en eitthvað þó svo sem hugmynd um sorpbrennslustöðvar svo ekki þurfi að sigla með sorpið til Svíþjóðar en sé á heildina litið þá muni þessi áætlum færa okkur áratugi aftur í tímann, segja þeir og finnst að við sem erum komin lengst allra landa í heiminum í notkun endurnýjanlegrar orku eigum að fá það viðurkennt. Samkvæmt áætluninni skal horfa á allar framkvæmdir gegnum loftslagsgleraugu og forgangsraða þeim verkefnum sem skila sem mestum loftslagsávinningi og er þá væntanlega ekki spáð í kostnað, hagkvæmni eða þarfir almennings. Þeir segja ríkistjórnina svo undir hælnum á ESB að hún hafi ekki einu sinni fyrir að sækja um þær undanþágur sem landið eigi rétt á vegna sérstöðu sinnar sem eyja í Atlantshafi.
Þeir sjá fyrir gósentíð hjá loftslagsráðgjöfum vegna aukinnar skriffinnsku. Til dæmis á að innleiða innra kolefnisverð opinberra framkvæmda og gera það sýnilegt með gagnasöfnun, landbúnaðurinn skal halda umhverfisbókhald og skipa skal starfshópa um hitt og þetta. Öllu þessu mun að sjálfsögðu fylgja aukinn kostnaður og fyrirhöfn. Viðskiptakerfi ESB með loftslagsheimildir (aflátsbréfin) skal halda sér og innleiða skal tímanlega það regluverk er því fylgir. Það skal sem sagt ekki hætta að ljúga því að við framleiðum meginpart orku okkar með jarðefnaeldsneyti og jafnvel kjarnorku. Borgarlínan virðist inni og áfram skal hækka kolefnisgjald (eins og gert er um hver áramót) og jafnvel útvíkka framkvæmdina. Ekki skulu menn þó búast við bættu vegakerfi því þar skal nota lágkolefnislausnir.
Margt er undarlegt í þessarri aðgerðaáætlun. Til dæmis skal fækka ræktuðum hekturum um 10% fyrir 2030 miðað við 2022. Hvað með fæðuöryggið?
- Gerð skal krafa til ökutækjaleiga um meira af hreinorkubifreiðum. Er það raunhæft? Vilja ferðamenn leigja rafmagnsbíla?
- Útfösun bensín- og díselbíla er enn inni og á að útvíkka bannið svo það nái einnig til hybridbíla. Hrein vitfirring.
- Krafa er um samdrátt í losun fra flugi og innleiða skal sjálfbært flugvélaeldsneyti í þrepum. Hvað skyldu menn þar eiga við?
- Breyta skal lögum um lífeyrissjóði til að liðka fyrir sjálfbærum fjárfestingum þeirra. Það á sem sagt að neyða lífeyrissjóðina út í áhættufjárfestingar. Töpuðu þeir ekki nógu miklu í hruninu?
- Endurskoða skal opinberar reglur um matarræði. Ekki skal lengur spá í hvað sé hollast heldur hvað falli best að loftslagsstefnunni, eða svo gæti virst.
Svo var það klausan um loftslagsvæna skóla, námsskrá og kennaramenntun. Þar virðist ríkið stefna til miðalda með svipaðir innrætingu og kaþólska kirkjan (nú loftslagskirkjan) stundaði. Eru hugmyndir Upplýsingarinnar nú gleymdar?
Ef til vill hef ég misskilið eitthvað hjá þeim félögum en það ætti þá að leiðréttast í umfjöllun þeirra um aðgerðaáætlunina á þinginu í haust.
3 Comments on “Þrengingaáætlun ríkisstjórnarinnar – umfjöllun Miðflokksmanna”
Almenningur er hafður að fíflum í Leikhúsi Fáránleikans. Og við fáum líka að greiða hátt miðaverð fyrir þennan skrípaleik.
Þau eru algerlega kexrugluð, það þarf að koma þessu veruleikafyrrta liði út hið snarasta!
Kosningar í haust !!!!