Geir Ágústsson skrifar:
Fyrir ekki löngu síðan hlustaði ég á útvarpsleikrit byggt á frægri skáldsögu George Orwell, 1984, og horfði síðan á kvikmynd byggða á sömu bók (útvarpsleikritið er betra). Sagan gerist í ímynduðum heimi þar sem yfirvöld stjórna öllum upplýsingum, ljúga stanslaust að fólki til að halda völdum og fjarlægja úr samfélaginu þá sem ógna frásögninni.
Ég fór að kynna mér þessa sögu betur eftir að hafa heyrt einhvern lýsa henni þannig að það mætti halda að yfirvöld hefðu gert hana að leiðbeiningabæklingi frekar en varnaðarorðum. Sérstaklega á veirutímum, en líka enn þann dag í dag. Ég hafði ætlað mér að lesa bókina fyrir mörgum árum, en nú varð því ekki frestað lengur að kynna sér hana.
Og mikil ósköp, ég tek undir þá greiningu að bókin sé komin með stöðu leiðbeiningabæklings!
Fræg eru til dæmis þau orð úr 1984 að stríð sé friður. Hljómar það ekki aðeins of kunnuglega í opinberri umræðu í dag?
Þegar kemur að áróðri og lygum vantar ekki dæmin. Í Bretlandi hafa til dæmis verið óteljandi fjöldamótmæli seinustu daga og vikur sem hófust upphaflega vegna morða sonar innflytjenda á þremur ungum stúlkum en hafa þróast yfir í mótmæli gegn innflytjendastefnu Bretlands. Hvað segja fjölmiðlar okkar, allir sem einn? Jú, að þetta séu óeirðir öfgahægrimanna, að hluta fjarstýrt af manni sem kallar sig Tommy Robinson. Ekkert í þeirri frásögn á sér nokkra stoð í raunveruleikanum eins og Tommy fer hérna yfir á eina samfélagsmiðlinum sem er ekki búinn að þurrka nafnið hans út svo fjölmiðlar hafi einir möguleika á að tjá sig um hann og þá friðsælu fjöldahreyfingu sem hann tilheyrir.
En auðvitað er auðveldara fyrir okkur að trúa því einfaldlega að í Bretlandi sé fasistahreyfing sem telur tugþúsundir verkamanna og að þar með sé réttlætanlegt fyrir yfirvöld að hraða öllum dómstigum til að koma ungum, breskum mönnum í fangelsi eins hratt og hægt er. Ég vil auðvitað ekki skemma partýið fyrir þeim sem vilja trúa á slíkar einfeldislegar útskýringar. Afsakið ef ég gerði það.
Eftir situr samt í mér sú hugsun að 1984 sé bók á sérhverju náttborði stjórnmálamanna og lesin eins og leiðbeiningabæklingur frekar en hrollvekjandi skáldsaga.