Er sannleikurinn valkvæður?

frettinJón Magnússon, PistlarLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Heimspekinginn Sókrates og sófistana í hinni fornu Aþenu, greindi á um hvort sannleikurinn væri einn og algildur eða hann væri valkvæður. Hugmyndafræði Sókratesar um algildan sannleik sigraði og hefur verið leiðarstefið í vestrænni og kristilegri hugmyndafræði æ síðan, en nú eru alvarleg veðrabrigði.

Hugmyndafræðin sem tröllríður Vesturlöndum, er sú að sannleikurinn sé sá sem þér finnst hann vera eða hvernig þér líður. Ef þér finnst þú vera kona, þá ertu kona.

Finnist „fórnarlambinu eitthvað sem sagt er valda því þjáningu eða bera vitni um fordóma gagnvart sér, þá er  mælikvarðinn það sem því finnst . „Fórnarlambið“ hefur alltaf rétt fyrir sér á grundvelli tilfinningalegrar greiningar sjálfs sín.

Sú hugmyndafræði að einstaklingsbundnar tilfinningar og skilgreiningar sé sannleikurinn breytir algjörlega grundvelli réttarríkisins. Sönnun og sönnunargögn skipta litlu skv. þessari hugmyndafræði þar sem ákærandinn hefur öll völd.

Getur eitthvað afsannað ásakanir um tilfinningalega grimmd, niðurlægingu eða mismunun þegar eina gilda sönnunargagnið er vitnisburður þess sem finnst að það vera órétti beitt. Réttarhöld, sönnun og sakfelling eru þá í ætt við réttarhöld í Sovét og þriðja ríkinu eða þegar meintar nornir voru dregnir fyrir dóm forðum daga.

Nýja skilgreiningin á sannleikanum er: „Ég er það sem mér finnst ég vera.“ Gamla skilgreininingin, sem gildir ekki lengur: „Ég stend fyrir það sem ég geri og get“.

Styrkur, dugnaður og frumkvæði eru ekki viðurkenndir mælikvarðar lengur. Nýja hugmyndafræðin fordæmir að þú sért stoltur af því sem þú gerir. Ekki má verðlauna fólk og það er fordæmanlegt að styðja við hæfileika og dugnað. Hæfileikum er ekki jafnt skipt á milli fólks og ósanngjarnt að vekja athygli á því. 

Sannleikur ímyndunar og hugrenninga á að vera sá raunveruleiki sem réttarkefið byggir á, þó það grafi algjörlega undan grundvallaratriðum og sjónarmiðum réttarríkisins um hlutlægan grundvöll sannleikans eins og Sókrates boðaði forðum.

Hvernig náði sá fáránleiki fram, að raungildi raunveruleikans sé spurningin um hvernig þér líður og hverjar tilfinningar þínar eru og þær komi helst til álita og skoðunar, ef þú tilheyrir þjóðfélagshópi, sem á það skilið að mati "góða fólksins."

Raunveruleiki og sannleikur er þá huglægur en ekki hlutlægur. Öld sófiastanna um valkvæðan sannleika er í dögun.

Skildu eftir skilaboð